is / en / dk

30. Apríl 2019

Vér erum lagabrögðum beittir

og byrðar vorar þyngdar meir,

en auðmenn ganga gulli skreyttir

og góssi saman raka þeir.

Nú er tími til dirfsku og dáða.

Vér dugum, - þiggjum ekki af náð.

Látum, bræður, því réttlætið ráða,

Svo ríkislög vor verði skráð.

 

Þannig hljómar þriðja erindi Internationalsins (Nallans) í íslenskri þýðingu Sveinbjarnar Sigurjónssonar. Það er áhugavert að bera þetta erindi saman við upprunalegu frönsku útgáfuna. Þar er blæbrigðamunur. Franska útgáfan er almennari, fjallar um réttindi og byrðar; að réttindi hinna ríku séu meiri og byrðarnar léttari. Byrðar hinna fátæku séu raunverulegar og réttindin orðin tóm.

Hugsunin í íslensku útgáfunni er þessi: að lögin séu ósanngjörn, að hinir ríku safni sífellt meiri auði og að nú sé tími til að berja í gegn kerfisbreytingar með því valdi sem til þarf.

Kunnuglegt ekki satt?

Mér hefur fundist sem þetta séu hugmyndir sem nú ganga ljósum logum um íslenskt samfélag – og viðeigandi er að gefa þeim gaum á baráttudegi verkalýðsins, fyrsta maí.

Það var verkalýðshreyfingin sjálf sem gerði þennan dag að grundvallardagsetningu í mannkynssögunni. Fyrsta maí árið 1886 ákvað hin sameiginlega verkalýðshreyfing Norður-Ameríku einhliða að átta stunda vinnudagur tæki gildi.

Ákvörðuninni var fylgt eftir með valdi – og valdi var beitt gegn henni. Afleiðingin urðu banvæn átök og harðar refsingar.

 

Þversögnin í baráttunni

Barátta verkalýðsins varð snemma býsna framsækin. Átta stunda vinnudagur átti að skipta starfsævinni í þrjá jafna hluta: vinnu, einkalíf og hvíld. Á sama tíma var t.d. barist fyrir upptöku skyldunáms fyrir börn og banni við að þau væru látin vinna.

Verkalýðsbarátta hefur nefnilega frá upphafi snúist um að skapa mannúðlegt samfélag þar sem samfélagið allt fær notið hæfileika alls fólks – og allt fólk fær notið samfélagsins. Baráttan hefur snúist um samfélagsbreytingar, byltingar jafnvel, með það að markmiði að breyta lífi fólks til hins betra.

Byltingin er þó ekki þversagnarlaus. Á hverjum tíma skilgreinir hver hagsmuni sína með eigin nefi. Í dag vitum við hve fráleitt það var af vinnuveitendum að krefjast vinnuframlags langt umfram fjörutíu tíma á viku. Allir tapa á slíku fyrirkomulagi. Aukin áhersla á hvíld og einkalíf gagnast öllum, eykur hagvöxt og hefur verið ein af myndugustu vörðunum á leið til aukinnar velmegunar.

Fleiri vörður finnast á þessari leið. Tæknin er grundvöllur viðamikilla samfélagsumbóta og breytinga á hlutverki verkafólks. Opið og frjálst samfélag er það líka.

Hið byltingarkennda eðli verkalýðsbaráttu vegur sífellt salt við þá hagsmuni sem óbreytt ástand varðveitir. Ýmsar af kröfum hinnar fyrstu verkalýðsforystu lutu að því að verja óbreytt ástand. Það að berjast gegn barna- og fangaþrælkun var um leið barátta fyrir fjölgun tiltekinna tegunda starfa. Krafa um háa verndartolla og bann við erlendu vinnuafli var grímulaus sérhagsmunagæsla.

Þetta þversagnarkennda eðli verkalýðsbaráttunnar er líklega óumflýjanlegt. Verkalýður með sjálfsvirðingu finnur göfgi í starfi sínu, einhvern tilgang. Sá tilgangur verður fyrr eða seinna nátengdur starfinu eins og það er – sem myndar þá spennu við viljann til breytinga og byltinga.

Átta stunda vinnudagur samrýmist ekki endilega þeirri dyggð að vinnan göfgi manninn og enn í dag þrífst í nútímasamfélagi hálfsiðferðileg krafa um dugnað og vinnuhörku. Þegar vélar leystu vöðva af hólmi brugðust sum samtök verkamanna við með því að nota vöðvana til að mölva vélarnar.

Samkvæmt öllum spám stöndum við nú í miðri upplýsingatæknibyltingu sem á fáeinum áratugum mun gerbreyta mannlegu samfélagi. Svo er komið að þú getur ferðast frá Íslandi til erlendra borga og notið þar allrar þjónustu sem þörf er á án þess að eiga eitt einasta samtal við aðra manneskju.

Það verður ekki einfalt fyrir verkalýðshreyfinguna að búa við þennan veruleika. Líklegt er að krafan um varðstöðu, óbreytt ástand verði í auknum mæli ofan á þegar rótgróin störf breytast og hverfa jafnvel með öllu. Slík barátta hefur tilhneigingu til að byggja á misskilningi og er álíka fánýt og að verja vöðvaaflið gegn vélvæðingu með því að lemja á vélunum.

 

Hvert viljum við fara?

Nú er tími til dirfsku og dáða.

Vér dugum, - þiggjum ekki af náð.

Sá andi sem sveif yfir vötnum í upphafi verkalýðsbaráttunnar og gerir það reyndar enn krefst aðgerða, athafna, baráttu og byltingar. Kjarni samfélagsbyltinga hlýtur alltaf að vera sæmileg þekking á því hvert fólk vill stefna.

Blindur baráttuandi er harla lítils virði – jafnvel skaðlegur.

Þess vegna er það fagnaðarefni að samfélagsumræðan á Íslandi og verkalýðspólitík hefur í auknum mæli farið að snúast um grundvallaratriði: Jöfnuð og jafnrétti, mörk vinnu og einkalífs og vernd hinna verst settu.

Það flækir myndina að á hverjum tíma þarf verkalýðshreyfingin að halda á lofti hagsmunum a.m.k. fjögurra hópa: Þeirra sem eru á vinnumarkaði, þeirra sem lokið hafa störfum, þeirra sem eru á „vinnualdri“ en eru utan markaðarins, t.d. vegna veikinda eða örorku – og þeirra sem munu koma til með að vera á vinnumarkaði á næstu áratugum. Þá kemur ekki annað til greina en að hagsmunamatið nái með virkum hætti til enn víðara sviðs, t.d. almennra mannréttinda og náttúruverndar.

Það liggja fyrir stórar samfélagslegar spurningar um vinnumarkaðsmál, almannatryggingamál og örorkumál á Íslandi. Allt eru þetta flóknar og margslungnar spurningar sem snerta grundvallaratriði.

Þeim þarf samt að svara.

Ég held að lykillinn að slíku svari geti legið í upphaflegu hugmyndafræðinni á bak við fyrsta maí. Verkalýðshreyfingin ákvað einhliða að vinna skyldi ekki vera meira en þriðjungur að lífi verkamanns. Hann skyldi njóta stuðnings til þess að geta átt einka- og fjölskyldulíf og til að njóta eðlilegrar hvíldar.

Einkalíf er ekki bara mælt í tíma. Það er líka mælt í tækifærum. Ég held að okkur beri að sjá til þess að við njótum öll raunverulegra tækifæra. Að tækifærin séu, ekki síður en réttindin, eitthvað meira en orðin tóm.

Ef launin fyrir vinnudaginn duga ekki til að fjármagna grunnþarfir, fjölskyldu- og einkalíf þá mun vinnan fyrirsjáanlega aukast og taka yfir meira en átta tíma á dag. Af því leiðir síðan sá tími sem þarf til að sjá sér farborða étur upp þann tíma sem fara átti í einkalífið. Við þurfum hvort tveggja: tíma og tækifæri.

Stytting vinnuvikunnar væri stórt skref í átt til aukins tíma. Tækifærin eru flóknara mál. Hækkun launa getur fjölgað tækifærum upp að vissu marki. Þar þarf þó fleira að koma til. Sérstaklega má nefna í því samhengi grunnkerfin okkar, sérstaklega þau sem halda utan um menningu, menntun og heilbrigði. Án sterkra grunnkerfa geta tækifærin orðið orðin tóm.

Við, sem störfum á vettvangi grunnkerfanna, höfum fulla ástæðu til að halda baráttunni áfram. Þar þurfum við að finna jafnvægi á milli baráttu, byltinga og óbreytts ástands. Að því leyti er barátta verkalýðsins síkvik, sígild og sílifandi – allt frá fyrsta fyrsta maí til okkar daga.
 

Tengt efni