is / en / dk

19. Nóvember 2018

Félag kennara Menntaskólans í Reykjavík mótmælir harðlega öllum hugmyndum um að gefið verði út eitt leyfisbréf til kennara óháð skólastigum, þ.e. leik-, grunn- og framhaldsskólastigi. Þetta kemur fram í yfirlýsingu félagsins og telur það mikilvægt að huga að þörfum og nauðsynjum hvers skólastigs fyrir sig og álítur hugmyndir um eitt leyfisbréf fyrir öll skólastig gjörsamlega óverjandi ef hafa eigi hagsmuni nemenda í fyrirrúmi. Með hugmyndunum sé alvarlega vegið að faglegum forsendum hvers skólastigs fyrir sig, sem og þeim grundvallarmannréttindum nemenda að tryggja þeim bestu fáanlegu menntun á hverju skólastigi.

Síðar í dag, mánudag, boðar stjórn Félags framhaldsskólakennara til almenns félagsfundar um hugmynd mennta- og menningarmálaráðherra um sameinað leyfisbréf fyrir kennara á öllum skólastigum. Fundurinn verður haldinn í sal Fjölbrautaskólans við Ármúla kl. 17:00.

Nánar um félagsfund FF.

Yfirlýsing Félags kennara við Menntaskólans í Reykjavík

Félag kennara Menntaskólans í Reykjavík mótmælir harðlega öllum hugmyndum um að gefið verði út eitt leyfisbréf til kennara óháð skólastigum, þ.e. leik-, grunn- og framhaldsskólastigi.

Telur félagið einkar mikilvægt að huga að þörfum og nauðsynjum hvers skólastigs fyrir sig og álítur hugmyndir um eitt leyfisbréf fyrir öll skólastig gjörsamlega óverjandi ef hafa eigi hagsmuni nemenda í fyrirrúmi. Með hugmyndunum sé alvarlega vegið að faglegum forsendum hvers skólastigs fyrir sig, sem og þeim grundvallarmannréttindum nemenda að tryggja þeim bestu fáanlegu menntun á hverju skólastigi. Má benda á að almennt megi stórlega efast um færni og sérhæfingu kennara af einu skólastigi til að ráðast í kennslu á öðru. Telur Félag kennara Menntaskólans í Reykjavík því að með slíkum hugmyndum sé gróflega vikið frá öllum þeim faglegu kröfum sem fylgt hafa hverju skólastigi.

Fyrir vikið lýsir Félag kennara Menntaskólans í Reykjavík yfir þungum áhyggjum af þeim grundvallarbreytingum á fyrirkomulagi menntunar ungdómsins sem birtist í slíkum framkomnum hugmyndum, og telur breytingarnar að öllu leyti varhugaverðar.

 

Tengt efni