is / en / dk

Ef einelti kemur upp á vinnustað er fyrsta skref að ræða við þann sem á að taka á málinu en í skólum er það alla jafna skólastjóri eða skólameistari. Ábyrgð á lausn eineltismála er alfarið í höndum skólastjórnanda eða hans næsta yfirmanns. Ef hann leysir ekki málið, eða á hlut að því, er hægt að leita til félagslegs trúnaðarmanns eða beint til Kennarasambandsins.

 

Einelti á vinnustað getur tekið á sig ýmsar myndir. Þær eru meðal annars:

 • Starf, hæfni og verk einstaklings eru lítilsvirt
 • Dregið er að ástæðulausu úr ábyrgð og verkefnum
 • Nauðsynlegum upplýsingum er haldið frá viðkomandi
 • Særandi athugasemdir og skammir eða þolandi gerður að athlægi
 • Hunsun eða útilokun frá félagslegum og faglegum samskiptum
 • Árásir og gagnrýni á viðkomandi og einkalíf hans
 • Lítilsvirðingar og útilokun eða einstaklingur er tekinn fyrir
 • Meiðandi sögusagnir og óþægileg stríðni
 • Óréttmæt gagnrýni eða útlokun frá upplýsingum
 • Hótanir gegn starfsöryggi
 • Deilur, móðganir eða árekstrar í samskiptum teljast ekki einelti nema einstaklingur sem lendir í slíku sé ekki fær um að verja sig og athæfið sé síendurtekið.

Einelti er aldrei á jafnréttisgrundvelli og því verða yfirmenn að gæta sérstaklega að framkomu gagnvart samstarfsfólki þar sem þeir eru óhjákvæmilega í ákveðinni valdastöðu á vinnustaðnum. Fólk er einnig misjafnt og hjá því verður ekki komist að einn getur upplifað eitthvað sem móðgun sem annar tekur ekki nærri sér. Í þessu sambandi skiptir upplifun einstaklingsins miklu máli. 

Stefna gegn einelti er mikilvæg. Þar þarf að koma skýrt fram að einelti er ekki liðið á vinnustaðnum og um það þurfa allir starfsmenn að vera upplýstir. Einnig er mjög mikilvægt að gera áhættumat og áætlun um forvarnir. Við gerð áhættumats er farið yfir helstu atriði er varða félagslegan og andlegan aðbúnað. 

Aðrar fyrirbyggjandi aðgerðir:

 • Að hafa öryggistrúnaðarmann / öryggisnefnd starfandi
 • Að kanna reglulega líðan starfsmanna (t.d. með viðtölum eða vinnustaðagreiningu)
 • Fræðsla fyrir stjórnendur og starfsmenn um eineltishugtakið og birtingarform eineltis, um samskipti og vellíðan á vinnustað ásamt umræðum um slík málefni
 • Öflug nýliðafræðsla
 • Að kynna vel þær umgengnis-, starfs- og/eða siðareglur sem gilda á vinnustaðnum, skólareglur, starfsmannastefnu, starfsmannahandbók o.þ.h.
 • Að hafa skýrar leiðbeiningar um hvert starfsmenn geta leitað, innan og utan vinnustaðar, vegna vandamála sem upp koma

Í flestum tilfellum liggja orsakir eineltis í samspili margra þátta. Vísbendingar eru um að gerendur hafi sjálfir brotna sjálfsmynd eða séu óöruggir með sig og að öfund sé oft undirliggjandi. Í mörgum tilvikum er þó fremur um hugsunarleysi eða ónærgætni að ræða.

Ákveðnir þættir í skipulagi á vinnustað auka ennfremur líkur á að einelti komi upp

 • Valdhroki yfirmanna
 • Illa er staðið að breytingum
 • Sett eru óraunsæ markmið eða tímaáætlanir
 • Starfslýsingar eru óljósar
 • Upplýsingastreymi er takmarkað og samskipti í ólagi
 • Óljósar reglur eða viðmið eru um framgang í starfi
 • Skortur er á viðbrögðum og lausnum við vandamálum sem upp koma
 • Skortur er á sjálfræði og möguleikum til að hafa áhrif á starfið
 • Skortur er á umburðarlyndi og stuðningi

Of mikið vinnuálag sem og samdráttur og uppsagnir geta einnig ýtt undir einelti.

Skoðanaágreiningur, hagsmunaárekstur eða samskiptavandi eru ekki endilega einelti en geta verið fyrstu vísbendingar um að það geti komið upp. Ef slíkur vandi er til staðar er mikilvægt að taka á honum strax og snúa þróuninni við áður en hann verður enn alvarlegri.


Komi fram grunur, ábending eða kvörtun um einelti á vinnustað er mikilvægt að bregðast við eins fljótt og kostur er. Meta skal aðstæður í samvinnu við vinnuverndarfulltrúa vinnustaðarins og kalla til þá sem málið varðar. Fara þarf vandlega yfir málið og kalla til utanaðkomandi ráðgjafa ef þörf er á. Mikilvægt er að:

 • Fara yfir málið í ró og næði með starfsmanninum sem kvartar eða tilkynnir
 • Ræða við meintan geranda sem og aðra sem geta veitt upplýsingar um málið
 • Ræða aðeins við einn í senn
 • Gæta trúnaðar og tillitsemi
 • Draga ekki fleiri inn í málið en nauðsynlegt er
 • Deila aðeins upplýsingum með öðrum starfsmönnum gerist þess þörf
 • Afla allra nauðsynlegra gagna
 • Halda skrá yfir allar upplýsingar

 

Samkvæmt vinnuverndarlögum er skólastjóri eða skólameistari talinn bera ábyrgð á vinnuverndarstarfi við skólann

 

Taka skal allar tilkynningar um einelti alvarlega. Einnig er mikilvægt að hlusta á sjónarmið allra. Strax skal gripið til viðeigandi ráðstafana þar sem tryggt er að einelti endurtaki sig ekki. Gæta skal þess að upplýsa aðila máls um framvinduna eins og kostur er á meðan unnið er að lausn þess.

Þegar atvik hafa verið upplýst og talið er að meintur gerandi hafi beitt þolanda einelti þarf að huga að afleiðingum málsins. Sem dæmi um afleiðingar má nefna aðkomu utanaðkomandi ráðgjafa, breytingu á starfi geranda og/eða þolanda eða að veita meintum geranda áminningu. 

Til næsta yfirmanns

Til öryggistrúnaðarmanns og/eða félagslegs trúnaðarmanns.  Sá tekur við upplýsingum og aðstoðar við að koma málinu í farveg

Til Kennarasambands Íslands. Hjá KÍ starfa sérfræðingar í málaflokknum sem ávallt eru reiðubúnir til að aðstoða félagsmenn.

Til Vinnueftirlitsins: Stofnunin hefur eingöngu leiðbeinandi hlutverk og eftirlitsskyldu en úrskurðar ekki um hvort einelti hafi átt sér stað. Vinnueftirlitinu ber að sjá til þess að atvinnurekandi grípi til viðeigandi úrbóta í vinnuumhverfinu þegar við á. Ef ekki fæst viðunandi lausn á vinnustaðnum er hægt að senda kvörtun til Vinnueftirlitsins. Óskað er eftir að sá sem tilkynnir um eineltismál gefi upp nafn sitt en Vinnueftirlitið viðheldur nafnleynd starfsmanns gagnvart fyrirtæki sé þess sérstaklega óskað. Ef starfsmaður sem leggur fram kvörtun til Vinnueftirlitsins óskar eftir nafnleynd þá er umræða um einelti á vinnustað tekin upp í almennu eftirliti undir félagslegum aðbúnaði og umrædd kvörtun ekki nefnd. Starfsmaður sem hefur lagt fram kvörtun um einelti á vinnustaðnum og er hættur störfum er ekki aðili máls og hefur því ekki rétt á að fá upplýsingar um niðurstöður málsins. Kvörtun hans getur þó leitt til mikilvægra úrbóta á vinnustaðnum.

Ef skólastjóri eða skólameistari er aðili máls skal beina kvörtun til eftirtalinna:

Skólanefnda sveitarfélaga: Ef einelti kemur upp í leik,- grunn- og tónlistarskóla. 

Skólastjórna: Ef einelti kemur upp í einkareknum skóla.

Mennta- og menningarmálaráðuneytis: Ef einelti kemur upp í framhaldsskóla.

Einkenni eineltis geta verið tímabundin en ef ástandið er alvarlegt og langvinnt þá verða þau þrálát. Einkennin geta verið fjölbreytt.

Líkamleg:

Höfuðverkur, maga- og meltingartruflanir, ógleði, svitaköst, þreyta, skjálfti og svimi 

Sálræn:

Kvíði, spenna, pirringur, þunglyndi, minnis- og einbeitingarvandi eða skortur á sjálfstrausti

Breytingar á hegðun:

Aðgerðaleysi, svefnleysi, minni afköst, félagsfælni og tíðari veikindafjarvistir

Sumir treysta sér að lokum ekki lengur til að mæta í vinnu.

Ef þolandi eineltis telur sig knúinn til að yfirgefa vinnustaðinn, eða er látinn fara, verður bataferli hans enn lengra og afleiðingarnar geta orðið þeim mun víðtækari og langvarandi. Einnig er óvíst að vandinn á vinnustaðnum sé leystur til frambúðar þar sem ekki er í raun og veru tekið á orsökum eineltisins. Auk þess er gerandinn e.t.v. enn á vinnustaðnum og álítur jafnvel að athafnir sínar hafi verið réttlættar með því að þolandinn fór.

Skilgreining:

Einelti er skilgreint í reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðvum nr.1009/2015.

„Einelti: Síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir“


Áhrif á vinnuveitendur:

Einelti hefur einnig ýmsan beinan kostnað fyrir vinnustaðinn í för með sér, s.s. aukna starfsmannaveltu, auknar fjarvistir og veikindi, ráðgjafarkostnað og tapaðan vinnutíma stjórnenda og starfsmanna. Auk þess er líklegt að einelti valdi því að starfsandi á vinnustaðnum verði lélegur, frammistaða starfsfólks lakari og ímynd vinnustaðarins verri.

Tengt efni