is / en / dk

11. Mars 2019

Þorsteinn heitinn Gylfason kallaði það tvílyndi sem við flest köllum geðhvörf. Mér finnst það býsna gott orð. Það er mikilvægt að nota gegnsætt málfar um geðbrigði og geðheilsu. Raunar held ég að aukin umfjöllun og meðvitund um geðsjúkdóma sé einna stærsta framfaramál síðustu áratuga. Það er svo sorglega stutt síðan viðhorf þjóðarinnar til geðveiki var ógnar frumstætt. Í einhverjum kimum er það svo enn.

Nú stöndum við á tímamótum í þessum efnum. Smátt og smátt höfum við áttað okkur á eðli geðheilsu og nú horfumst við flest í augu við það að geðheilsa er eins og öll önnur heilsa. Á sama hátt og það er eðlilegt öllu heilbrigðu fólki að glíma við flensu, kvef og hlaupabólu þurfum við öll að takast á við streitu, depurð og kvíða. Samfélagið skiptist ekki í vel aðgreinda hópa geðveikra og heilbrigðra. Við erum öll geðveik í aðra röndina og heilbrigð í hina.

Tímamótin felast í því að við hættum að taka geðheilsu sem sjálfsögðum hlut. Að við viðurkennum að geðrækt er sjálfstætt viðfangsefni.

Í skólum er almennt mikil meðvitund um mikilvægi geðheilbrigði. Ég held þó að innan kerfisins sé enn um sinn ríkari áhersla á geðraskanir og -sjúkdóma en heilbrigði og geðrækt. Ég hygg að þetta muni breytast hratt á næstu árum. Mikilvægi líkamsræktar í skólastarfi er óumdeilt. Mikilvægi geðræktar er ekki minna.

Það skiptir miklu máli að við förum að takast skipulega á við geðræktina í skólunum.

Hér kynnu einhverjir að segja að slíkt tal sé til marks um að hlutverk kennarans hafi á einhvern hátt úrkynjast eða skekkst og að fáránlegt sé að þeir skuli bæta við sig enn einu hlutverkinu ofan á allt hitt.

Staðreyndin er þó sú að kennarar og annað fagfólk skólanna er þegar komið í þetta hlutverk. Hlutverkið fer ekki neitt (og á að mínu mati ekki að fara neitt) en það tekur af öllum toll að þeir séu ekki betur undirbúnir fyrir það og njóti ekki meiri stuðnings.

Það þarf markvissa og skipulagða geðrækt í skólastarfi. Hún þarf sitt rými í námi kennaranema og starfsþróun kennara. Hér þarf að byggja á gagnreyndum aðferðum og allt skólakerfið þarf að bera þessa byrði með nemendum, foreldrum og starfsfólki. Ég er auk þess nánast viss um að við þurfum að fara í verulega endurskoðun á skipulagi náms, samstarfi fagfólks og hlutverki umsjónarkennara. Þar liggja mestu sóknarfærin í skólastarfi. Slík sóknarfæri geta þó engir nýtt nema kennarar og þeir verða að vera frumhreyfill slíkra breytinga. Til þess þurfa þeir traust, tíma og rými.

Nú stendur yfir athugun í skólum á skipulagi geðræktarstarfs. Ég þori nánast að spá því hver niðurstaðan verður. Geðrækt er alls staðar tekin alvarlega og mikið er lagt upp úr því að hlúa að nemendum og ástunda uppbyggingu í skólastarfinu. Minna er þó um að geðrækt sé sjálfstætt, faglegt og vel skipulagt viðfangsefni og lítið er um að geðræktarstarfið byggi á traustum fræðilegum grunni. Oftar er um að ræða annað tveggja: Starfsmenn beita eigin dómgreind í hverju tilfelli fyrir sig eða skólinn er aðili að einhverri heildarstefnu sem á að taka á þessum málum en óljóst er í raun hvort, og þá hversu vel, hún virkar.

Við þurfum að hætta þessu hálfkáki. Horfumst í augu við það að nemendahópurinn skiptist ekki í heilbrigða og sjúka - ekki frekar en að hann skiptis í læsa og lesblinda; hægláta og ofvirka. Nemendur eru, eins og við öll, í allskonar ástandi á allskonar tímum. Í þessum fjölbreytileika býr styrkur skólasamfélagsins. Nemendur þurfa þó stuðning og fræðslu til að geta ræktað styrkleika sína og bætt fyrir veikleikana. Til að geta veitt þennan stuðning þurfa kennarar og annað fagfólk stuðning af kerfi sem veit hvað það er að gera. Við þurfum að snúa af braut sjúkdómsvæðingar og fara að feta veginn í átt til heilbrigðis. Sjúkdómsleiðin er löngu orðin ófær.

Ég vona að umræða um geðrækt í skólastarfi aukist til muna. Hún er tímabær og nauðsynleg. Í því sambandi langar mig að benda á að í lok þessa mánaðar er alþjóðleg ráðstefna hér á landi um geðrækt barna. Mér skilst hún sé ókeypis og öllum opin en að skrá þurfi sig hér

 

Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambands Íslands. 

 

Tengt efni