is / en / dk

Félagsmenn eru hvattir til að heimsækja nýja upplýsingaveitu þar sem hægt er að skoða fjölbreytta möguleika til starfsþróunar og símenntunar.

Vefur fagráðs um símenntun og starfsþróun kennara hefur að geyma ítarlegar upplýsingar um alla þá fjölbreyttu fræðslu sem er í boði á hausti komanda og næsta vetur.

Upplýsingaveitan er afar vel framsett og auðvelt að finna námskeið eða fræðslu sem hentar. Fræðsla/námskeiðin eru sérstaklega merkt með tilliti til skólastiga, skólagerðar, viðfangsefnum og formi kennslu. Þá má á vefsíðu fagráðsins finna ýmiss konar fróðleik, greinar og pistla, er varða starfsþróun kennara. 

Markmið Upplýsingaveitunnar

Upplýsingaveitan var opnuð í mars síðastliðnum og er ætluð kennurum, skólastjórnendum og ráðgjöfum á sviði kennslu, náms og starfs á öllum skólastigum.

Markmið upplýsingaveitunnar er tvíþætt; að miðla og að veita yfirsýn. Vonast er til að sem flest fræðslutilboð sem ætlað er að styrkja umræddar starfsstéttir faglega og stuðla þannig að starfsþróun þeirra verði birt á upplýsingaveitunni svo sem námskeið, fyrirlestrar, ráðstefnur, málþing og samstarfsverkefni.

Fagráð um símenntun og starfsþróun kennara stendur að upplýsingaveitunni. Fagráðið var sett á fót haustið 2012. Stofnun þess kemur í kjölfar vinnu samstarfsnefndar um símenntun kennara sem hóf störf sumarið 2011. Markmið fagráðsins er að vinna að verkefnum á sviði símenntunar og starfsþróunar kennara og skólastjórnenda á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi auk tónlistarskóla. 

Hvað er átt við með starfsþróun?

„Starfsþróun er samfellt meðvitað og mótað ferli sem leiðir til umbóta og jákvæðrar þróunar. Hún er beintengd daglegu starfi kennara með nemendum og skipulögð í kringum raunveruleg viðfangsefni starfsins. Hún hefur skýran tilgang og markmið og miðar að því að efla færni og þekkingu starfsfólks skóla og auka gæði í starfi,“ segir á vef fagráðsins.

Endilega kíkið á vef Upplýsingaveitunnar. 

Tengt efni