Félag textílkennara


Þann 27. janúar 1955 var fundur haldinn með handavinnukennurum stúlkna úr Handíðakennarafélaginu. Handíðakennarafélagið samanstóð af teiknikennurum, smíðakennurum og handavinnukennurum stúlkna.

Á þessum fundi var borin upp tillaga þess efnis að skipta félaginu sem samanstendur að teiknikennurum, smíðakennurum og handavinnukennurum stúlkna í 3 deildir sem hver og ein myndi svo starfa sjálfstætt innan félagsins. Fundarstjóri bar fram tillögu þess efnis hvort fundarmenn væru ekki með því að handavinnukennarar störfuðu sem ein deild og var hún samþykkt samhljóða.

Fundarstjóri las úr bréfi sem sent hafði verið fræðslufulltrúa, þess efnis, að starfstími handíðakennara væri samræmdur starfstíma annarra kennara sömu skóla.

Einnig tilmæli til Fræðsluráðs um að það mælti aðeins með þeim umsækjendum um handíðakennarastöður sem hafa tilskilin réttindi.

Þá fór fram kosning í stjórn. Arnþrúður Karlsdóttir var kosin formaður og síðan var stungið upp á Guðnýju Helgadóttur og Rannveigu Sigurðardóttur sem meðstjórnendum og voru þær samþykktar.

Á fundinum kom fram að aðalmarkmið félagsins væri að stuðla að bættum aðbúnaði kennara og gæta hagsmuna einstaklingsins og kennara í heild. Skýrt var frá hversu ólík vinnuskilyrði væru hér í skólum og skólum erlendis.

Fram kom á fundinum að erfitt væri með húsnæði, það væri af svo skornum skammti að sumstaðar væru tvær að kenna í einni og sömu stofunni, talað var um að það ætti vera fyrst og fremst kennaranna að kvarta um ónógan aðbúnað. Nokkrar umræður urðu um málið. Margir létu í ljós óánægju yfir slæmum aðbúnaði við handavinnukennslu í skólum, m.a. skorti á fleiri og betri saumavélum og geymslum fyrir áhöld og efni.

Í maí á sama ári var haldinn fundur þar sem rætt var um að samræma þyrfti handavinnu í skólum meira en gert væri. Á fundinum var borin fram fyrirspurn um það hvort leggja ætti áherslu á að láta börnin vanda skylduvinnuna í skólunum svo að þau gætu öll fengið ágætiseinkunn, eða láta sér nægja að flaustra henni af, og gera heldur þess fleiri stykki á eftir.

Svarið var að það væri sjálfsagt að láta nemendur gera skylduna eins vel og hægt væri, en það vissu það allir að fæst þeirra gætu gert hana upp á 10.

Fyrirspyrjandi sagði að nokkurrar óánægju gætti í skólum að sumstaðar fengju börnin að fara með vinnuna heim, en annars staðar ekki. Nokkrar umræður urðu um málið.

Þá urðu nokkrar umræður um nemendafjölda í handavinnutímum, og voru allar sammála um að yfirleitt væri nemendafjöldinn allt of mikill.

Borin var upp svohljóðandi tillaga, sem samþykkt var samhljóða:

„Fundur haldinn í Handíðakennarafélagi Íslands, beinir þeirri áskorun til fræðslufulltrúa og fræðslumálastjóra, að fjölga kennslustundum í handavinnu stúlkna í gagnfræða- og barnaskólum, frá því sem nú er. (Og) Ennfremur vill fundurinn skýrskota til fyrri fundarsamþykktar, þar sem ákveðið var að nemendafjöldi í hverri kennslustund skyldi ekki vera fleiri en 16“.