is / en / dk

22. Nóvember 2018

Í kjölfar umræðu um áherslur Reykjavíkurborgar í málefnum leikskóla þar sem fjölga á plássum og taka börn fyrr inn í leikskóla hafa margar spurningar vaknað.

„Við hjá Félagi leikskólakennara höfum bent á að skynsamlegt væri að hægja á vexti leikskólastigsins og taka ekki inn yngri börn á meðan kraftur verði settur í nýliðun stéttarinnar,“ segir Haraldur F. Gíslason, formaður Félags leikskólakennara. Hjá Reykjavíkurborg er hlutfall leikskólakennara sem starfa við uppeldi og menntun tæplega 30%, en það hlutfall er einnig meðaltal allra sveitarfélaga. Samkvæmt lögum 87/2008 eiga að lágmarki 2/3 hlutar þeirra er sinna uppeldi og menntun í leikskólum að hafa leyfisbréf til kennslu á leikskólastigi eða 66,66%. 

„Fyrir fimm milljarða gæti borgin menntað 300 leikskólakennara á næstu fimm árum og aukið hlutfall leikskólakennara í sínum skólum umtalsvert. Væri það ekki skynsamlegra fyrst? Það mun ekki einungis bæta gæði náms í leikskólum heldur einnig bæta starfsaðstæður á leikskólastiginu, því einn af álagsþáttunum í starfinu er tíð starfsmannavelta leiðbeinenda og þeirra sem hafa annað háskólapróf en leikskólafræði. Tölur frá Hagstofu Íslands sýna að minnsta starfsmannaveltan er á meðal leikskólakennara. Við verðum að horfa á heildarmyndina og reyna að laga þetta í stað þess að setja meiri þrýsting á kerfið. Okkar markmið er að fylgja lögum landsins og að sjálfsögðu að sjá til þess að faglegt starf leikskólanna sé eins og það gerist best,“ segir Haraldur.

Tengt efni