is / en / dk

29. Nóvember 2019

Kennarafélag Fjölbrautaskólans í Garðabæ segir algerlega óviðunandi að framhaldsskólakennarar hafi verið samningslausir í um níu mánuði. Stjórn félagsins hvetur samningsaðila til að herða á kjaraviðræðum enda sé grunnforsenda eðlilegs vinnumarkaðar að launþegar starfi eftir gildum kjarasamningi. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ályktun sem félagið sendi frá sér fyrr í dag. „Ábyrgð ríkisvaldsins er mikil i þessum efnum," segir í ályktuninni.

 

Ályktun stjórnar Kennarafélags FG um stöðu samningamála

Stjórn Kennarafélags Fjölbrautaskólans í Garðabæ hvetur samningsaðila í kjaramálum framhaldsskólakennara til þess að herða á vinnu í kjaraviðræðum ríkisins og Félags framhaldsskólakennara, FF.

Nú hafa framhaldsskólakennarar verið samningslausir í um níu mánuði og er þessi staða algerlega óviðunandi.

Að launþegar hafi gildan kjarasamning er ein af grunnforsendum eðlilegs vinnumarkaðar. Það á að sjálfsögðu við um framhaldsskólakennara, sem og aðra hópa á íslenskum vinnumarkaði.

Ábyrgð ríkisvaldsins er mikil í þessum efnum. Í nýlegri skýrslu OECD um Ísland er hamrað á mikilvægi menntunar fyrir frekari þróun íslensks samfélags.

Þess vegna ber ríkisvaldinu að sjá til þess að framhaldskólakennurum séu búin mannsæmandi launa og starfskjör og að staða sem þessi komi ekki upp.

Hvetur stjórn kennarafélags FG jafnframt önnur félög framhaldsskólakennara til þess að láta í sér heyra varðandi málið.
 

Tengt efni