is / en / dk

08. Apríl 2019

Í þessu erindi ætla ég að reyna að rökstyðja þá skoðun mína að hinir svokölluðu „lífskjarasamningar“, sem undirritaðir voru á dögunum, séu ekki, og geti ekki verið, nægur grundvöllur nýrrar „Þjóðarsáttar“. Að því sögðu marka samningarnir ákveðin tímamót og í aðdraganda þeirra afhjúpuðust veikleikar sem taka þarf til greina við smíði frekari sáttar – sem og ákveðnir styrkleikar sem geta varðað leiðina áfram.


1. Margar af áskorunum íslensks samfélags eiga sér sömu rótina. Það er erfitt að reka sjálfstæðan gjaldmiðil fyrir þjóð sem telur þriðjung af milljón. Það er líka erfitt að viðhalda sjálfstæðu tungumáli og menningu. Því fylgja áskoranir reka menntakerfi í strjálbyggðu landi – sem og aðra grunnþjónustu. Það er einfaldlega erfitt að vera sjálfstæð smáþjóð í samfélagi nútímans.

2. Að sumu leyti er ákveðið stefnu- og agaleysi einkennandi fyrir samfélagið okkar. Í gær sá ég á Twitter tvö myndbönd. Annað frá þjóðvegi á Vesturlandi, hitt úr þýskri stórborg. Á íslenska myndbandinu sást hvar vörubíll mætti ökumanni sem var að reyna að troða sér fram fyrir annan ökumann í blindbeygju. Á síðustu stundu tókst að forða stórslysi. Þýska myndbandið var líka tekið í umferðinni. Þar sást hvar hópur af öndum stóð stilltur og prúður við gangbraut og beið eftir græna kallinum. Þegar hann birtist gengu endurnar fumlaust og kvakandi yfir gangbrautina vegfarendum til mikillar skemmtunar. Mér var hugsað til þess, í samhengi þessa erindis sem ég vissi að ég væri að fara að flytja, að myndrænna teikn um þýskan aga og íslenskt agaleysi væri kannski ekki hægt að finna. Meira að segja fuglar virðast fara eftir umferðareglunum í Þýskalandi.

3. Slys eru tíð í íslensku samfélagi. Það tók sex ár að gera landið gjaldþrota frá því bankarnir voru einkavæddir. Það tók átta ár fyrir Wow að fara á hausinn þrátt fyrir nánast takmarkalausan vöxt ferðaþjónustu allan þann tíma. Uppgangi ferðaþjónustu fylgdu gegndarlaus félagsleg undirboð á vinnumarkaði sem í sumum tilfellum stöppuðu við þrælahald – og íslenskur húsnæðismarkaður varð að skrímsli sem át upp kjarabætur stórs hóps. Allt eru þetta slys – sum hefði mátt fyrirbyggja, við öllu hefði þurft að bregðast miklu fyrr en gert var.

4. Eftir hrun bankakerfisins voru orsakir þess rannsakaðar. Meðal þess sem kom í ljós voru alvarlegir brestir í samfélagsgerðinni sem meðal annars birtast í agaleysi og meðvirkni; fúski og tregðu til að læra af mistökum og öðrum. Ofan í kaupið bættist pólitísk veiklun og óreiða. Það verður erfitt, ef ekki útilokað, að byggja hér upp þjóðfélag sem sátt er um fyrr en búið er að taka á þessum grunnvallaratriðum. Síðustu ár hafa ekki verið ýkja traustvekjandi. Ferðaþjónusta og makríll björguðu okkur fyrir horn en sama tíma hefur orðið deginum ljósara að grundvallarbrestirnir eru í fullu fjöri (munið þið eftir hótelstjóranum sem bannaði gestum að drekka vatn úr krönunum en lét þá í stað þess kaupa sama vatn á terpentínubrúsum fyrir 400 kall? Munið þið eftir bílaleigunni sem skrúfaði niður kílómetramælana í bílum sínum?). Hvað varðar pólitískan stöðugleika þá er kannski lýsandi að frá hruni hefur forsetinn þurft að setja nýjan forsætisráðherra inn í starf á rétt rúmlega tveggja ára fresti og traust á Alþingi hefur aldrei verið minna.

5. Það er nefnilega svo að bæði mannlíf og náttúra á Íslandi er býsna óstöðugt. Við slíkar aðstæður er erfitt að búa til sátt – þótt færa mega sterk rök fyrir því að hvergi sé það mikilvægara.

6. Að sumu leyti er íslensk þjóðmálaumræða skaðleg, yfirborðskennd og ótrúlega tilfinningadrifin. Við erum sífellt krafin um tilfinningalega afstöðu til allra mála. Það veldur því auðvitað að umræðan hefur tilhneigingu til að pólast og við hunsum gjarnan agnúa og flækjustig. Það virðist dyggðugra að aðhafast af réttum hvötum en að aðhafast rétt.

Af þessum sökum reynist okkur erfitt að tækla í sameiningu flóknari viðfangsefni. Og þegar við þetta bætist tilhneiging til að grípa til aðgerða í nokkurri fljótfærni þá snúast hlutirnir stundum í höndunum á okkur.

Sjáið hvernig við höfum tæklað húsnæðismál. Aðgerðir stjórnvalda til að auðvelda fólki kaup á húsnæði snemma á þessari öld skiluðu mjög hækkuðu fasteignaverði. Aðgerðir töluvert seinna til að búa til öruggan og skilvirkan leigumarkað gerðu hvorugt – og skiluðu fyrst og fremst stórhækkuðu verði á leigu á þá hópa sem höllustum stóðu fæti. Til beggja aðgerða var gripið í góðri trú en þær snerust upp í andstöðu sína. Það var ekki vandað nóg til verka og eftirfylgni var ekki næg. Eftir að illa fór voru stjórnvöld sein í að bregðast við – því það er nokkurskonar óskráð regla á Íslandi að stjórnvöld megi ekkert gera sem stefnt getur gróða í voða, jafnvel þótt gróðinn sé dýru verði keyptur.

7. Það er ekki nóg að eitthvað sé gert í góðum tilgangi eða af réttum hvötum. Það þarf sæmilega djúpa og ábyrga umræðu sem þarf að geta orðið flókin.

En þá þarf líka að ræða hlutina fyrir opnum tjöldum.

Það er mjög margt sem rætt er á allt öðrum forsendum á bak við tjöldin en á stóra sviðinu. Raunar hefur það komið mér aðeins á óvart hversu mikil sýndarmennskan er þegar t.d. stjórnvöld og forysta verkalýðshreyfingarinnar tala saman í gegnum fjölmiðla.

Ég held það sé skaðlegt.

Ef ákveðnar mikilvægar forsendur eru ekki til víðtækrar umræðu í samfélaginu er það beinlínis andlýðræðislegt.

8. Það er hættulegt þegar þeir sem stjórna telja sig horfa á hlutina frá öðrum sjónarhóli en allur almenningur.

Líklega er ekkert hugtak í verkalýðspólitík meira grundvallarhugtak en „væntingarstjórnun“. Það finnst mér erfitt hugtak.

Í Hávamálum er þetta erindi:

Ef þú átt [vin], þann er þú illa trúir [...] fagurt skaltu við þann mæla, en flátt hyggja.

„Fagurt skaltu við hann mæla, en flátt hyggja“.

Ég man að merkur íslenskur hugsuður vísaði einu sinni í þessi orð þar sem hann greindi inntakið í metsölubókinni „Vinsældir og áhrif“ eftir Norman Vincent Peale. En bókin hafði gríðarleg áhrif hér á landi sem víðar. Hún er enn í prentun og er seld en á heimasíðu útgefanda stendur:

„Tilgangur þessarar bókar er að hjálpa lesandanum að leysa stærsta verkefni lífs síns: Að ná til og hafa áhrif á annað fólk.
Þú lærir meðal annars:
Einfaldar leiðir til að heilla fólk og opna þannig fyrir þér allar dyr
Að snúa fólki á þitt band án þess að móðga eða vekja gremju
Að fá fólk til að fara að vilja þínum með glöðu geði
Að ná fram vilja þínum á einfaldan, friðsaman og árangursríkan hátt

Vinsældir og áhrif hefur selst meira en nokkur önnur bók sinnar tegundar frá upphafi og gæti reynst þér mun meira virði en þyngd sín í gulli.“

Við sem hér erum inni, forystusveit Kennarasambandsins, erum sumpart í svipaðri stöðu og stjórnmálamenn og annað forystufólk – og það getur orðið freistandi að tileinka sér þetta hugarfar. Sérstaklega ef maður trúir því sjálfur að maður hafi á einhvern hátt víðari yfirsýn eða betri innsýn en umbjóðendur manns og að því sé mikilvægara að væntingar félagsmanna láti að stjórn en að stjórnun taki mið af væntingum félagsmanna.

Ég held þetta sé skaðlegt hugarfar og hreint ekki lýðræðislegt. Hverjum á hinn almenni félagsmaður að geta treyst til að gefa sér hreinar og ómengaðar upplýsingar ef ekki okkur? Ef ég kýs stjórnmálamann eða formann í stéttarfélagi – hví skyldi ég þurfa að vara mig á honum, reikna með að hann beiti jafnvel þrautreyndum aðferðum úr bandarískri metsölubók til að heilla mig og fá mig til að fara að vilja sínum „með glöðu geði?“

Ég gríp þessar áhyggjur ekki úr lausu lofti. Þetta hefur legið á mér síðan ég sat námskeið sem flest samningafólk í íslensku samfélagi hefur setið á vegum Ríkissáttasemjara þar sem okkur var beinlínis sagt: „Munið svo, að þið hafið allt aðra og betri yfirsýn yfir málin en hinn almenni félagsmaður. Þið megið því ekki láta skoðanir í baklandinu stýra ykkur um of.“

Fyrsti kostur hlýtur alltaf að vera sá að skapa baklandi sínu betri yfirsýn – ef þessi sama yfirsýn er svona mikið grundvallaratriði í allri ákvarðanatöku.

9. Í framhaldi af þessu langar mig að ræða fílana í herberginu. Málin, risamálin, sem lúra undir yfirborðinu og hafa gert árum saman – mál sem hafa gríðarleg áhrif á alla framvindu en eru sjaldnast rædd af viti uppi á yfirborðinu. Ég ætla að ræða þrjú mál í þessu samhengi – hvernig þau blasa við mér – og hvernig raunveruleg þjóðarsátt kemur ekki til fyrr en þessi mál ná lendingu og við drögum af þeim lærdóm. Þetta eru lífeyrismál, almannatryggingarmál og vinnumarkaðsmál.

10. Eitt af risastóru málunum síðasta kjörtímabil voru lífeyrismál. Eins og þið flest þekkið hefur legið fyrir í áratugi að laun opinberra starfsmanna eru lægri en laun á almennum markaði. Hlutfallslega lág laun kennara hafa til dæmis verið réttlætt með því að þeir eignist á starfsævinni betri lífeyrissjóð en starfsmenn á almennum markaði.

Að hluta til er þetta rétt. En að hluta til afar villandi.

Lífeyriskerfi byggja í grófum dráttum á tvennu: Að sjóðum sé safnað og þeir ávaxtaðir – eða því að lífeyrir sé greiddur með gegnumstreymi skattfjár. Alþjóðabankinn hefur sett upp líkan af fyrirmyndarkerfi. Það er blandað. Í því er skylda að leggja fyrir ríflegt hlutfall af launum í sjóð – og svo greiðir ríkið það sem upp á vantar með skattfé. Að auki er mælt með því að fólk hafi kost á að safna meiru í sjóð ef það svo vill og hefur tök á því.

Á Íslandi hefur þessi leið verið valin.

Eða hvað?

Af einhverjum illskiljanlegum ástæðum hefur almenningur ekki verið upplýstur um grundvallarskipulag og eðli lífeyrismála í landinu. Það birtast enn reglulega greinar fólks sem fullyrðir að hér á landi hafi því verið lofað að lífeyriskerfið væri gegnumstreymiskerfi – og að öll eign fólks í lífeyrissjóði ætti að vera viðbót.

Í framkvæmd er þetta nákvæmlega öfugt. Og miðað við framkvæmdina og ýmis gögn fer ekkert á milli mála að markmiðið með íslenska lífeyriskerfinu er í dag það, að sjóðssöfnunin standi undir sjálfri sér, og að skattkerfið skuli aðeins notað í neyð og helst alls ekki.

Það er skrítið ef stjórnvöld og afmarkaður hópur áhrifavalda hafa í grundvallaratriðum annan skilning á grunnkerfum samfélagsins en almenningur.

Nú eru lífeyriskerfi eitt af þessum kerfum sem hægt þarf að vera að treysta á. Hafi hugmyndafræðin að baki lífeyriskerfinu breyst á auðvitað að vera löngu búið að gangast við því og upplýsa fólk. Það er afskaplega erfitt að þurfa að treysta á grundvallarkerfi án þess að það liggi fyrir þjóðarsátt um grundvallarmarkmiðin.

Skoðum betur, í þessu óljósa ljósi, betur þau rök að laun á opinberum markaði hafi hingað til mátt vera lægri en á almennum markaði vegna þess að opinberir lífeyrissjóðir væru stærri. Það er eitthvað fallega kristilegt við þetta hugarfar. Margir hafa þolað þrengingar á starfsævinni í trausti á að fá notið þess í lífinu handan hennar.

En er það raunin?

Ef lífeyriskerfið væri gegnumstreymiskerfi mætti færa rök fyrir því. Þá kæmi sjóðssöfnun til viðbótar grunnlífeyri.

Þannig er það bara ekki. Þvert á móti er staðan sú að fólk sem unnið hefur á almennum markaði hefur ekki aðeins, að jafnaði, notið miklu hærri launa allan starfsferilinn heldur nýtur það einnig mun hærri framlaga af skattfé til eftirlauna. Með öðrum orðum: Opinberi starfsmaðurinn þurfti að draga fram lífið á lægri launum allan sinn starfsferil og þarf nú, í ellinni, að sjá um sig sjálfur og m.a. borga skatt sem fer til þess að greiða lífeyri til þeirra sem tilheyrðu almennum markaði.

Þetta er furðulegt ranglæti.

Hver er staðan núna? Við borgum í okkar lífeyrissjóði í hverjum mánuði. Vitum við hvað bíður okkar?

Mér þykir leitt að þurfa að segja það en síðustu mánuði hef ég orðið áþreifanlega var við að leikreglur lífeyrissjóðakerfisins eru algjörlega í lausu lofti.

Það fór fram heilmikil stefnumörkun fyrir nokkrum árum. Haldnir voru stórir fundir þar sem fólk lagði höfuðið í bleyti og niðurstaðan var sú að hér þyrfti að vera sama lífeyriskerfið fyrir almenna markaðinn og þann opinbera – og að miða ætti við að fólk gæti treyst á að fá ¾ af meðalævitekjum frá starfslokum til æviloka. Ofan á það mætti fólk safna í séreign – og jafnvel nýta hluta hennar til húsnæðiskaupa fyrr á ævinni til að koma með sterkari eignastöðu út af vinnumarkaði.

Þetta kerfi er ekki búið að lögfesta enn þótt söfnun iðgjalda sé hafin á grundvelli þess. Búið er að fella burt bakábyrgð ríkisins gagnvart opinberum starfsmönnum með ákveðnum sólarlagsákvæðum (sem þýðir að mjög háskalegt getur verið fyrir opinberan starfsmann að skipta um vinnu nema hann hafi hafið störf eftir lagabreytingu).

Almenni markaðurinn var ekki tilbúinn að stíga stóra skrefið í átt til samtryggingar þegar iðgjöld voru hækkuð. Hann borgar því aðeins 12% í samtryggingu á meðan við borgum 15,5%. Í samningum á almennum markaði nú fyrir helgi var þess krafist að nota mætti mismuninn til fasteignakaupa. Ríkinu var svo mikið í mun að samningar næðust að það er búið að samþykkja það fyrir sitt leyti. Sem þýðir í raun að nú þarf líklega að breyta öllu lífeyriskerfinu þannig að sjóðssöfnun minnki – og að fjárfestingar í fasteignum aukist.

Fyrir slíkri breytingu má færa hagfræðileg rök. Það er hægt að segja að sjóðsöfnun lífeyrissjóða sé þegar of mikil á Íslandi og að þetta sé betri dreifing fjármagns. Það er líka hægt að segja að þetta geti þýtt að fólk komi minna skuldsett af vinnumarkaði.

Á móti má segja að verði þetta að veruleika muni eign fólks í lífeyrissjóði líklega vera um 6-7% lægri við starfslok, nýti þeir sér þennan kost. Það sé algjörlega óútfært hvort og þá hvernig almannatryggingakerfið kæmi til móts við þá lækkun. Þá er algerlega óljóst hvort svona aðgerð auðveldi fólki í raun aðgengi að húsnæðismarkaði því hún gerir í raun ekkert annað en að auka eftirspurn eftir húsnæði – og í sögulegu samhengi þýðir það aðeins eitt: Hækkandi fasteignaverð. Það getur því farið svo að samningar á almennum markaði í síðustu viku muni bæði leiða til hærra fasteignarverðs og minnkandi ráðstöfunartekna hjá okkur þegar við förum á lífeyri.

Það er allavega ljóst að þessar hugmyndir þarf að skoða miklu betur.

Eitt er þó ljóst, hið sama verður yfir alla að ganga. Ef ungt fólk á almennum markaði fær greiðari aðgang að fjármögnun fyrir húsnæði en á fólk á opinberum markaði verður stórslys. Atvinnulíf á íslandi hefur þegar mjög neikvæð áhrif á menntunarmöguleika fólks. Fólk vinnur allt of mikið með skóla, í heilu byggðarlögunum hafa kynslóðir farið á mis við menntun vegna ásækni atvinnulífsins. Oft til að manna störf sem í ríkum mæli eru að hverfa. Við eigum einhverja elstu háskólastúdenta í heimi – og í þeim efnum ríkir augljós stéttskipting þar sem fátækara fólk á erfiðara með að brjótast til menntunar en ríkt og tekur í það lengri tíma.

Það sem er hinsvegar alvarlegast, að mínu mati, er að stjórnvöld skuli vegna viðræðna á almennum markaði nota lífeyriskerfið, sem þegar hvílir á óljósum og umdeildum grunni, sem skiptimynt. Það kann vel að vera að þessar hugmyndir um aukna séreign séu góðar – en það ræðst ekki af tilfinningalegum forsendum eða vilja til að aðstoða unga fasteignarkaupendur. Það þarf að skoða og ræða í kjölinn með öllum sínum agnúum og gráu svæðum.

Ég vil svo enda þessa umræðu um lífeyrismál á að því að benda á að meginástæða þess að þau eru í jafn óljósum farvegi og raun ber vitni er sú að þessi lest fór út af sporinu með svokölluðu lífeyrissamkomulagi fyrir nokkrum árum. Þá töldu opinberir starfsmenn ríkið verða uppvíst að svikum og klækjum og síðan þá hefur ríkt hyldjúpt vantraust milli aðila. Umræðan hefur legið í dvala síðan – þótt hún hafi svo skotið upp kollinum í samningaviðræðum á almennum markaði nú.

11. Tölum þá um almannatryggingakerfið.

Hugmyndin um sjálfbært lífeyriskerfi átti að fela í sér að við yrðum sammála um að borga okkar lífeyri sjálf, m.a. svo hægt væri að nota skattfé til að styðja við barnafjölskyldur, innviði, öryrkja og aðra sem á þurfa að halda í framtíðarsamfélagi barna okkar. Það ber auga leið að slíkt kerfi þarf að grundvallast á einhverskonar samfélagssáttmála – sem því miður hefur lítið verið ræddur og er því í besta falli óljós hugmynd úr tengslum við almenning.

Stóra málið er varðar almannatryggingar er sú staðreynd að veikinda- og örorkuhugtakið er ekki lengur í samræmi við veruleikann. Samfélagið skiptist ekki lengur í veika og heilbrigða; fatlaða og ófatlaða. Starfsþrek okkar getur verið mikið eða lítið, allt eftir tímabilum. Fólk sem áður var nánast afskrifað getur lagt heilmikið af mörkum.

Maður skyldi ætla að búið væri að endurspegla þetta í almannatryggingarkerfinu. En þar sitja málin föst. Það, af hverju þau eru föst, er grundvallaratriði.

Það hefur staðið til að reyna að breyta almannatryggingakerfinu megnið af þessari öld. Það hefur ekki náðst í gegn, fyrst og fremst vegna andstöðu Öryrkjabandalagsins. Þið hafið væntanlega öll orðið vör við herferð bandalagsins í fjölmiðlum upp á síðkastið. Hún kemur til af því að stjórnvöld eru að reyna að þrýsta breytingunni í gegn um þessar mundir á bak við tjöldin.

Stuðningsmenn breytinga segja að kerfið verði að aðlagast breyttum veruleika, hvetja til virkni en ekki vanvirkni. Kerfið sé líka undir ofboðslegu álagi þar sem veikindi hafi aukist svo gríðarlega á síðustu árum að með þessu áframhaldi muni fátækt öryrkja líklega aukast enn. Þetta er gott að hugleiða í samhengi við framtíðarhlutverk almannatrygginga við greiðslu lífeyris.

Hugmyndafræðin í hinu nýja kerfi er ósköp skynsamleg. Hún felst í að grípa fólk þegar vandinn verður til. Það skipti ekki máli hvort fólk missi atvinnuna, komi úrvinda til heimilislæknis eða hafi aðra snertipunkta við samfélagskerfin – í öllum tilfellum taki við úrræði sem hafi það að markmiði að leiða fólk áfram, hvíla það og hlúa að og koma því svo aftur til virkni. Fólk lendi ekki í því að einangrast heima hjá sér með tímabundna framfærslu á formi veikindaréttar eða sjúkradagpeninga en eigi svo enga leið inn í samfélagið aftur utan örorkukerfisins.

Að hluta til er aukið álag á örorkukerfið augljós afleiðing af því að önnur kerfi hafi brugðist. Finnar drógu ríkulegan lærdóm af hinum miklu efnahagserfiðleikum sem þeir fóru í gegn um í lok síðustu aldar – og sáu að skaðinn var mikill og langvarandi. Kerfishrun eru dýrkeypt. Við þurfum að átta okkur á því. Við sáum hvað gerðist eftir hrun þegar úrræðaleysi í málefnum barna og ungmenna var nær algjört. Við höfum líka séð það hvernig samfélagið hefur smám saman lokast þeim hópi ungmenna sem snemma flosnar upp úr skóla m.a. vegna andlegra vandamála. Of stór hluti þessa hóps lokast inni – og nú er svo komið að stærsti einstaki hópurinn sem fer á örorku eru 18 ára drengir.

Það er ekki langt síðan margir fulltrúar vinnumarkaðarins þrýstu mjög á stjórnvöld um að gera þær breytingar á kerfinu sem þeir sáu sem óumflýjanlegar hvað sem andstöðu Öryrkjabandalagsins liði. Í framhaldi þyrfti að hanna nýjan veruleika utan um fólk sem tapaði heilsunni á vinnumarkaði með auknum stuðningi og hvatningu.

Það þarf engan geimvísindamann til að sjá hvers vegna öryrkjar eru hikandi. Hvað segðum við sjálf ef endurskoða ætti veikindarétt okkar á þessum forsendum? Sem, vel á minnst, er samtal sem brátt mun fara fram.

Ef ætlunin er að leggja hér grunn að einhverskonar þjóðarsátt þarf að leggja sig sérstaklega fram um að hlusta – og heyra – hvað það er sem öryrkjar kvarta yfir og skapar andstöðu þeirra.

Í fyrsta lagi heyrist mér að öryrkjar séu í grundvallaratriðum sammála um þörfina á kerfisbreytingu. Það sem hræðir þá er að íslenskt samfélag, leitt af íslenskum stjórnvöldum, valdi ekki verkefninu.

Öryrkjar hafa einkum bent á þrennt: Í fyrsta lagi að stjórnvöld beiti öryrkja þvingunum til að láta þá gangast undir „samkomulag“ um breytingar. Það sé þegar hægt að auka virkni, t.d. með afnámi skerðinga, en að stjórnvöld vilji ekki láta það eftir öryrkjum því þau geti þvingað þá til að samþykkja umdeildari hliðar málsins með því að halda hinum óumdeildari í gíslingu. Í öðru lagi að kjarni hugmyndanna snúist um að aðgengi öryrkja að vinnumarkaði verði stóraukið og að þeir búi við öflugra stuðningsnet til virkni en áður. Hvorki vinnumarkaðsúrræði né stuðningsnet séu til staðar og að ábyrgðarlaust sé að ganga til breytinga fyrr en búið sé að tryggja innviði. Í þriðja lagi, og á þetta vil ég leggja ríka áherslu, segja öryrkjar að þeir geti því miður ekki treyst stjórnvöldum. Þau hafi ekki reynst traustsins verð og að þau beiti klækjum.

12. Nú höfum við rætt um tvö risamál. Grundvallarmál sem eru og verða meginverkefni allra ríkisstjórna, sama hverjir skipa þær og allrar verkalýðsforystu: Lífeyrismál og almannatryggingamál. Bæði málin eru flókin og bæði málin stranda m.a. á því að hinu opinbera er ekki treyst. Ekki aðeins eru efasemdir um að ríkið ráði við málin heldur hefur hið opinbera orðið uppvíst að klækjum, þrýstingi og trúnaðarbresti í báðum þessum málum gagnvart öllum málsaðilum.

Það verður aldrei hægt að byggja þjóðarsátt í landi fúsks, pólitísks óstöðugleika og undir handleiðslu stjórnvalda sem ekki er hægt að treysta.

Ræðum þá þriðja risamálið: Vinnumarkaðsmál.

Að sumu leyti er umgjörðin um „lífskjarasamninginn“ svokallaða afar undarleg. Það liggur fyrir að ólöglegt er að beita verkfallsvopninu til að ná fram kröfum gagnvart þriðja aðila. Á stundum reyndu stjórnvöld á síðustu vikum að halda því á lofti og gera sem mest úr fjarlægð sinni við viðsemjendur á almennum markaði. Á öðrum stundum reyndu stjórnvöld að gera sem mest úr sínum hlut. Hápunktinum var auðvitað náð á endasprettinum þegar stjórnvöld settu í eina yfirlýsingu allskyns hluti, sem margir koma t.d. beint úr stjórnarsáttmálanum, og reyndu að selja sem framlag sitt til yfirstandandi kjaradeilu. Nú segjast þau ætla að leika sama leikinn gagnvart opinbera markaðinum.

Það er aldrei traustvekjandi þegar stjórnvöld senda frá sér misvísandi skilaboð um grundvallarhlutverk sitt og -skyldur.

Eitt er þó alveg ljóst. Stjórnvöld vilja fá nokkuð fyrir snúð sinn. Þau vilja breyta leikreglum á vinnumarkaði. Þeim er hugleikið að hér verði tekið upp nýtt vinnumarkaðslíkan að norrænni fyrirmynd.

Það er alveg ljóst að vinnumarkaðurinn á Íslandi er óagaður og að sumu leyti stjórnlaus. Þegar hugsað er um hann koma upp í huga þeir Egill Skallagrímsson og rómverki keisarinn Kaligúla – en báðum fannst drepfyndið að afhjúpa hina þunnu slikju siðmenningar með því að varpa peningum yfir mannfjölda til að sjá fólk snúast hvert gegn öðru. „Maður er manni úlfur“ sögðu Rómverjarnir en bættu reyndar við að með nánari kynnum gætu menn orðið hverjum öðrum sem lömb.

Íslensk stjórnvöld vilja fækka úlfum og fjölga lömbum.

Sóunin á íslenskum vinnumarkaði er brjálæðisleg því allir hópar eru í stöðugum slag um launahækkanir. Þá eru launahækkanir óáreiðanlegar og rykkjóttar, sérstaklega á opinberum markaði.

Á síðasta áratug hefur launaþróun kennara í leik-, grunn- og framhaldsskólum aðeins eitt ár verið sú sama og á almennum markaði. Í þrjú ár hefur hún verið betri og í sex ár verri. Hún hefur verið ótrúlega sveiflukennd. Eitt af þessum árum fengu leik- og grunnskólakennarar nærri 18 sinnum meiri launahækkanir en annað ár og í tilfelli framhaldsskólakennara varð munurinn rúmlega 45 faldur á milli besta ársins og þess versta.

Höfrungahlaupið svokallaða er eitraður ormur sem bítur í halann á sér. Hann á sér ekkert upphaf og engan endi. Launahækkun eins hóps er ævinlega afleiðing af hækkun annars – og verður síðan orsök hækkunar hjá öðrum.

Vanalegt er að einn hópur sé í gapastokknum hverju sinni sem fulltrúi þeirra sem fengið hafa of mikið. Þetta geta verið læknar, hjúkrunarfræðingar, þingmenn eða kennarar. Yfirleitt eru þetta opinberir starfsmenn því hækkanir þeirra eru sveiflukenndari.

Ein afleiðing hinna miklu sveiflna er að útilokað er að skoða launaþróun út frá hækkunum yfir tímabil. Val á viðmiðunartímabili er um leið val á niðurstöðu. Salek tilraunin svokallaða miðaðist til dæmis við ákveðinn upphafspunkt sem kom valdamestu aðilum á vinnumarkaði best. Slík vinnubrögð sjá til þess að allt sem á því er byggt stendur á brauðfótum.

Við þekkjum ferilinn. Seðlabankinn refsar fyrir launahækkanir með hærri vöxtum og atvinnulífið með hærra verði, sem síðan hækkar vextina enn. Þá þarf fólk að sækja sér nýjar launahækkanir – og tekur viðmið í hópnum sem hækkaði síðast. Þetta viðheldur síðan hinum eitraða ormi.

En af hverju er launaþróun kennara og sumra opinberra starfsmanna svona ofboðslega rykkjótt?

Jú, af tveimur ástæðum.

Í fyrsta lagi vegna þess að launahækkanir fást sjaldnast átakalaust. Hið opinbera telur ævinlega að það beri meginábyrgð á stöðugleika í landinu og því sé það einhverskonar sérstök dygð að halda aftur af launahækkunum opinberra starfsmanna. Það skapar að sjálfsögðu átök sem svo geta endað með launahækkunum. Dæmi um þetta eru tiltölulega góðir kjarasamningar eftir erfið verkfallsátök.

Skuggahliðin á þessu er að átökunum fylgir gríðarlegur fórnarkostnaður. Langa verkfall grunnskólakennara árið 2004 olli gríðarlegum skaða á grunnskólakennarastétt. Allir sem tilheyrðu stéttinni þá og árin á eftir vita hvað ég er að tala um.

Átök eru hinsvegar óumflýjanleg öllum stéttum með sjálfsvirðingu sem ætla að draga fram lífið í þessum óstöðuga heimi íslensks vinnumarkaðar.

Önnur ástæða ójafnrar launaþróunar er að höfrungahlaupinu hefur fylgt mikil tilhneiging til að dulbúa laun. Sumar stéttir njóta þess að geta unnið með viðsemjendum sínum að því að fela launahækkanir og kjör. Aðrar stéttir þurfa að berjast fyrir hverri krónu og skapa þá gjarnan gríðarlegan þrýsting á forystufólk sitt um að gera sem mest úr hækkunum. Er það þá yfirleitt gert með því að hækka launataxta langt umfram launakostnað – annað hvort með sölu réttinda eða tilfærslu verkefna. Þetta þekkjum við kennarar ágætlega eins og sumar aðrar stéttir. Þetta eru líka gjarnan vinnubrögðin á bak við tjöldin hjá þeim stéttum sem tíðastir gestir eru í gapastokknum.

Ein örlítil þversögn í „lífskjarasamningunum“ er að þarna fer fram hópur sem hvað harðastan slag tekur við verðtrygginguna. Meðal annars með þeim rökum að hún éti upp ávinning af kjarabótum og viðhaldi hinu óeðlilega þensluástandi. Samt er skrifað inn í samningana þre- eða fjórföld verðtrygging vegna launa þeirra sem nú sömdu. Fjölbreytt forsenduákvæði eiga að tryggja að launahækkanir og aðrar hræringar í hagkerfinu skili sér með beinum hætti í launaumslög á almennum markaði. Hefur þar mesta athygli vakið að laun eiga nú að hækka með hagvexti.

Sem sumir fagna mjög og segja tímamót.

Þetta eru þó ekki meiri tímamót en svo að þarna er verið að setja inn hjartað úr norræna samningalíkaninu sem alltaf var hugsunin á bak við Salek. Að þessu leyti eru samningarnir nú nánast eins og upp úr matreiðslubók þeirra sem hraktir voru frá völdum í verkalýðshreyfingunni á síðasta ári. Stærsti sigurvegari þessarar lotu er líklega Gylfi Arnbjörnsson.

En hvers vegna hefur nýtt vinnumarkaðsmódel reynst andvana?

Frá mínum sjónarhóli eru ástæðurnar tvær.

Sú fyrri felst í þeirri þversögn að verið sé að reyna að stöðva höfrungahlaupið með því að skapa æðisgenginn höfrunga-hlaupsendasprett. Norrænt módel krefst þess að á einhverjum tímapunkti sé launaröðun læst inni eins og hún er. Eftir það taki við sjálfkrafa hækkanir. Eins og áður var sýnt fram á er útilokað að finna viðmiðunarpunkt í launahækkunum sem ekki miðar við að gæta hagsmuna eins hóps frekar en annarra.

Þetta hygg ég að sé meginástæða þess að „lífskjarasamningurinn“ hefur þó enn ekki náð til alls almenna markaðarins. Þar er fullt af fólki sem telur ekki endanlega launaröðun orðna réttláta og vill ekki láta læsa sig inni. Þjóðarsátt út frá forsendum sem fjöldi fólks upplifir ranglátar er engin sátt heldur kúgun.

Hin ástæðan tengist því að vinnumarkaðsmódel þarf alltaf að hafa ákveðinn sveigjanleika til að bregðast við ranglæti, t.d. af völdum kynjahalla eða annarra kerfisbundinni ástæðna, og enn sem komið er ríkir ekki traust innan vinnumarkaðar á að slíkur sveigjanleiki yrði nógu virkur.

Það liggur til dæmis fyrir loforð stjórnvalda til okkar, opinberra starfsmanna, um að jafna skuli laun á milli markaða. Að auki hefur menntamálaráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnar, lagt á það áherslu að þjóðarsátt verði um bætt kjör kennara.

En höfum við einhverja ástæðu til að treysta slíkum orðum?

Það væri þá allavega stílbrot. Því þetta eru nákvæmlega sömu stjórnvöld og sviku okkur í lífeyrismálum og sömu stjórnvöld sem öryrkjar treysta ekki fyrir horn.

Þar liggur nefnilega vandinn svo það sé sagt enn einu sinni. Stjórnvöldum á Íslandi er ekki treyst til að standa vörð um réttlæti, sanngirni, aga og bætt vinnubrögð. Enda mælist traust á stjórnvöldum í sögulegu lágmarki á sama tíma og stóru málin sitja föst.

Og þá er ég ekki bara að tala um núverandi stjórnarflokka. Stjórnmálastéttin á Íslandi er öll undir þessum sama skugga vantrausts. Að sumu leyti mjög verðskuldað.

Þeir sérfræðingar sem komið hafa hingað til lands til að fræða okkur um gerð nýs vinnumarkaðslíkans hafa allir sagt það sama: Þið getið gleymt því að skapa nýtt vinnumarkaðslíkan ef ekki er til staðar traust. Traust á milli aðila vinnumarkaðar – og traust í garð stjórnvalda.

Þetta er því þriðja risamálið sem strandar á skorti á trausti.

13. Þá að jákvæðari málum.

Í stöðunni sem nú er komin upp eru nokkrir vísar sem varðað geta leiðina áfram. Ber þar fyrst að nefna tilraunir stjórnvalda til að stórauka samræðu við aðila vinnumarkaðarins um grundvallarmálin. Allt frá því núverandi stjórnvöld tóku við hafa oddvitar ríkisstjórnarinnar rætt af fullri alvöru og fullum þunga við fulltrúa verkalýðsfélaganna um þær áskoranir sem blasa við. Það hefur ekki verið sjálfsagt og ekki alltaf einfalt. Meðal hinna valdamestu afla í verkalýðspólitíkinni, eins og annarri pólitík, hefur hefðin ekki verið sú að deila athygli stjórnvalda. Yfirleitt hefur stærsta áskorun opinberra starfsmanna verið ákveðin samtrygging milli stjórnvalda og forystu ASÍ, sem jafnvel byggir á undirliggjandi hótunum – en hótanir eru raunverulegur plagsiður í íslenskum stjórnmálum og verkalýðspólitík. Stjórnvöld hafa reynt að stuðla að meira samtali og það er virðingarvert. Þótt efndir eða vanefndir tali alltaf hærra en orð þá eru orð mikilvæg – og það er líka mikilvægt að taka mál fyrir á eins opinn hátt og mögulegt er.

Kannski er hér að verða stefnubreyting sem getur orðið grundvöllur að frekara trausti.

Þá er ástæða til að hrósa nýjum forseta ASÍ sem lagt hefur sig fram um að byggja brýr þar sem lítið hefur verið eftir nema rústir. Ég sagði áðan að liðnir samningar væru upp úr herkænskubók fyrri forseta ASÍ (og það er alveg rétt) en það breytir því ekki að allskyns vaxtarbroddar hafa orðið til á síðastliðnum mánuðum sem ekki hefðu orðið til, að mínu mati, nema vegna breytinga á forystunni og bættum vinnubrögðum sem vonandi eru komin til að vera.

Þá er ekki hægt að horfa fram hjá því sem stundum er kallað „Vor í verkó“ eða róttæka hluta verkalýðshreyfingarinnar. Í augum sumra er þar um að ræða forystufólk sem nálgast viðfangsefnið af ábyrgðarleysi og með skrumi. Ég er hjartanlega ósammála því. Ég held að stærsti sigurinn í samningalotunni á almennum markaði sé sá að þar hafi verið í forsvari fólk sem er greinilega hugsjónafólk. Maður getur verið ósammála hugsjónum þess eða einstökum útfærsluatriðum en það þarf blindan mann sem ekki sér að hér er á ferðinni fólk sem lætur fyrst og fremst stýrast af sannfæringu. Og þrátt fyrir allt þá er hægt að treysta slíku fólki, hvað sem líður ágreiningi.

Ofan á það bætist að þetta fólk stóð vaktina þar sem stjórnvöld og allur almenningur brást. Vissum við ekki að láglaunafólk gæti ekki lifað af launum sínum? Vissum við ekki af illri meðferð erlends verkafólks? Vissum við ekki að nærri þúsund börn byggju í iðnaðarhúsnæði? Vissum við ekki að húsnæðismarkaðurinn væri útþaninn og óaðgengilegur?

Við vissum þetta öll. Við gerðum bara mest lítið í því.

Það þurfti nýja, róttækari verkalýðsforystu til að setja fókusinn á þessi kaun ranglætisins í íslensku samfélagi. Það þurfti sömu forystu til að gera þessi málefni að úrslitamálum í kjarasamningslotunni.

Lögmál markaðarins virka nefnilega ekki nægilega vel á Íslandi. Bæði vegna þess að þjóðin er oft óbeisluð í eðli sínu (samanber ökuníðinga, svikula hótelstjóra og bílahölda) og stjórnvöld ráða ekki við að beisla hana og eru ekki nægilega heiðarleg. Það er því fagnaðarefni að fram skuli komin verkalýðsforysta sem stendur vaktina og setur fókusinn á samfélagslegt réttlæti – sem ævinlega þarf að vera útgangspunktur við sköpun þjóðarsáttar.

Langtímalausn á vanda okkar finnst þó ekki fyrr en við förum að tala saman um stóru málin og hættum að eftirláta hagsmunaðilum að smíða lausnir á bak við tjöldin.

„Lífskjarasamningarnir“ eru ekki þjóðarsátt því þeir hvíla ekki á nógu traustum grunni. Svo öllu sé til haga haldið þá ríkir ekki meiri sátt en svo að það er enn bullandi ófriður undir niðri. Stjórnvöld og SA sömdu ekki vegna þess að þau væru loks sammála réttlætiskröfum nýju verkalýðsforystunnar. Þau sömdu vegna þess að forystan var búin að sýna að barist yrði áfram. Og forystan samdi ekki vegna þess að hún væri sammála stjórnvöldum og SA. Hún samdi vegna gjaldþrots Wow og þess áfalls sem það olli.

Það eru staðreyndir málsins.

Ef forstjóri Wow þurfti síðan ekki nema nokkra daga til að jafna sig á sjokkinu nógu vel til að leggja drög að stofnun nýs félags á rústum hins – skulum við ekki halda að hér hafi skapast margra ára friður á vinnumarkaði.

Það eru þegar farnar að fljúga eiturörvarnar á milli aðila.

Í þeim samningum sem þegar liggja fyrir var stigið skref til lóðréttrar launajöfnunar á almennum markaði. Munur hæstu og lægstu launa á almennum markaði er enda töluverður – og til að mynda miklu meiri en á opinberum markaði. Eftir stendur láréttur launaójöfnuður – það er, á milli markaða. Loforð um jöfnun launa milli markaða á sér tvær hliðar. Til að byrja með eru lægstu launin yfirleitt hærri á opinberum markaði – en á almennum. Það má því segja að „lífskjarasamningurinn“ sé fyrsta skref til uppfyllingar samkomulagi um jöfnun launa á milli markaðanna. En þá er eftir allur þorri launamanna – sem ranglega fær lægri laun á opinberum markaði en almennum.

Það á eftir að svara stórum spurningum í kjaramálum opinberra starfsmanna. Vonandi verður hér til þjóðarsátt. Það er þó býsna langt í land með það. Við þurfum að taka stóru málin til umræðu á stóra sviðinu og horfast í augu við það að þau sitja öll pikkföst vegna þess að í samfélag okkar vantar grunnforsenduna, traust.

Þetta traust verður að búa til – og ég tel eðlilegt að við tökum þátt í því ef þess er nokkur kostur. Það þarf þó að vera gert af alvöru og einlægni. Mig langar því að enda á að vitna í merka skáldkonu, hana Lady Gaga:

„Traust er eins og spegill. Þú getur lagað hann ef hann brotnar – en þú munt áfram sjá fjandans sprunguna í spegilmyndinni.“

Erindi Ragnars Þórs Péturssonar, formanns KÍ, á ársfundi KÍ 8. apríl 2019.

 


 

Tengt efni