is / en / dk

07. Maí 2019

Einu sinni sagði stjórnmálamaður að breytingar í skólamálum væru nánast ómögulegar. Að breyta skólum væri eins og að flytja kirkjugarð, maður skyldi ekki reikna með neinni hjálp innan frá.

Þetta fannst honum dálítið fyndið hjá sér. Þetta er enda hnyttni af því tagi sem lengi hefur hrifið í íslenskri hreppapólitík. Fátt brynjar mann betur gegn gagnrýni en snertur af háði um gagnrýnandann. Hefði stjórnmálamaðurinn hins vegar hugleitt málið í augnablik hefði honum orðið ljóst að kjarni vandans lá kannski dálítið nær honum en hann ætlaði.

Við kennarar erum kannski fyrst og fremst sérfræðingar í breytingum. Markmið náms er að börn fari heim úr skólanum öðruvísi en þau mættu. Við gjörþekkjum líka þá tilfinningu sem stjórnmálamaðurinn lýsti. Við þekkjum það að reyna að kenna einhverjum sem ekkert leggur af mörkum sjálfur. 

Slíkt ástand er hvorki nám né kennsla.

Engum kennara dytti í hug að kenna heila önn án minnsta votts þess að nemendur tækju þátt. Það væri jafn fánýtt og að reyna að mála háan vegg með stuttum pensli. Einhverju þarf að breyta svo það gangi upp.

Það sem stjórnmálamaðurinn virðist ekki hafa áttað sig á var að kjarni breytinga í skólastarfi er að þeir sem eiga að breytast mega ekki bara bera ábyrgð á áhuga sínum á breytingunum – þeir þurfa að bera ábyrgð á breytingunum sjálfum.

Nú stendur skólakerfið frammi fyrir breytingum, m.a. vegna tækniframfara. Breytingarnar eru stórmál og alls ekki sjálfgefnar. Hefðbundinni kennslu hefur verið spáð dauða í heila öld. Fyrst vegna raddupptöku, svo vegna útvarpssendinga, þá vegna sjónvarpssendinga og loks vegna myndbandstökutækninnar. Engin tæknibylting hefur hingað til skákað kennslubókinni. Það gerðu tölvurnar ekki heldur þegar þær hófu innreið sína. 

Ástæðan er sú að þótt tæknin auðgi á margan hátt líf okkar þá hefur hún ekkert innbyggt forskot við miðlun þekkingar gagnvart eldri tækni, bók og kennara. 

Málið er að þekking er bara einn angi menntunar. Tilgangur menntunar er að nesta börn með því sem þarf til að þau verði virkir þátttakendur í góðu samfélagi. Þar skiptir ekki bara máli hvað þú veist, heldur líka hvað þú getur.

Við horfum á heiminn breytast. Þegar faðir minn var ungur safnaði hann aurum og keypti hljómplötur. Heima átti hann flottan plötuspilara, öfluga magnara og rándýra hátalara. Einu sinni tók hann sig til og tengdi ljósaperur við magnarann þannig að ljósin flöktu í takt við tónlistina. Mörgum árum seinna áttu sér stað skipti yfir í geisladiska. Það var ekki alveg einfalt mál en gekk þó upp á endanum. Græjurnar höfðu enn stóran sess í stofumyndinni og diskunum var raðað eftir nánast fullkomnu kerfi í þar til gerðar hillur og skúffur. Stóra höggið kom með Spotify. Þá var fólk skyndilega farið að hlusta á tónlist í símunum sínum, án þess þó að geyma hana þar. Kaupa þurfti áskrift ef hlusta átti af einhverju viti og tengja síðan símann með þráðlausum hætti við hátalara. Til að komast klakklaust í gegnum þetta þurfti örugga handleiðslu yngri kynslóðarinnar.

Tímabilið frá 10CC til Cardi B er auðvitað bara augnablik í sögu mannsandans. Sú umbylting sem orðið hefur á tækninni er þó gríðarleg og sýnir með afgerandi hætti að við erum stödd í byltingu. Byltingin mun ekki, þótt einhver freistist til að álykta sem svo, snúast um það hvað teljist góð og vond tónlist – hún mun snúast um aðgengi þitt að tónlistinni og vald yfir henni.

Tæknin mun til framtíðar skilgreina áhrifavald okkar – og þess vegna verður hún að einhverju leyti viðfang almennrar menntunar. Sú breyting þarf þó að taka mið af þeim lögmálum sem almennt gilda um breytingar. Hún verður ekki gerð utan frá.
Tækni í skólastarfi má ekki snúast um tækin. Það að tæki séu í notkun (eða ekki í notkun) segir eitt og sér ekki neitt. Það sem skiptir öllu máli er hvernig þau eru notuð (eða ekki notuð) og af hverjum. 

Það hljómar hjákátlega nú en sú var tíð að það ríkti ekki almenn sátt á Íslandi um að læsi væri nauðsyn hverjum manni. Enn meiri andstaða var við almenna kennslu skriftar. Á öllum tímum hafa verið uppi raddir þeirra sem skilgreina grunnmenntun þröngt og telja ásættanlegt eða jafnvel ákjósanlegt að takmarka áhrifasvið nemenda.

Það er ekki svo langt síðan að heimur hins ritaða máls fléttaðist saman við veruleika Íslendinga. Það breytir því þó ekki að við erum löngu farin að skilgreina okkur sem íbúa beggja heima. Esjan minnkaði ekkert við það að Sigurður Þórarinsson skyldi yrkja um hana. Heimur okkar stækkaði við það að taka loks til ritaðs máls. 

Hið sama gildir um tæknina.

Þess vegna snertir tæknin raunar þegar grunnþætti færni okkar. Það er ekki í boði að tréna í viðhorfi gagnvart henni eins og maður hefur tilhneigingu til að tréna í smekk. Skólastarf má ekki snúast um smekk – og umræðan um tækni og skólastarf þarf að komast úr þeim förum að hún snúist um áhuga eða andstöðu. Það þarf að fela skólum þá ábyrgð að gera þær breytingar sem gera þarf. Það kallar m.a. á breytingar á kennaranámi, markvissa starfsþróun og öflugt faglegt samstarf.
Breytingarnar þurfa svo kennararnir sjálfir að bera uppi og stýra. Fái þeir það ekki getum við allt eins jarðað þá með spjaldtölvur og vonað það besta.


Leiðari Ragnars Þórs Péturssonar, formanns KÍ, birtist í Skólavörðunni, 1. tbl. 2019

Skólavarðan 1. tbl. 2019
 

Tengt efni