is / en / dk

11. Mars 2019

Að gefnu tilefni langar mig að ræða aðeins leyfisbréfamálið. Mig langar að rekja málið í stórum dráttum til að varpa ljósi á aðdraganda þess og þá stefnu sem málið hefur tekið.

Stuttu eftir að ég tók við sem formaður FG fékk ég að vita að leggja ætti fyrir vorþing frumvarp á breytingu á lögum um menntun kennara og stjórnenda sem tryggði framhaldsskólakennurum heimild til að kenna sínar greinar í elstu bekkjum grunnskóla og leikskólakennurum heimild til að kenna í neðstu bekkjunum. Í ljós kom að starfshópur, sem m.a. hafði verið skipaður fulltrúum kennaraforystunnar, hafði hvatt ráðherra til að fara í slíka lagabreytingu. Ég kom sjálf af fjöllum og gerði alvarlegar athugasemdir við slíkar breytingar. Málinu var tímabundið slegið á frest þótt einstök aðildarfélög KÍ hefðu á sama tíma uppi áróður um að gera breytingarnar og það sem fyrst.

Eins og þið vitið öll snerist málið um lögverndun starfsheitisins og starfsréttindin sem þeim fylgdu. Grunnskólakennarastarfið var lögverndað um miðjan níunda áratuginn eftir mikil átök og deilur. Upphaflega var farið fram með kröfuna um að lögvernda starfsheitið „kennari“ en sá slagur tapaðist. Ein meginandstaðan við lögverndun grunnskólakennaraheitisins stafaði af því að til var hópur sem hélt því blákalt fram að það væri ekki til neitt sem kalla mætti grunnskólakennara. Til væru barnakennarar og unglingakennarar. Bent var á að menntun þessara hópa væri í mörgum tilfellum ólík (þar sem kennarar eldri barna voru gjarnan háskólamenntaðir en hinir ekki), að kennsluaðferðir væru mismunandi eftir aldri nemenda og, síðast en ekki síst, þá væru kjör unglingakennara betri en barnakennara.

Það var faglegt áherslumál að sameina þennan breiða hóp undir heitinu „grunnskólakennarar“. Í því fólst viðurkenning á því að viðfangsefnin kunna að vera ólík og bakgrunnur okkar einnig en við erum ein stétt. Við erum kennarar. Hagur eins okkar er hagur okkar allra. Viðfangsefni eins eru viðfangsefni okkar allra.

Þessu átti að breyta í þeim lögum sem ráðherra ætlaði fram með rétt eftir að ég tók við. Kljúfa átti grunnskólakennarastéttina í þrjá hópa: Kennara með réttindi í grunnskóla, kennara með réttindi í leik- og grunnskóla og kennara með réttindi í grunn- og framhaldsskóla. Mér vitanlega fór engin umræða fram um þetta úti í skólunum þótt vera kunni að forystan hafi haft samráð sín á milli um málið.

Ég er fylgjandi sveigjanleika og held við séum það flest. Sá sveigjanleiki má þó ekki verða til þess að sundra okkur sem stétt. Nú eru menntunarkröfur til allra kennara nánast þær sömu (þótt inntakið sé ólíkt) og því er rökréttara að við horfum til þess sem sameinar frekar en þess sem sundrar. Hefði lögunum verið breytt með þeim hætti sem til stóð hefðu orðið til takmörkuð starfsréttindi innan grunnskólans. Hlið við hlið hefðu ekki aðeins starfað fjölbreyttir og ólíkir kennarar (eins og nú er) heldur kennarar með ólíkar starfsheimildir. Á unglingastigi hefðu t.d. starfað kennarar sem aðeins hefðu heimild til að starfa sem líffræði- eða stærðfræðikennarar. Ólíkt öllum öðrum grunnskólakennurum hefðu leyfisbréf þeirra verið bundin við námsgreinar eða svið, þvert á samþættingaráherslur námskrár og strauma og stefnur í nútímalegum menntamálum.

Gegn þessu lagðist forysta FG eindregið. Hún lagðist ekki gegn sveigjanleika. Hún lagðist gegn því að eðli grunnskólakennarastarfsins yrði breytt sem og gildi leyfisbréfanna.

Upp úr því spratt atburðarás sem hefur verið meira og minna í beinni útsendingu. Framhaldsskólaforystan fór í öfluga herferð sem m.a. hafði það að markmiði að reyna að tryggja að leyfisbréfavenjan í framhaldsskólum næði líka til efri bekkja grunnskóla. Á sama tíma sat stór hópur fagaðila við borð og velti því fyrir sér hvort einhverjar lausnir væru sjáanlegar. Formaður KÍ skrifaði grein þar sem hann útlistaði átakafletina og hvatti til umræðu.

Lengst af var mjög óljóst hvort ráðuneytið gæti fundið einhverja lausn á málinu sem fæli ekki í sér að leyfisbréfi grunnskólans væri skipt í mörg, takmörkuð leyfisbréf. Ýmis sjónarmið bárust inn á borðið, m.a. úr háskólunum. Að endingu fór þannig að ráðuneytið tók fram eldri hugmynd um hæfniviðmið sem mikið hafði verið í umræðunni þegar lengja átti námið í fimm ár. Á grunni þess varð til sú hugmynd sem svo varð grunnur að frumvarpsdrögunum.

Þegar hæfniviðmiðahugmyndin kom fram var stutt orðið til stefnu þar til leggja þurfti fram mál á vorþingi. Á móti kom að þetta var gömul hugmynd, og að einhverju leyti útfærð, sem legið hafði í láginni í ráðherratíð síðustu tveggja ráðherra sem lítinn áhuga höfðu á þessum þætti. Öll aðildarfélög KÍ lögðu til að ef þróa ætti frumvarp á þessum grunni yrði það að byggja á áliti fræðimanna um hæfniviðmið og sjónarmiðum kennaramenntunarstofnana sem fengju það hlutverk að tryggja gæði náms og fjölbreytileika í kennslu kennaranema.

Rétt fyrir lok tímagluggans kom ráðuneytið fram með drögin sem nú eru til umræðu. Ef málið ætti að ná inn á vorþing þyrfti það að fara beint í kynningu. Stjórnvöld höfðu breytt starfsháttum þegar kom að lagabreytingum og nú skyldu allir Íslendingar geta komið með athugasemdir inn á svokallaða samráðsgátt.

Sjálfri finnst mér það mjög lýðræðislegt og því skrifaði ég umsögn í eigin nafni við drögin. Ég veit að málið er ekki einfalt og að í breytingunni felast bæði tækifæri og ógnir. Mér þótti því eðlilegt að virða það að innan allra hópa kennara væru eflaust skiptar skoðanir á málinu og að samráðsgáttin væri hinn eiginlegi vettvangur til að koma athugasemdum á framfæri. Það var enginn tími til að fara í almenna kynningu innan félagsins eða leggja einhverja línu. Ég sem formaður ætla ekki að segja öllum félagsmönnum hvað þeim eigi að finnast um frumvarpið þótt ég sé til í að taka umræðu við hvern sem er um að ég telji það til mikilla bóta.

Mér finnst það til bóta vegna þess að það nær ákveðnum grundvallarmarkmiðum sem kennarar hafa verið að berjast fyrir í áratugi. Það lögverndar „kennaraheitið“ og staðfestir að við erum ein stétt fagfólks. Það eru engin málefnaleg rök að segja að þeir sem kenni stærri börnum séu stærri eða meiri kennarar. Það eru heldur engin rök sem segja að þeir eigi að vera meira menntaðir, þótt þeir geti verið öðruvísi menntaðir. Leikskólakennarar, framhaldsskólakennarar og tónlistarskólakennarar eru jafningjar okkar.
Að auki tel ég að nútíminn krefjist þess að fólk búi við sveigjanleika alla starfsævina og þrói og breyti hæfni sinni þegar líður á. Sá tími er einfaldlega liðinn að hægt sé að undirbúa sig fyrir starf milli tvítugs og þrítugs og sinna því eftir það fram á sjötugsaldur. Heimurinn breytist of hratt og kröfurnar með.

Að endingu tel ég afar mikilvægt að grunnskólakennaraheitið sé ekki brotið í sundur í nafni sveigjanleika. Áherslan á að vera á samþættingu námsgreina og nauðsynlegar breytingar í kennsluháttum en ekki á aðgreiningu sem byggir á engu öðru en sögulegu námsgreinavali háskólanema.

Að því sögðu tek ég auðvitað undir það að það verður að tryggja sérhæfingu. En sérhæfing okkar hefur aldrei verið sú að vera grunnskólakennari. Við höfum alls kyns sérhæfingu og erum ólík. Það er það sem gerir grunnskólann öflugan. Auðvitað vantar okkur stundum sterkari grunn, t.d. þegar kemur að tækni eða hreinlega þáttum eins og íslensku- eða stærðfræðikennslu. Það er hins vegar sameiginlegt verkefni okkar kennaranna og skólastjórnenda að hlúa að og rækta þá þekkingu sem til staðar þarf að vera. Það er líka kominn tími til að við stöndum saman að verki við að standa faglegan vörð um skólastarfið í landinu og kennarastéttina, nóg er búið að sundra okkur á síðustu árum, t.d. með vinnumati, sem að mínu mati var aðgerð af nákvæmlega sama tagi og aðgreind leyfisbréf. Skólastarf verður ekki hólfað í skúffur eða sundurgreint í aðskilin skilgreind verk.

Svo ég dragi þetta saman: Það var búið að ákveða að breyta lögum. Umræða um leyfisbréfamálið hefur verið töluverð og álitamálin hafa legið uppi á borðum megnið af vetrinum. Sú leið sem nú var fundin er að mínu mati mun betri en sú sem til stóð að fara. Hún er ekki gallalaus en hún hefur líka kosti.

Samráðsferlið átti að tryggja að allir sem það vildu hefðu rödd. Allir. Ekki bara sumir. Ég hefði t.a.m. ekki treyst mér til að lýsa yfir einni skoðun fyrir hönd allra grunnskólakennara á landinu þótt ég gæti sagt mína eigin skoðun. Hún er sú að ef þetta verður að veruleika hefur unnist varnarsigur í að hafa á landinu eina kennarastétt en ekki margar og sóknarsigur í að gefa kennurum tækifæri í samstarfi við stjórnendur og háskólana til að móta menntakerfið í þær áttir sem faglega er rétt og eðlilegt að gera. Ég virði að sjálfsögðu aðrar skoðanir. Sérstaklega ef þær eru vel rökstuddar. Ég er líka mjög meðvituð um að þessu máli munu fylgja fleiri bardagar og slagir. Ég held við séum það öll. Ég held samt að ef þetta verður að veruleika hafi vopnum okkar í þeim slag fjölgað en ekki fækkað.

 

Samþykkt um breytingar á leyfisbréfum frá 7. aðalfundi FG.

 

Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður Félags grunnskólakennara.

 


 

Tengt efni