Tónmenntakennarafélag Íslands


LÖG TÓNMENNTAKENNARAFÉLAGS ÍSLANDS
 

1. gr.
Félagið heitir Tónmenntakennarafélag Íslands.

2. gr.
Tilgangur félagsins er að efla tónmenntarnám í skólum landsins og efla tónlistariðkun barna og ungmenna. Tilganginum hyggst félagið ná með því að m.a.:

a.  að veita starfandi tónmenntarkennurum í grunnskóla og þeim tónmenntarkennurum sem kenna börnum og ungmennum tónlist á öðrum vettvangi frekari menntun, m.a. með námskeiðum hér á landi og erlendis svo og kynnisferðum. Ennfremur að auka þekkingu, áhuga og skilning almennra kennara og kennaranema á tónmenntarnámsgreininni,

b.  að vinna að því að tónmennt sé námsgrein sem njóti fulls jafnræðis á við aðrar námsgreinar,

c.  að stuðla að bættum aðbúnaði við tónmenntarkennslu, svo sem húsnæði, bækur, geisladiskar, forrit, hljóðfæri og önnur kennslutæki,

d.  að afla fræðslu um hið merkasta í skólatónlist ýmissa þjóða og kynna hérlendis,

e.  að standa fyrir mótum þar sem barna- og ungmennakórar eða aðrir tónlistarhópar koma saman og flytja tónlist.

Ennfremur er það tilgangur félagsins að standa vörð um réttindi og vinna að bættum kjörum tónmenntarkennara.

3. gr.
Félagar geta þeir einir orðið sem uppfylla eftirfarandi skilyrði:

a.  hafa tónmenntarkennarapróf eða hafa gamla söngkennaraprófið,

b.  hafa hliðstæða menntun og kenna tónmennt.

4. gr.
Stjórn félagsins skipa 5 menn kosnir á aðalfundi þar með talinn formaður og 2 varamenn. Hver stjórnarmaður skal sitja í tvö ár þ.a. árlega skal kjósa tvo nýja stjórnarmenn fyrir þá tvo sem úr stjórn ganga. Formaður skal kosinn sérstaklega til tveggja ára. Kosningu hlýtur sá sem flest atkvæði fær. Í endurkosningu skal formaður fá 2/3 hluta atkvæða. Fái hann ekki slíkt kjörfylgi skal kjósa nýjan formann með venjulegum hætti. Á fyrsta stjórnarfundi kýs stjórnin sér ritara, gjaldkera og varaformann. Einnig skal á hverjum aðalfundi kjósa endurskoðanda reikninga félagsins.

5. gr.
Tónmenntakennarafélagið er aðili að Nordisk Musik Pedagokisk Union - NMPU og skal á aðalfundi kjósa fulltrúa og varafulltrúa í stjórn NMPU til fjögurra ára. Endurkosning er heimil að 4 árum liðnum. Fulltrúi T.K.Í. skal skila stjórn T.K.Í. skýrslu um stjórnarfundi NMPU munnlega eða skriflega fyrir 15. september árlega.

6. gr.
Tónmenntakennarafélagið er aðili að NORBUSAM og skal á aðalfundi kjósa fulltrúa og varafulltrúa í stjórn NORBUSAM til fjögurra ára. Endurkosning er heimil að 4 árum liðnum. Fulltrúi T.K.Í. skal skila stjórn T.K.Í. skýrslu um stjórnarfundi NORBUSAM munnlega eða skriflega fyrir 15 september árlega.

7. gr.
Aðalfundur skal haldinn árlega eigi síðar en 15. október ár hvert og boðist skriflega með 14 daga fyrirvara. En aðrir félagsfundir og stjórnarfundir skulu haldnir eftir því, sem formaður og félagsstjórn telur þurfa. Aðalfundur ákveður árgjald félagsmanna og stjórnin skilar þá skýrslu um störf félagsins liðið kjörtímabil. Gjaldkeri skilar af sér ársuppgjöri frá liðnu kjörtímabili en það miðast við 1. október til 30. september ár hvert.

Eigi má breyta lögum nema á aðalfundi, og þá því aðeins að væntanlegra lagabreytinga sé getið í fundarboði.


Samþykkt á aðalfundi 2007