is / en / dk

Heilsuefling á vinnustöðum skilar ávinningi fyrir alla. Líði starfsmanni vel í vinnu smitast það áfram til annarra starfsmanna, fjölskyldu og út í samfélagið í heild. Þannig hafa allir hag af heilsueflingu á vinnustöðum.

Beinn hagur vinnustaðarins getur falist í færri fjarvistum og veikindadögum, minni starfsmannaveltu, betri starfsanda og öflugri liðsheild, aukinni nýsköpun og jákvæðari ímynd.

Starfsfólk verður síður fyrir slysum, smitast síður af sjúkdómum og líður almennt betur. Það er enn fremur ánægðara í vinnu sem skilar sér í að starfsgetan er meiri en ella.

 

 • Miðar að því að efla heilbrigði og vellíðan starfsfólks og koma í veg fyrir vinnutengt heilsutjón og vanlíðan
 • Snýst um að bæta vinnuskipulag og vinnuumhverfi, hvetja starfsmenn til virkrar þátttöku, stuðla að áframhaldandi þroska einstaklingsins og efla mannauð vinnustaðarins
 • Er sameiginlegt átak vinnuveitenda, starfsmanna og samfélagsins alls til að bæta heilsu og líðan vinnandi fólks

 

Heilsuvernd á vinnustað felur almennt í sér aðgerðir og ráðstafanir sem eiga að stuðla að heilbrigði og öryggi á vinnustað. Samkvæmt vinnuverndarlögunum (nr. 46/1980) ber atvinnurekendum skylda til að gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustaðnum og hluti af henni er áætlun um heilsuvernd og forvarnir. Þeir þættir sem eru einna helst skoðaðir eru næring, hreyfing, streita og líðan og tóbaks- og áfengisvarnir.

Þannig getur heilsuefling á vinnustað t.d. falist í:

 • Öruggu og aðlaðandi vinnuumhverfi
 • Skýrum boðleiðum og jákvæðum samskiptum
 • Vinnureglum og viðbragðsáætlunum, t.d. um varnir gegn áfengis- og tóbaksnotkun
 • Heilsusamlegum mat í mötuneytinu
 • Hvatningu til hreyfingar
 • Ýmsum átaksverkefnum og hópefli

 

Næring á vinnustað

Við vitum að matur hefur áhrif á líðan og heilsu og þar sem við verjum oft stórum hluta dagsins í vinnunni er mikilvægt að geta nálgast hollan og næringarríkan mat á vinnutímanum. Lélegt mataræði tengist bæði líkum á sjúkdómum og almennri vanheilsu. Lélegt heilsufar og sjúkdómar hafa svo aftur áhrif á það hvernig við skynjum álag í vinnu og því getur aðgengi að hollum og góðum mat dregið úr óánægju og jafnvel fjarvistum. Því er mikið í húfi fyrir vinnuveitendur að hvetja og aðstoða starfsfólk sitt til að bæta mataræðið.

Til að stuðla að góðu mataræði á vinnustað má t.d.:

 • Auka aðgengi að hollustu t.d. með lágu verði og fjölbreyttu úrvali
 • Takmarka framboð af óhollustu
 • Bjóða upp á ávexti og grænmeti, t.d. á kaffistofunni
 • Hafa gott aðgengi að köldu fersku vatni
 • Hvetja til bætts mataræðis með fræðslu og umræðu
 • Bjóða upp á hollt fundarfæði

Ef mötuneyti er á staðnum þá er mikilvægt að þar sé boðið upp á hollan og næringarríkan mat. Lýðheilsustöð gefur út ýmsar leiðbeiningar um skipulag og framreiðslu í mötuneytum, m.a. í Handbók fyrir skólamötuneyti. Einnig má finna upplýsingar um næringu á vef embættis Landlæknis.  


Hreyfing á vinnustað

Þeir sem hreyfa sig reglulega minnka verulega líkurnar á því að fá ýmsa sjúkdóma auk þess að auka líkurnar á að lifa lengur við betri líðan og heilsu. Þar sem við eyðum stórum hluta vökutíma okkar í vinnunni er mikilvægt að á vinnustaðnum sé stuðlað að hreyfingu.

Hægt er að stuðla að aukinni hreyfingu á vinnustað með því að:

 • Skapa aðstæður sem hvetja til hreyfingar, s.s. hafa stiga aðlaðandi og aðgengilega
 • Hafa sturtu og/eða skiptiaðstöðu fyrir þá sem hjóla eða ganga til/frá vinnu
 • Skipuleggja æfingahópa til hvatningar, aðhalds og eflingar liðsanda. Möguleikarnir eru fjölmargir, t.d. ganga, stafganga, hlaup, sund, knattleikir, golf, fjallganga, jóga, o.fl.
 • Veita sveigjanleika á vinnutíma svo starfsfólk geti samræmt hreyfingu, vinnu og fjölskyldulíf
 • Umbuna fyrir hreyfingu, t.d. með styrkjum vegna líkamsræktar, þátttöku í ferðafélögum, íþróttafélögum o.þ.h.
 • Hvetja til þátttöku í ýmsum almenningsíþróttaviðburðum

Á vef Landlæknis er hægt að finna upplýsingar um hreyfingu


Hreyfi ég mig nóg?

Samkvæmt ráðleggingum ættu fullorðnir að stunda miðlungserfiða hreyfingu í minnst 30 mínútur daglega. Rannsóknir benda hins vegar til að meira en helmingur fullorðinna Íslendinga hreyfi sig ekki í samræmi við þær ráðleggingar. Tímaskortur og þreyta eru algengar skýringar fyrir lítilli hreyfingu og því er lögð sérstök áhersla á að hreyfingin þurfi ekki að vera tímafrek eða erfið.

Til að hafa jákvæð áhrif á heilsu og stuðla að vellíðan nægir að stunda miðlungserfiða hreyfingu daglega í samtals hálftíma en tímanum má skipta í nokkur styttri tímabil, t.d. 10-15 mínútur í senn. Miðlungserfið hreyfing er hreyfing sem krefst þrisvar til sex sinnum meiri orkunotkunar en hvíld. Hjartsláttur og öndun verða heldur hraðari en venjulega en hægt er að halda uppi samræðum. Dæmi um miðlungserfiða hreyfingu eru rösk ganga, garðvinna, heimilisþrif og að hjóla, synda eða skokka rólega.

Hver og einn þarf að meta hvort og þá hversu mikið hans daglegu venjur gefa færi á hreyfingu. Til dæmis má spyrja sig; hversu mikið hreyfi ég mig í vinnunni eða skólanum? En við heimilisverkin og í frítímanum? Og hvernig ferðast ég milli staða?

Í ráðleggingum Lýðheilsustöðvar er t.d. stungið upp á eftirfarandi atriðum til að auka við daglega hreyfingu:

 • Ganga eða hjóla sem oftast í og úr vinnu
 • Standa reglulega upp, teygja úr sér og ganga um
 • Nýta öll tækifæri sem gefast til hreyfingar, s.s. nota stiga í stað þess að taka lyftu
 • 2-3 skipulagðar æfingar í viku, s.s. sameiginleg hreyfing samstarfsfélaga í hádeginu, ganga, hlaup, sund og nýta aðstöðu og þjónustu íþróttafélaga, heilsuræktarstöðva og ferðafélaga
 • Um helgar: Samvera með fjölskyldu og vinum sem felur í sér hreyfingu, s.s. gönguferðir, fjallganga, hjólreiðar og sund
 • Heima: gönguferðir daglega, garðvinna eða viðgerðarstörf á heimilinu

Dagleg hreyfing er mikilvæg fyrir alla, óháð holdafari. Hreyfing stuðlar að fjölþættum ávinningi fyrir heilsu og vellíðan og vigtin er takmarkaður mælikvarði á heilbrigði. Rannsóknir hafa sýnt að fólk sem hefur flokkast of þungt en stundar hreyfingu reglulega getur verið heilbrigðara en grannvaxið fólk sem hreyfir sig lítið. Aðalatriðin eru lífsvenjur og heilbrigði - ekki líkamsþyngd!

 

Tengt efni