is / en / dk

09. September 2019

 

Formannskosningar hjá Félagi framhaldsskólakennara hefjast 17. september og standa til 23. september. Í framboði eru Guðjón Hreinn Hauksson, starfandi formaður FF og framhaldsskólakennari í Menntaskólanum á Akureyri, og Gunnar Hólmsteinn Ársælsson, framhaldsskólakennari í Fjölbrautaskólanum Garðabæ. 

Kosningarnar verða rafrænar og fara fram á Mínum síðum

Kosning hefst:

  • Klukkan 12 þriðjudaginn 17. september

Kosningu lýkur:

  • Klukkan 14 mánudaginn 23. september. 
     

Kjörtímabil hins nýja formanns er frá næstu mánaðamótum til næsta reglulega aðalfundar Félags framhaldsskólakennara árið 2022. 

Minnum á opinn framboðsfund í Gerðubergi klukkan 20 miðvikudaginn 11. september. Fundurinn verður í beinni útsendingu á vef Netsamfélagsins.

 

Hér að neðan kynna formannsframbjóðendur sig og sínar helstu áherslur. 

 

Hvers vegna býður þú þig fram?
Ég brenn fyrir málefnum framhaldsskólans og hef á undanförnum árum sinnt trúnaðarstörfum fyrir félagsmenn. Fyrst í MA sem trúnaðarmaður og formaður kennarafélagsins en frá árinu 2015 hef ég verið virkur í stjórn FF, sem varaformaður og formaður skólamálanefndar.
 

Hvernig á formaður stéttarfélags að vera?
Lög félagsins og siðareglur kennara eiga að liggja störfum hans til grundvallar. Í siðareglum kennara segir að kennari gæti heiðurs og hagsmuna stéttar sinnar. Þetta tel ég einmitt vera eitt helsta hlutverk formanns í FF. Ég sé helst fyrir mér að formaður FF sé í þjónustuhlutverki við félagsmenn og hans meginhlutverk sé að stuðla að því að helstu einingar félagsins virki sem skyldi, samskipti milli félagsmanna gangi greiðlega og að lýðræðislega sé staðið að öllum stórum ákvörðunum. Félagið býr yfir ótrúlega fjölbreyttum mannauði sem þarf að virkja, viðhalda og næra. Það er vel skipulagt með kennarafélögum í hverjum skóla, öflugu trúnaðarmannakerfi og faggreinafélögunum. Þessar einingar þarf að tengja vel saman og tryggja gott upplýsingaflæði í allar áttir og þannig getum við saman myndað samheldna stétt með skýra sýn. Þarna liggur rauði þráðurinn í starfi formanns.
 

Helstu áherslur í kjaramálum

  • Með samningunum sem voru gerðir í apríl 2014 náðust mjög veigamiklar leiðréttingar á kjörum framhaldsskólakennara. En enn og aftur stefnir í að við drögumst aftur úr. Það kemur því ekki til greina af minni hálfu að semja til langs tíma nema tryggt verði að við fylgjum viðmiðunarhópum í þróun launa og kaupmáttar.
  • Vinnumat og stofnanasamningar eiga að stuðla að sveigjanlegra skólastarfi og framgangi kennara og ráðgjafa í starfi. Nauðsynlegt er að skólar fái aðstoð til að útfæra hvort tveggja, bæði innan úr FF og frá ríkinu, og ég vil láta útfæra þetta í kjarasamningum.
  • Nýliðun í framhaldsskólum er áríðandi mál og verður æ brýnna. Ég mun því beita mér fyrir því að minnka kennsluskyldu nýliða og bættum stuðningi við þá.
     

Helstu áherslur í skólamálum
Sumt af nýlegum aðgerðum í menntamálum hefur komið okkur á óvart og mál, eins og nýju lögin um menntun og ráðningu (95/2019), hafa verið keyrð í gegn án þess að kennarastéttin hafi fengið almennilegt svigrúm til þess að hafa raunveruleg áhrif. Svona á þetta að sjálfsögðu ekki að vera. Framhaldsskólakennarar verða að fylgjast betur með þeim kröftum sem eru að verki í samfélaginu, vera á tánum og viðbúin að taka þátt í allri hugsanlegri þróun skólamála. Við eigum ekki að spila vörn í þessum leik heldur sókn.

Kjörorð þitt! 
Framhaldsskólinn, fulla ferð áfram!

Annað sem þú vilt taka fram 
Ég vona að félagsmenn treysti mér áfram til góðra verka og hlakka mikið til að leggja mig allan fram við að efla íslenskan framhaldsskóla með því góða liði sem þar starfar.  

Hvers vegna býður þú þig fram?
Ég býð mig fram vegna þess að ég hef áhuga á að vinna að hagsmunamálum framhaldsskólakennara á Íslandi. Hef lengi starfað í félagsmálum og setið í stjórn kennarafélags FG, þar sem ég er nú formaður.

Hvernig á formaður stéttarfélags að vera?
Nokkur einkunnarorð formanns tel ég vera; framsýni, auðmýkt, kjark og víðsýni. Hann þarf að sýna baráttuhug, vilja og leiðsögn til góðra verka, með heildarhagsmuni kennara að leiðarljósi í sem víðustum skilningi.

Helstu áherslur í kjaramálum
Að viðhalda og styrkja enn frekar launaþróun kennara. Í ljósi minnkandi yfirvinnu, og jafnvel uppsagna á kennurum (sorglegt!), tel ég einsýnt að alvöru grunnlaunshækkanir eru það sem koma skal. Í kjaramálum er ég ekki tilbúinn að fórna áunnum réttindum og ,,selja” eitthvað til þess að fá eitthvað í staðinn. Það er ,,blóðfórn” að mínu mati. Sé það ætlun stjórnvalda að meta menntun að verðleikum (sem sífellt er kastað fram), þá tel ég einsýnt að alvöru hækkanir á grunnlaunum er það stefna ber að. Kennarar eru sérfræðingar og eiga að fá laun sem slíkir. Við erum best í því sem við gerum!

Helstu áherslur í skólamálum
Að vinna að því í að gera íslenskt menntakerfi enn betra en það er og gera það í stakk búið til þess að takast á við þær áskoranir sem hið flókna upplýsingasamfélag sem við lifum í stillir okkur gegn. Veruleiki ungs fólks hefur sennilega aldrei verið eins erfiður viðureignar og einmitt nú. Ég tel það vera hlutverk kennara(ns) að búa ungt fók undir þátttöku, líf og störf í þessu margslungna samspili. Það verður hinsvegar ekki gert með fjárvana menntakerfi; menntun krefst fjármagns! Mér sýnist viðhorf núverandi stjórnvalda til menntunar vera jákvætt og því ber að fagna. Viðhorf núverandi menntamálaráðherra, sem felst í því að gera íslenskt menntakerfi framúrskarandi, er lofsvert. Á sjónarmiðum sem þessum ber að byggja á til framtíðar.

Kjörorð þitt!
Fagmennska til framtíðar

Annað sem þú vilt taka fram
Að lokum vil ég nefna eftirköst leysifsbréfamálsins. Í því hallaði verulega á okkur framhaldsskólakennara. Niðurstaða þess voru okkur vonbrigði. Bíð spenntur eftir því hvað skipaður samráðshópur ráðherra mun gera. Er einnig hugsi um stöðu FF innan KÍ, sérstaklega þá staðreynd að mjög erfitt er fyrir okkur að fá formennsku í félaginu. Það er eitthvað sem þyrfti að ræða.

 

 

 

Tengt efni