
Lengd orlofsréttar miðast við lífaldur:
Aldur | Orlofsdagar | Vinnuskyldustundir |
<30 ára | 24 | 192 |
30 ára | 27 | 216 |
38 ára | 30 | 240 |
Til orlofsdaga teljast eingöngu virkir dagar. Lífaldurshækkanir miða við almanaksár. Verði starfsmaður t.d. þrítugur í desember á hann rétt á 27 daga orlofi á því ári.
Sumarorlofstímabil er frá 15. maí til 30. september hjá öllum félagsmönnum KÍ fyrir utan félagsmenn í Félagi framhaldsskólakennara og Félagi stjórnenda framhaldsskóla, hjá þeim er miðað við 1. maí til 15. september.
Ávinnslutímabil orlofs er frá 1. maí til 30. apríl. Á þessu tímabili ávinnur starfsmaður sér rétt til orlofs og orlofslauna á næsta orlofsári (sumarorlofstímabil).
Veikindi í sumarorlofi skulu sönnuð með læknisvottorði svo fljótt sem auðið er. Starfsmaður getur eingöngu átt inni daga vegna eigin veikinda í sumarorlofi en ekki vegna barna sinna. Þá getur starfsmaður ekki átt daga inni vegna veikinda í jóla- og páskaleyfi.
Starfsmaður getur ekki talist að hálfu veikur og hálfu frískur í orlofi. Fari starfsmaður sem verið hefur í svokölluðum hlutaveikindum í orlof telst það að fullu til orlofstöku nema að læknir votti að starfsmaður geti ekki notið orlofs en þá telst fríið að fullu til veikinda.
Orlofsrétturinn er tvíþættur. Annars vegar er um að ræða rétt til orlofs (frídaga) og hins vegar rétt til launa í fríinu (orlofslauna). Starfsmaður á alltaf rétt á lágmarksorlofi (24 daga) en það er háð ávinnslu fjölda orlofsdaga hvað hann fær í orlofslaun. Hafi starfsmaður einungis unnið í 6 mánuði á hann rétt á launum a.m.k í 12 daga í orlofinu en hann getur hins vegar verið samtals 24 daga í orlofi, þar af 12 daga launalaust.
Orlofsfé vegna yfirvinnu eða vaktavinnu er lagt inn jafnóðum á sérstakan orlofsreikning starfsmanns í banka og er laust til útborgunar frá miðjum maí ár hvert. Orlofsfé er einnig greitt af launum tímakaupsfólks sem og öllum mánaðarlaunum þegar um skemmri ráðningar er að ræða.
Vinnuveitandi getur ekki ákveðið einhliða orlofstöku á uppsagnarfresti. M.ö.o. þarf að afla samþykkis starfsmanns ef ætlunin er að fella orlofstöku hans inn í uppsagnarfrestinn. Samþykki starfsmaður ekki slíka tilhögun á hann rétt á að fá orlofið gert upp við starfslok. Geri starfsmaður kröfu um orlofstöku á uppsagnarfresti og vinnuveitandi fellst á þá kröfu þannig að ekki komi til lengingar uppsagnarfrests er æskilegt að ganga frá slíku með skriflegum hætti.
Fæðingarorlof reiknast til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, svo sem rétti til orlofstöku og lengingar orlofs samkvæmt kjarasamningum, starfsaldurshækkana, veikindaréttar og uppsagnarfrests. Fæðingarorlof skerðir ekki rétt til orlofslauna hjá opinberum starfsmönnum.