is / en / dk

Jafnréttisáætlun Kennarasambandsins 2012 - 2014

KÍ telur mikilvægt að nýta til jafns þá auðlegð sem felst í menntun, reynslu og viðhorfum bæði kvenna og karla. Jafnréttisáætlun KÍ er ætlað að stuðla að jafnri stöðu og virðingu kvenna og karla sem starfa á vegum KÍ. Jafnréttisáætlun nær til allra sem starfa á vegum sambandsins, þ.e. allra kjörinna félagsmanna í t.d. stjórnum, nefndum og ráðum, trúnaðarmanna KÍ, ráðinna starfsmanna KÍ og sérfræðinga sem vinna fyrir sambandið, s.s. lögfræðinga, ráðgjafa á sviði starfsendurhæfingar o.s.frv.

Í jafnréttisáætlun KÍ er lögð áhersla á jafnan rétt kvenna og karla til launa, stöðuveitinga, starfa og þátttöku í nefndum og ráðum. Jafnframt er áréttað mikilvægi þess að bæði kyn fái notið símenntunar og starfsþróunar að jöfnu. Auglýsingar, upplýsingagjöf, einelti og kynferðisleg áreitni eru viðfangsefni jafnréttisáætlunar KÍ. Í jafnréttisáætlun skal gera grein fyrir vinnuferlum og því hvert einstaklingar geti leitað telji þeir að á þeim hafi verið brotið. Jafnréttisáætlun skal endurskoða árlega.

Við ákvörðun launa skal þess gætt að kynjum sé ekki mismunað. Konum og körlum skulu greidd jöfn laun og njóta sömu kjara fyrir jafn verðmæt og sambærileg störf. Kynjajafnréttis sé gætt við úthlutun hvers konar þóknunar og hlunninda, beinna og/eða óbeinna. Einnig skulu kynin njóta sömu kjara hvað varðar lífeyris-, orlofs- og veikindarétt og hvers konar önnur starfskjör eða réttindi sem metin verða til fjár sbr. 19. gr. Laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla (nr. 10/2008).

Markmið

Að karlar og konur fái sömu laun fyrir sömu vinnu.

Ábyrgð

  • Samninganefndir og stjórnir aðildarfélaga KÍ, samstarfsnefndir kjarasamningsaðila og trúnaðarmenn KÍ.
  • Stjórn KÍ og skrifstofustjóri KÍ.

Aðgerð

  • Viðmið við ákvörðun launa séu skýr og öllum ljós.
  • Kynna og fylgjast með úthlutun þóknana og hlunninda hjá KÍ.

Eftirfylgni og tími

  • Stöðumat gert við hverja kjarasamninga og árlega hjá samstarfsnefndum kjarasamningsaðila.
  • Skrifstofustjóri gerirsamantekt og kynnir fyrir stjórn KÍ fyrir ársfundi og þing.

Í nefndum og ráðum KÍ skal stefnt að því að bæði kynin eigi fulltrúa. Mikilvægt að rödd beggja kynja heyrist sem víðast.

Markmið

Leitast skal við að hvort kyn eigi fulltrúa í stjórn þegar stjórn er skipuð þremur mönnum. Þegar stjórn er skipuð fleiri en þremur skal leitast við að hlutfall annars kyns sé ekki lægra en 40%.
Sama gildir um skipun í nefndir og ráð.

Ábyrgð

Stjórn KÍ, stjórnir aðildarfélaga, framboðs- og uppstillingarnefndir KÍ og aðildarfélaganna og jafnréttisnefnd KÍ.

Aðgerð

Framboðs- og uppstillingarnefndir skulu leitast við að tilnefna bæði karla og konur í stjórn og stefnt skal að því að hlutfall annars kyns aldrei vera minna en 40%. Stjórn KÍ og stjórnir aðildarfélaga leitast við að tilnefna bæði karla og konur í nefndir og ráð.

Eftirfylgni og tími

Jafnréttisnefnd gerir samantekt og kynni stjórn KÍ niðurstöður sem síðan eru birtar á heimasíðu KÍ fyrir ársfundi og þing.

Í auglýsingum skulu störf vera ókyngreind og höfða til beggja kynja.

Markmið

Að auglýsingar séu ókyngreindar og höfði til beggja kynja.

Ábyrgð

Formaður og stjórn KÍ, formenn og stjórnir aðildarfélaga og skrifstofustjóri KÍ.

Aðgerð

Ábyrgðaraðilar auglýsinga og upplýsinga fara yfir það sem birt er í nafni KÍ.

Eftirfylgni og tími

Ábyrgðarmenn auglýsinga og upplýsinga geri samantekt og kynni fyrir jafnréttisnefnd árlega.

Þegar birtar eru tölfræðilegar upplýsingar á vegum KÍ skulu þær jafnan kyngreindar, eftir því sem við á.

Markmið

Að tölfræðilegar upplýsingar séu kyngreindar eftir því sem við á.

Ábyrgð

Hagfræðingur KÍ.

Aðgerð

Hagfræðingur gefi stjórn KÍ og stjórnum aðildarfélaga upplýsingar og birtir þær eftir því sem við á.

Eftirfylgni og tími

Jafnréttisnefnd fylgist með að markmiðin séu uppfyllt og upplýsir stjórn KÍ ef misbrestur eru á. 

Mikilvægt er að bæði konur og karlar vinni innan KÍ. Jafnréttissjónarmið verður að meta til jafns við önnur mikilvæg sjónarmið sem ráða við stöðuveitingar. Þess verði gætt að einstaklingum sé ekki mismunað vegna kynferðis við úthlutun verkefna eða þegar teknar eru ákvarðanir um framgang í störfum. Jafnframt skulu bæði kyn njóta sömu tækifæra til að axla ábyrgð.

Markmið

Leitast er við að hlutfall hvors kyns í stöðum stjórnenda verði ekki minna en 40%

Ábyrgð

Stjórn KÍ, stjórnir aðildarfélaga og skrifstofustjóri KÍ.

Aðgerð

Gerð sé samantekt á kynjahlutföllum í störfum innan KÍ ásamt yfirliti yfir auglýst störf, umsækjendur og ráðningar.

Markvisst sé fylgst með úthlutun verkefna og tilfærslum innan KÍ.

Eftirfylgni og tími

Skrifstofustjóri gerir samantekt og kynnir fyrir stjórn KÍ og jafnréttisnefnd hálfu ári fyrir þing KÍ.

Konur og karlar skulu njóta sömu möguleika til símenntunar og starfsþróunar. Til að tryggja það þarf símenntunarstefna að vera hluti af starfsmannastefnu KÍ og safna þarf skipulega upplýsingum um möguleika starfsfólks á símenntun og þátttöku þeirra.

Markmið

Að konur og karlar njóti sömu möguleika til símenntunar og starfsþróunar.

Ábyrgð

Formaður KÍ og skrifstofustjóri KÍ.

Aðgerð

Kyngreind samantekt með upplýsingum um þátttöku í símenntun.

Eftirfylgni og tími

Skrifstofustjóri gerir samantekt og kynnir fyrir stjórn KÍ og jafnréttisnefnd hálfu ári fyrir þing KÍ.

Komið skal fram við alla félagsmenn og starfsmenn af virðingu. Einelti, áreitni og ofbeldi líðst ekki. Telji félagsmenn sig verða fyrir slíku í störfum sínum fyrir KÍ eða af hendi starfsmanna KÍ skulu þeir leita til trúnaðarmanns, formanns síns aðildarfélags eða formanns KÍ. Starfsmenn KÍ skulu leita til sömu aðila. Komi upp sú staða að brotaþoli sé ósáttur við meðferð framangreindra aðila á máli sínu getur hann skotið því til jafnréttisnefndar KÍ sem ber þá skylda til að setja umrætt mál í hendur þar tilbærra aðila.

Jafnréttisáætlun þessi er unnin í samræmi við jafnréttisstefnu KÍ og við 18. grein laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 þar sem kveðið er á um að leggja beri áherslu á að tryggja konum og körlum jafnan rétt. Jafnréttisáætlun þessa skal endurskoða árlega.

Ef vafi leikur á túlkun atriða í jafnréttisáætlun má skjóta málinu jafnréttisnefndar KÍ.

 

Tengt efni