is / en / dk

21. Júní 2019

Í þessum pistli, og þeim næsta, verða til umræðu þær breytingar sem felast í nýjum lögum um menntun og ráðningu kennara og stjórnenda. Fyrri pistillinn fjallar um aðdraganda breytinganna og helstu atriði þeirra. Seinni pistillinn fjallar um ýmis áhrif sem reikna má með að lagabreytingin hafi á skólastarf og innleiðingu laganna. Þá verður rætt sérstaklega um áskoranir sem fylgja lögunum.

Hvers vegna er verið að breyta lögum?
Upp úr aldamótum var orðið ljóst að kennarastarfið væri að breytast. Þær kröfur sem gera þyrfti til kennara væru mun fjölbreyttari en áður. Þessum áskorunum þyrfti að mæta með markvissum hætti, sérstaklega hvað varðar menntun kennara. Mikil stefnumótunarvinna hófst í kjölfarið sem meðal annars snerist um breytt inntak kennarastarfsins.

Hvaða tillögur komu fram um breytingu á kennaramenntun?
Stofnaður var starfshópur í menntamálaráðuneytinu undir forystu Sigurjóns Mýrdals um framtíðarskipan kennaramenntunar. Hann lagði til níu breytingar á menntun kennara. Sumar þeirra hafa komist til framkvæmda, aðrar ekki. Í nokkurri einföldun voru tillögurnar þessar: 1) að kennaranám yrði 5 ára háskólanám, 2) að menntun starfsmenntakennara yrði aukin mjög, 3) að hið sama gilti um leikskólakennara í þessum efnum og aðra kennara, 4) að menntun skólastjórnenda yrði skilgreind og efld, 5) að kennsluréttindanám yrði fjölbreytt og að kennarar flæddu í auknum mæli milli skólastiga, 6) að þjálfun kennaraefna yrði aukin, t.d. með starfsári á vettvangi, 7) að skilgreind yrðu viðmið um inntak og starfshætti í kennara og stjórnendanámi, 8) að stofnað yrði kennslu-/kennararáð sem væri samstarfsvettvangur fagaðila, 9) að tryggð yrði stöðug símenntun kennara.

Hver var niðurstaða málþings Kennaraháskólans?
Á stóru málþingi um framtíð kennaramenntunar í Kennaraháskólanum í maí 2008 voru málefni kennaramenntunar krufin sem og tengsl hennar við háskólann. Meginniðurstaða málþingsins var þessi:

„Kennarar framtíðar skulu menntaðir til að takast á við fjölbreytt, dagleg viðfangsefni skólastarfs á faglegan og farsælan hátt. Þeir skulu ekki síður vera menntaðir til að leiða framtíðarþróun skólastarfs hver á sínu sviði. Þetta skal gert í nánum tengslum við umhverfið þ.m.t. væntanlegan starfsvettvang með áherslu á hæfni til að eiga í samstarfi við ólíka aðila innan og utan skólans.“

Í kjölfarið tók til starfa hópur sem skoða átti hvert inntak fimm ára kennaranáms ætti að vera. Þar var kallað eftir skýrari mynd af þeim hæfnikröfum sem gera ætti til kennara. Ein af tillögum starfshópsins var þessi:

„Skilgreind verði hæfniviðmið sem litið verði á sem almenn leiðarljós í kennaramenntun. Þau feli í sér þekkingu og færni til að skipuleggja kennslu sem hæfir ólíkum nemendum, rannsaka eigið starf, eiga samskipti við ólíka aðila, að vinna með samskipti, að leggja rækt við jákvæð viðhorf og mikilvæg gildi og hæfni til að vera leiðtogar á sviði kennslu og skólastarfs.“

Hver eru þessi hæfniviðmið?
Árið 2009 voru samin hæfniviðmið fyrir kennara. Þau drógu að verulegu leyti dám af umræðunni á málþinginu árið áður. Hér eru þau samandregin:

1. Búa yfir þekkingu og færni til að skipuleggja nám og námsumhverfi sem hæfir ólíkum einstaklingum í fjölbreyttu samfélagi.
a. búa yfir þekkingu og skilningi á sögulegu, félagslegu og menningarlegu gildi menntunar og skólastarfs.
b. hafa frumkvæði og vera skapandi í skipulagi náms og námsumhverfis.
c. geta aðlagað nám og námsumhverfi á þann vega að nemendur (börn, ungmenni og fullorðnir) geti unnið sjálfstætt og með öðrum.
d. hafa gott vald á viðfangsefni sínu í kennslu.

2. Geta átt samskipti við ólíka aðila og unnið með samskipti í skólastarfi.
a. hafa á valdi sínu fjölbreyttar leiðir í samskiptum sínum við þá aðila sem tengjast skólastarfi; nemendur, foreldra, samkennara og annað fagfólk
b. vera fyrirmyndir í samskiptum og búa yfir hæfni til að styrkja félags- og samskiptafærni nemenda.

3. Leggja rækt við jákvæð viðhorf og mikilvæg gildi.
a. hafa þekkingu og færni til að vinna með siðferðileg og félagsleg gildi s.s. sanngirni, heiðarleika, réttsýni, víðsýni, lýðræði og mannréttindi.
b. vera færir um að meta samfélagsleg gildi menntunar og setja í samhengi við hlutverk hvers skólastigs.

4. Vera leiðandi á sviði uppeldis, náms og menntunar.
a. hafa fræðilega þekkingu í uppeldis og menntunarfræði ásamt færni til að beita henni við skipulag og stjórnun.
b. hafa yfirsýn yfir markmið og skipulag skólastarfs.
c. vera færir um að beita þekkingu sinni og ígrunda, þróa og rannsaka eigið starf og starfshætti.
d. hafa forsendur til að endurnýja starfshætti sína og stuðla að betri árangri með því að gera rannsóknir á eigin starfi og nýta rannsóknir annarra. 

Of metnaðarfull viðmið?
Þótt liðinn sé áratugur frá samningu þessara hæfniviðmiða er ljóst að um mjög metnaðarfull viðmið er að ræða. Hér er gerð krafa um að þörfum ólíkra nemenda sé mætt, víðtækt samstarf og forystuhlutverk í skólasamfélaginu – auk þess sem kennarinn skal byggja starf sitt á mikilvægum siðferðilegum gildum. Þó er erfitt að sjá hvort einhverju gæti verið ofaukið og líklega er þetta bæði sanngjörn og réttmæt lýsing á hinu flókna hlutverki kennarans í nútímanum.

Hvað þarf til svo kennari hafi vald á viðfangsefnum sínum?
Eitt viðmiðanna segir að kennari skuli hafa gott vald á viðfangsefnum sínum í kennslu. Þar sem viðfangsefni geta verið býsna ólík þurfa kröfur til kennara að geta verið fjölbreyttar og ólíkar. Hversu mikla stærðfræði þarf kennari að hafa lært til að geta kennt öðrum stærðfræði? Hversu mikla siðfræði þarf kennari að hafa lært til að kenna lífsleikni? Þarf minni málfræðiþekkingu til að kenna minni börnum íslensku?

Eru fimm ár nóg?
Spurningin um sérhæfingu verður þeim mun meira aðkallandi í ljósi hinna metnaðarfullu almennu markmiða. Það er hægur vandi að færa rök fyrir því að fimm ára námstími í háskóla dugi hvergi nærri til svo vel megi leggja rækt við almennu markmiðin ein og sér. Að einhverju leyti má svara slíkum rökum þannig að þótt fimm ára kennaranám sé vissulega kjarni kennarastarfsins þá sé það kannski fyrst og fremst hlutverk þess að flétta saman, með bæði hagnýtum og akademískum aðferðum, ýmsa þræði í aðdraganda námsins og þann veruleika sem bíður að námi loknu. Að háskólanám kennarans hafi m.a. þann tilgang að draga fram ákveðna þætti í góðri, almennri undirstöðumenntun og gefa nemandanum tækin sem þarf til að halda áfram að læra eftir að í starfið er komið. Þetta gildi bæði um hið almenna svið og hið sérhæfða enda geti annað háskólanám auðveldlega fléttast saman við nám kennaranemans og orðið öflugur forði þekkingar og reynslu.

Hvað felst í kennaramenntunarlögunum 2019?
Með lagabreytingunni nú er gerð tilraun til að smíða hæfniramma utan um kennarastarfið. Sá rammi á að vera leiðarljós við menntun og starfsþróun kennara og vera skilyrði þess að fólk fái vottun sem kennarar í formi leyfisbréfs. Í lögunum er gerður greinarmunur á almennri hæfni kennara og sérhæfðri. Skilgreind eru tiltekin lágmörk almennrar og sértækrar hæfni og geta því skólar og nemendur raðað saman fimm ára kennaranámi á fjölbreyttan hátt.

Hver er hin almenna hæfni kennara?
Hin almenna hæfni kennara, eins og henni er lýst í lögunum, er byggð á þeirri vinnu sem rædd var hér að framan. Henni er skipt í sjö þætti:

  1. Hæfni til að skapa hvetjandi námsumhverfi sem tekur mið af lýsingum á markmiði og hlutverki laga um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla og birtist í aðalnámskrám sem settar eru á grundvelli þeirra.
  2. Hæfni til að leggja mat á stöðu og framfarir nemenda.
  3. Hæfni til að hafa í störfum sínum velferð og menntun nemenda að leiðarljósi og koma fram við þá af virðingu og fagmennsku sem byggist á lýðræði og jafnrétti.
  4. Hæfni til að vinna að jákvæðum skólabrag og öruggu skólaumhverfi og stuðla að samfélagslegri ábyrgð nemenda.
  5. Hæfni til að stuðla að farsælu og uppbyggilegu samstarfi við heimili og forsjáraðila nemenda á jafnréttisgrundvelli.
  6. Hæfni til að miðla þekkingu sinni á íslensku eftir því sem við á.
  7. Hæfni til að vera faglegur leiðtogi sem leggur sig fram um að skapa umbótamiðað lærdómssamfélag, taka ábyrgð á eigin starfsþróun og vinna að henni alla starfsævina.

Tryggt skal að a.m.k. 60 einingar í háskólanámi kennara hnitist um þessi markmið. Ekkert er því þó til fyrirstöðu að það sé meira.

Hver er sérhæfð færni kennara?
Styr hefur staðið um það hvernig skilgreina eigi sérhæfða færni kennara. Niðurstaða laganna er sú að á hverju skólastigi skuli tryggt að kennaranemar hafi sérhæft sig í viðfangsefnum þess skólastigs eins og þau eru skilgreind í aðalnámskrá. Lágmarkið er misjafnt. Þannig veitir starfsréttindapróf réttindi til kennslu á viðkomandi sviði í framhaldsskóla og grunnskóla. Skólastjórar skulu sérhæfa sig í skólaþróun, rekstri og stjórnsýslu (án þess að getið sé um viðmið í einingafjölda). Í leik- og grunnskóla og á fyrsta hæfniþrepi framhaldsskóla skal sérhæfing ekki vera minni en 90 háskólaeiningar á viðkomandi námssviði. Framhaldsskólakennsla á 2.-4. þrepi krefst fyrstu háskólagráðu í greininni. Það gerir einnig kennsla þriðja tungumáls í framhaldsskóla.

Gert er ráð fyrir því að kennarar geti aukið sérhæfingu sína hvenær sem er á ferlinum og þannig orðið gjaldgengir á fleiri en eitt skólastig eða á fleiri en einu námssviði - eða dýpkað sig á einu tilteknu sviði, sem gæti til dæmis verið lífsleikni eða lestrarkennsla.

Skólastjórnendur bera síðan ábyrgð á að tryggja að sú færni sé til staðar sem skólastarfið kallar á. Í auglýsingum geta þeir gert kröfur umfram hið lagalega lágmark, t.d. með því að óska eftir kennara í framhaldsskóla með meistaragráðu í námsgrein eða leikskólakennara með verulega sérhæfingu í útikennslu.

Hvernig breytist hæfniramminn með tímanum?
Á grundvelli hinna nýju laga skulu háskólar þróa kennaranám sem uppfyllir skilyrði laganna. Þeir eru hvattir til að gera það á fjölbreyttan hátt og að hafa í huga hinn síbreytilega veruleika, t.d. hvað varðar upplýsingabyltinguna. Til að mæta þörfum fyrir grundvallarbreytingar í framtíðinni skal stofna kennararáð sem hefur það m.a. að hlutverki að reyna að auka veg kennarastarfsins og kennaramenntunar og fylgjast með alþjóðlegri þróun til að vera ráðherra til ráðgjafar um þær breytingar sem gera þarf á lagarammanum til að mæta hinum síkvika veruleika.

Lögin hafa því m.a. það hlutverk að skapa ramma utan um veruleika sem er í sífelldri þróun. Þeim er ætlað að vera nægilega sterkur rammi til að tryggja gæði menntunar en um leið nægilega sveigjanlegur til að halda ekki aftur af nauðsynlegum breytingum.

Hvað er MT gráða?
Gert er ráð fyrir því að opnað verði fyrir það fljótlega að kennaranemar velji hve rannsóknamiðuð áhersla þeirra sé í náminu og að hægt verði að ljúka réttindanámi með nýrri gráðu, MT (Master of Teaching). Kennarar sem það kjósa þurfa að bæta við sig rannsóknarmiðuðu námi til að hefja síðar doktorsnám, kjósi þeir það. Kjósi þeir það ekki minnkar umfang lokaverkefnis og umfang annars náms eykst á móti. Samhliða þessu má búast við aukinni áherslu á hagnýtingu námsins með möguleika á starfsnámi á fimmta ári sem þegar er komið til framkvæmda. 

Hvað með eldri leyfisbréf?
Eldri starfsréttindi eru í fullu gildi og teljast ígildi sérhæfðrar færni á því skólastigi sem leyfisbréfin voru gefin út á í upphafi. 

Hvers vegna eru ólíkar menntunarkröfur gerðar til kennara innan framhaldsskólans?
Framhaldsskólinn nýtur ákveðinnar sérstöðu að því leyti að hann hefur ekki aðeins tvö aðliggjandi skólastig (það hefur grunnskólinn líka) heldur er nám í framhaldsskóla beinlínis skilgreint þannig að það geti farið fram á þremur ólíkum skólastigum. Nám í framhaldsskóla getur skipst á fjögur hæfniþrep. Hæfniþrepin eru skilgreind út frá námi nemendanna og eru raunar ekki háð skólastiginu sem slíku. Fyrsta þrepið á framhaldsskólinn sameiginlegt með grunnskólanum og þar er einkum miðað að almennri menntun. Á hæfniþrepum 2 og 3 eykst áhersla á sérhæfingu. Nám á fjórða hæfniþrepi fer í einhverjum tilvikum fram innan framhaldsskólanna og er þá um að ræða nám sem samsvarar grunnnámi á háskólastigi.

Samkvæmt námskrám er gert ráð fyrir því að „þorri nemenda“ hafi lokið fyrsta hæfniþrepi í grunnskóla og lögin gera því ráð fyrir sömu lágmarksmenntunarkröfum til kennara sem kenna nám á fyrsta hæfniþrepi, óháð því á hvoru skólastiginu námið er tekið. Að sama skapi er gert ráð fyrir því að framhaldsskólakennari eigi nú greiða leið að kennslu í grunnskóla af sömu ástæðu.

Enn aðrar menntunarkröfur eru síðan gerðar til framhaldsskólakennara í greinum sem leiða til starfsréttinda. Þeirri spurningu er því enn ósvarað hvort flytja skuli slíkt kennaranám í auknum mæli upp á háskólastig eins og hugmyndir voru um í upphafi. Það bíður væntanlega kennararáðs að ræða það í samstarfi við hagaðila og stjórnvöld.

 

Ragnar Þór Pétursson, formaður KÍ.


 

Tengt efni