is / en / dk

04. Mars 2019

Umsögn Félags leikskólakennara um frumvarp til nýrra laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

Félag leikskólakennara hefur fengið til umsagnar frumvarp til nýrra lag um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

Í frumvarpinu er gerð grundvallar breyting á inntaki kennaranáms og tekin upp hæfniviðmið. Hæfniviðmiðunum er svo skipt niður í almenna hæfni og sérhæfða hæfni

Mikil ábyrgð er því lögð að háskólana hvað varðar inntak námsins. Félag leikskólakennara hefur áhyggjur af því að leikurinn sem námsleið verði undir í inntaki menntunar kennara með sérhæfingu á
leikskólastigi.

Almennt varðandi leyfisbréf þvert á skólastig telur Félag leikskólakennara að bæði tækifæri og ógnanir geti fylgt slíkum breytingum. Ávallt þurfi að gæta að kennslufræði leikskóla. Leikurinn sem námsleið er hornsteinn leikskólastarfs og hann þarf að vera hafður að leiðarljósi í námi kennara. Verði breytingarnar að veruleika er möguleiki á því að nám í leikskólafræðum þar sem nemar útskrifast með leyfisbréf þvert á skólastig laði að fleiri nemendur. Á hinn bóginn er einnig möguleiki á því að leikskólakennarar leiti frekar á önnur skólastig vegna ólíkra starfsaðstæðna og vinnuskipulags.

Það er því mikilvægt að sveitarfélögin bæti til muna starfsaðstæður leikskólakennara, samræmi starfskjör, fjölgi undirbúningstímum, og samræmi starfs- og vinnutíma kennara þvert á skólastig.

Fyrir hönd stjórnar Félags leikskólakennara,
Haraldur F. Gíslason, formaður

 

Umsögn Félags leikskólakennara – pdf var sett inn á samráðsgátt stjórnvalda 4. mars 2019. 

Tengt efni