is / en / dk

08. Mars 2019

Eitt leyfisbréf fyrir alla kennara er áræðið skref sem mun koma öllum til góða. Hvers vegna?

1. Þegar námi lýkur færðu leyfisbréf til kennslu. Þú ert kennari. Enginn veit þó hvernig kennari þú verður né hvernig þú munt þróa þína starfsmenntun og reynslu. Það mun ferilskráin þín endurspegla ár frá ári og áratugi fram í tímann. Því er núverandi fyrirkomulag barn síns tíma. Framtíðarskólinn verður borinn uppi af kennurum sem sérhæft hafa sig á ótal vegu bæði með námi og reynslu. Þegar auglýst er eftir kennara er auglýst eftir tilgreindri hæfni, menntun og reynslu. Þá reynir á ferilskrána þína, ekki gamalt leyfisbréf sem ekkert segir um núverandi stöðu þína og hæfni sem kennari.

2. Mun faggreinaþekking framhaldsskólans eða grunnskólans verða minni við breytinguna?
Nei öðru nær. Hún gæti aukist og svo mun hún verða víðari. Skólastjóri auglýsir eftir þeirri þekkingu, reynslu og hæfni sem hann vantar í sinn skóla. Þetta er gert í dag í grunnskólanum. Þá kemur ferilskráin til skjalanna og skólastjórinn velur þann kennara sem uppfyllir þær kröfur sem þörf er á í tiltekna stöðu. Það er því líklegra að þar sem óskað er eftir mikilli faggreinaþekkingu geti kennarar eflt sig mun meira en nú er krafist til að standa öðrum framar við starfaauglýsingu þar sem áherslan er mikil á faggrein/faggreinar.

3. Allir kennarar munu við gildistöku laga fá leyfisbréf á þessi 3 skólastig. Hvað þýðir það í raun? Jú starfsréttindin, sem auk þess verða lögvernduð, eru einfaldlega mun meira virði. Mun víðtækari réttindi þýðir tvennt. Aukin virðing fyrir starfinu og verðmæti til launa því ótvírætt meira. það er einmitt það sem íslenskir skólar sem bornir eru uppi af kennurum þurfa. Þannig verður stéttin sterkari, kennaranámið fýsilegra til muna og margir þeir sem réttindi hafa en starfa utan skólanna munu skilar sér til kennslu á ný.

4. Eftirsóknarverður sveigjanleiki verður loks í skólakerfinu öllu. Sveigjanleikinn mun bæta allt skipulag, minnka gamaldags miðstýrða „kassahugsun“ þar sem kennarar eru flokkaðir í hólf sem fæstir passa í. Menntun framtíðar er þróunarverkefni sem breytist í sífellu. Menntun framtíðar er því ekki í miðstýrðum hólfum heldur í sveigjanlegum skapandi skólum þar sem faglegt sjálfstæði kennara er miðpunktur skólastarfsins. Eina hættan við frekari úrvinnslu þessa frumvarps/reglugerðar er að reynt verði að þrengja að sveigjanleikanum með einhverjum miðstýrðum fagkröfum. Best er að sleppa algerlega slíkum kröfum. Krafan um hæfni, reynslu og menntun mun birtast í auglýsingu um starfið. Þar munu kennarar framtíðarinnar leggja fram sína ferilskrá til sönnunar því hversu vel þeir uppfylla kröfur sem settar eru fram.

5. Kennsla og menntun nemenda mun taka stórt skref upp til nýrra sigra í skólakerfinu. Af hverju? Jú kennarar verða í sífellu að bæta styrk sinn með starfsþróun og endurmenntun. Sveigjanleikinn og víðari reynsluheimur kennara á öllu skólastigum gerir skólana betri. Nýjum þörfum nemenda yrði betur mætt en nú er. Brottfall úr framhaldsskóla myndi lækka og betur væri hægt að mæta sérstökum vandamálum sem síbreytilegur nútími býður ætíð upp á. Í dag eru það ýmis vandamál sem koma með ógnarhraðri innreið samfélagsmiðla, geðræn úrlausnarefni og flóknari foreldrasamskipti. Hvað verður það svo á morgun? Það veit enginn. Allavega verður ekki um það lært í aldagömlum faggreinum háskólanna. Það koma nefnilega tímar og það koma ráð. Störf nútímans verða ekki nema að litlu leyti til þegar grunnskólanemendur sem nú læra að lesa klára sína skólagöngu.
 

 

Jón Ingi Gíslason, formaður Kennarafélags Reykjavíkur.

 

Tengt efni