is / en / dk

16. September 2019

Starfandi grunnskólakennarar geta nú sótt um tíu daga kennaraskipti eftir að samstarf milli Félags grunnskólakennara og Kennarasamtaka Alberta-ríkis í Kanada var komið á. Með samstarfinu gefst kennurum einstakt tækifæri til alþjóðlegrar starfsþróunar, læra og bera saman ólíkar aðferðir og mismunandi nálgun á starfið milli skólakerfa. Búið er að opna fyrir umsóknir en umsóknarfrestur er til 25. október 2019. Sótt er um kennaraskipti hjá Hjördísi Albertsdóttur, varafomanni Félags grunnskólakennara, í gegnum netfangið hjordis@ki.is. Hjördís veitir allar frekari upplýsingar. 

Umsækjendur þurfa að vera félagsmenn í Félagi grunnskólakennara með minnst fimm ára starfreynslu sem slíkir. Geta skilið og tjáð sig á ensku, búið yfir sveigjanleika, aðlögunarhæfni, samskiptahæfni og vera tilbúnir að starfa sem fulltrúar Íslands og íslensks skólakerfis á meðan á skiptunum stendur. Auk þess eru æskilegir kostir, frumkvæði, útsjónasemi og samfélagsleg þátttaka í heimabyggð.

Gisting á heimilum samstarfsfélaga
Kennari sem valinn verður í kennaraskipti fer í tíu daga í júní til Alberta. Íslenski kennarinn býr inni á heimili kandadíska samstarfsmannsins og fylgir honum til vinnu (e. shadowing). Tíu daga í mars/apríl kemur kanadískur kennari sem býr þá hjá íslenska kennaranum. Reynt verður að stíla inn á starfs- vetrarfrísdaga skiptikennarans í takt við skóladagatal mótttökukennarans. Kennari greiðir sjálfur ferðakostnað en getur sótt um styrk úr Vonarsjóði FG og SÍ samkvæmt gildandi reglum.

Pörun íslenskra og kanadískra kennara er byggð á umsóknum, þar sem horft verður til skólagerðar, áhuga og áherslu í verkefnum, kennslu og aðferðum, svo sem fagreinar, nám án aðgreiningar, fámennir/fjölmennir skólar og hvað annað sem umsækjanda dettur í hug að nefna eða óska eftir.

 

 

 

Tengt efni