Félag textílkennara

 

1. gr.
Félagið heitir Félag textílkennara.

2. gr.
Tilgangur félagsins er:

a.  Að beita sér fyrir sterkri stöðu námsgreinarinnar textílmennt og standa vörð um að Aðalnámskrá grunnskóla sé framfylgt á öllum stigum grunnskólans.
b.  Að efla samstarf textílkennara, bæði innbyrðis og við aðra kennara.
c.  Að beita sér fyrir og styrkja réttindi textílkennara.
d.  Að stuðla að aukinni fagþekkingu félagsmanna.

3. gr.
Tilgangi sínum hyggst félagið ná:

a.  Með fundahöldum og fræðandi erindum.
b.  Með því að beita sér fyrir framhaldsnámi og endurmenntun textílkennara.
c.  Með því að taka þátt í norrænu samstarfi.
d.  Með því að beita sér fyrir bættum kjörum textílkennara og að þau séu að minnsta kosti jafngóð og kjör annarra kennara.

4. gr. Félagsmenn

a.  Inngöngu í félagið getur hver sá fengið sem lokið hefur tilskyldu prófi í textílfræðum ásamt kennsluréttindum.
b.  Óski gestir að sækja viðburði félagsins getur stjórn félagsins heimilað það gegn gjaldi.

5. gr. Árgjald

a.  Árgjald félagsmanna skal eigi vera hærra en sem nemur 2% af mánaðarlaunum (byrjunarlaunum) kennara við grunnskóla.
b.  Félagsmenn sem náð hafa 67 ára aldri og eru skuldlausir við félagið eru undanþegnir félagsgjaldi.
c.  Þeir félagar sem ekki hafa greitt félagsgjöld í 2 ár, teljast ekki lengur meðlimir í félaginu enda hafi þeim verið gert viðvart.

6. gr. Aðalfundur
Aðalfund félagsins skal halda í febrúar og eigi síðar en í mars ár hvert. Skal boða til hans með tveggja vikna fyrirvara og telst hann þá lögmætur. Lögmæt boðun telst vera að senda út póst til félagsmanna með tölvupósti eða bréfpósti. Rétt til setu á aðalfundi hafa aðeins fullgildir félagar.

Dagskrá aðalfundar:

  1. Skýrsla stjórnar.
  2. Reikningar lagðir fram til samþykktar.
  3. Tillaga stjórnar um félagsgjöld næsta starfsárs.
  4. Kosning í stjórn og varastjórn.
  5. Kosning eins skoðunarmanns reikninga og annars til vara. Stjórnarmenn eru ekki í kjöri.
  6. Lagabreytingar.
  7. Önnur mál.

Breyting á dagskrá getur fundarstjóri ákveðið með a.m.k. 2/3 hluta atkvæða fundarmanna.

7. gr. Stjórn félagsins

a.  Stjórn félagsins skipar formaður og fjórir meðstjórnendur. Jafnframt eru tveir varamenn stjórnar.
b.  Á aðalfundi annað hvort ár skal kjósa formann til tveggja ára. Á hverjum aðalfundi skal kjósa tvo stjórnarmenn til tveggja ára, fyrsta og annan varamann til eins árs, skoðunarmann reikninga og annan til vara til eins árs. Kosningar skulu vera leynilegar.
c.  Stjórn skiptir með sér verkum í eftirtalin störf: Varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi.
d.  Fyrsta stjórnarfund skal halda innan tveggja vikna frá aðalfundi. Formaður boðar fund.

8. gr. Ársreikningar
Reikningsár félagsins skal vera almanaksár. Reikningar skulu vera yfirfarnir af félagskjörnum skoðunarmanni reikninga og liggja frammi á aðalfundi.

9. gr. Lagabreytingar
Tillögur að lagabreytingum skal senda með aðalfundaboði. Tillögur að lagabreytingum þurfa að berast stjórn ekki seinna en 15. janúar.

10. gr. Vægi atkvæða
Einfaldur meirihluti ræður úrslitum mála á fundum félagsins. Tvo þriðju hluta atkvæða þarf þó til að breyta lögum félagsins enda sé það gert á lögmætum aðalfundi.

11. gr. Ákvæði til bráðabirgða
Á aðalfundi félagsins árið 2014 skal kjósa tvo stjórnarmenn til tveggja ára í samræmi við 7. gr. og tvo stjórnarmenn til eins árs.