is / en / dk

07. Mars 2019

Nýtt frumvarp til laga um menntun kennara gerir ráð fyrir útgáfu eins leyfisbréfs til kennslu í leik- grunn- og framhaldsskóla.

Forysta leik og grunnskólakennara styðja breytingarnar en framhaldsskólakennarar ekki. Fyrir því höfum við talið fram ýmis rök, ekki hvað síst að menntun og starf framhaldsskólakennara er æði frábrugðið menntun og starfi kennara yngri nemenda.

Framhaldsskólakennarar eru fyrst og fremst sérfræðingar í tilteknum kennslugreinum og mikilvægt að þeir búi yfir djúpri þekkingu á því fagi sem þeir miðla. Það er grundvöllurinn að öflugu skólastarfi í framhaldsskóla. Framhaldsskólakennarar koma margir hverjir til starfa með reynslu og tengsl á vinnumarkaðnum til viðbótar við sérgrein sína og réttindanám.

Ég vil taka það skýrt fram að mennta og menningarmálráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, hefur sýnt kennurum mikla alúð og velvild og við finnum fyrir stuðningi hennar við starf okkar og aðstæður. En verði nýtt frumvarp að lögum er það í fyrsta sinn sem löggjafinn samþykkir svo róttækar breytingar í óþökk þeirrar stéttar sem lögin ná til.

Mín tillaga er einfaldlega sú að um sinn verði gefið út eitt leyfisbréf til kennslu í leik- og grunnskóla en starfsheitið framhaldsskólakennari verði áfram skilyrt við lágmarks grunnmenntun í grein að viðbættri kennslufræði.

Það er ekkert því til fyrirstöðu að breyta frumvarpinu með þeim hætti og skapa þannig sátt um málið. Grunnskólakennarar hafa margir sérhæfingu í tilteknum greinum upp að ákveðnu marki og sem fyrr geta þeir bætt við sig sérhæfingu til að fá leyfisbréf til kennslu í framhaldsskóla.

Ég biðla til Alþingis að reka ekki í gegn svo róttæka lagabreytingu þegar sérfræðingarnir sjálfir sem lögin ná til telja það óráð og afturför til fortíðar.
  

Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. mars 2019.

 

 

   

Tengt efni