is / en / dk

09. Mars 2019

Á dögunum kynnti mennta- og menningarmálaráðherra aðgerðaráætlun í menntamálum. Hún var unnin í samráði við fjölda aðila sem koma að menntamálum, m.a. Kennarasamband Íslands. Mennta- og menningarmálaráðherra hefur talað fallega til kennara og lagt á það þunga áhersu réttilega að kennarar séu burðarbiti öflugs menntakerfis og samkeppnishæfni þjóðarinnar velti á öflugu menntakerfi.

Rauði þráðurinn í aðgerðaráætlun stjórnvalda er að fjölga kennurum í leik- og grunnskóla. Til þess á meðal annars að hafa fimmta árið í námi leik- og grunnskóla launað starfsnám og sérstakir námslokastyrkir eiga að virka sem hvatning til námsloka.

Þetta eru metnaðarfullar tillögur og lofa skal það sem vel er gert, við kennarar finnum það vel að mennta- og menningarmálaráðherra leggur mikinn metnað í störf sín.

Það sem varpar þó skugga á gott mál og þarft, eru hugmyndir um að bræða saman í eitt leyfisbréf hið ólíka starf sem kennarar gegna á mismunandi skólastigum og gjaldfella þar með sérhæft nám hans. Gangi slíkt eftir er það í algjörri andstöðu við vilja framhaldsskólakennara sem auðvitað þekkja manna best inntak síns starfs. Það gengur einfaldlega ekki að setja undir sama hatt kennslu yngri barna þar sem uppeldisþáttur starfsins hefur mikið vægi og svo kennslu eldri nemenda þar sem gæði skólastarfsins hvíla á öflugu fagfólki.

Í þessu greinakorni ætla ég ekki að tína til öll þau málefnalegu rök sem við framhaldsskólakennarar höfum gegn einu leyfisbréfi kennara. En hvað framhaldsskólann varðar teljum við slíka lagabreytingu afturför og skugga á annars ágætt starf sem mennta- og menningarmálaráðherra vinnur í þágu okkar kennara.

Því legg ég til að ef frumvarpsdrög um menntun kennara verða að endingu lögð fyrir Alþingi sem fullmótað frumvarp til laga, verði það ekki gert þvert á vilja og skoðanir þeirrar fagstéttar sem frumvarpið fjallar um. Vilji leik- og grunnskólakennarar sameinast um eitt leyfisbréf eru fyrir því málefnaleg sjónarmið enda er menntun þeirra keimlík, báðar stéttir setjast á skólabekk með það fyrir augum að verða kennarar, á meðan framhaldsskólakennarar langflestir velja sér það á síðari stigum menntunar sinnar eða jafnvel eftir námslok.

Ef gefið er ráðrúm til að fara vandlega yfir gagnrýni á frumvarpið þarf ekki að vera langt í land að við náum öll saman í þessari vegferð ráðherra og ríkisstjórnarinnar en farartálminn er leyfisbréfahlutinn. Við segjum pass við honum.

Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara.

 

 

 

   

Tengt efni