is / en / dk

05. Nóvember 2018

Kanadískt skólafólk er í heimsókn hérlendis til að kynna sér íslenskt skólastarf. Nánar tiltekið er hópurinn frá Alberta í Kanada og í hópnum eru nemendur, kennarar og skólastjórar. Heimsóknin er hluti af ALICE, Alberta – Iceland International Research Partnership.

Hópurinn situr fund í dag ásamt fulltrúum Íslands og grundvallarspurning fundarins er hvernig alþjóðlegt samstarf geti gert skóla að betri stað. Eftir samræður íslensku nemendanna og þeirra kanadísku var niðurstaðan sú að íslenskir skólar eru fjölbreyttir og taka ríkulegt tillit til ólíkra þarfa nemenda. Kennarar eru góðir og vinalegir og taka mark á skoðunum nemenda og það sem ekki síst skipti máli, þeir standa við bakið á nemendum.

Það sem helst mætti bæta væri að taka geðrækt fastari tökum og auka samstarf og samskipti milli ólíkra skóla. Einnig þyrfti að dýpka umræður um grundvallaratriði eins og stjórnmál og samfélagsmál með áherslu á samtal, tjáningu og rökræður. Þá þyrfti að bæta kynfræðslu og hefja hana fyrr.

Hópurinn verður hér á landi til 9. nóvember nk. og mun á þeim tíma kynna sér íslenskt skólastarf.
 

 

 

Tengt efni