is / en / dk

27. Nóvember 2018

Kennarafélög Menntaskólans í Kópavogi, Menntaskólans við Sund og Menntaskólans að Laugarvatni mótmæla hugmyndinni um að gefið verði út eitt leyfisbréf til kennara óháð skólastigum. Kennaranám byggir á því að auka hæfi og getu kennara til að kenna á hverju skólastigi fyrir sig og það þjónar ekki hagsmunum nemenda að gefa út eitt leyfisbréf.

Ályktun Kennarafélags Menntaskólans að Laugarvatni

Félagsfundur Kennarafélags Menntaskólans að Laugarvatni, haldinn 26. nóvember 2018, mótmælir hugmyndum um að gefið verði út eitt leyfisbréf til kennara óháð skólastigum, þ.e. á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi.
Félagið telur að þessar hugmyndir séu ekki til þess fallnar að hagsmunir nemenda séu hafðir í fyrirrúmi. Vegið sé að faglegum forsendum hvers skólastigs fyrir sig og farið sé á svig við þá meginreglu framhaldsskólans að kennarar skuli hafa fagþekkingu og leyfisbréf í viðkomandi kennslunámsgrein.
Félagið telur réttara að leita annarra leiða til að koma í veg fyrir kennaraskort.

Samþykkt samhljóða á áðurnefndum fundi.

 

Ályktun frá félögum FF og FS í Menntaskólanum í Kópavogi

Kennarafélag Menntaskólans í Kópavogi mótmælir hugmyndinni um að gefið verði út eitt leyfisbréf til kennara óháð skólastigum.
Sú kennsla sem fram fer á hverju skólastigi fyrir sig er ólík og þarfir nemenda hvers stigs mismunandi. Kennaranám byggir á því að auka hæfni og getu kennarans til að kenna á hverju skólastigi fyrir sig. Það þjónar ekki hagsmunum nemenda að gefa út eitt leyfisbréf þar sem kennarar með mismunandi fagþekkingu geti kennt á öllum skólastigum. Það hlýtur að verða að horfa til þess hve mismunandi námið er á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi og miða leyfisbréfið við markmið hvers skólastigs fyrir sig. Menntakerfið skal ávallt hafa fyrst og fremst hagsmuni nemenda að leiðarljósi.
Fyrir vikið telur Kennarafélag Menntaskólans í Kópavogi hugmyndina um sameiginlegt leyfisbréf á skólastigunum þremur vera vanhugsaða og mótmælir því kröftuglega þessum áformum.

 

Kennarafélag Menntaskólans við Sund

Aðalfundur Sundamanna, kennarafélags í Menntaskólans við Sund haldinn 22. nóvember 2018 lýsir yfir fullum stuðningi við allt það sem fram kom í ályktun félagsfundar FF frá því mánudaginn 19. nóvember sl.. Þá lýsa Sundamenn einnig yfir fullum stuðningi við stjórn FF og sendir henni baráttukveðjur í þeirri vinnu sem hún stendur frammi fyrir í tengslum við hugmynd ráðherra um að gefið verði út eitt leyfisbréf til kennara óháð skólastigum.

 

Álytkun Félags kennara við Menntaskólann í Reykjavík.

Áskorun Kennarafélags MH.


 

Tengt efni