is / en / dk

Umsóknum og fylgigögnum er skilað rafrænt á Mínum síðum. Þegar sótt hefur verið um á Mínum síðum berst númer umsóknar í tölvupósti á uppgefið netfang umsækjanda. Ef fylgigögn eru send í tölvupósti á sjodir@ki.is þarf að merkja þau með umsóknarnúmeri. Það sama á við ef fylgigögn eru send í bréfapósti á heimilisfangið:

Starfsmenntunarsjóður Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum
Laufásvegi 81
101 Reykjavík 

Ef, af einhverjum ástæðum, ekki er mögulegt að skila umsóknum á Mínum síðum þá er eyðublað hér.

 

Úr A deild sjóðsins eru veittir einstaklingsstyrkir vegna starfsþróunar innanlands og utan, s.s. til framhaldsnáms á háskólastigi, skráningar- /skólagjalda, námskeiða, einkatíma, ráðstefna og málþinga.

Hámarksstyrkur er 450.000 kr. á þriggja ára tímabili. Á hverjum þremur árum getur félagsmaður sótt um styrk eða styrki að upphæð 450.000 kr. vegna starfsþróunar. Styrkur skal aldrei vera hærri en sem nemur útlögðum kostnaði.

Auk náms- og þátttökugjalda er kostnaður vegna ferða, gistingar og uppihalds lagður til grundvallar styrkveitingu. Til uppihalds erlendis, eða svo langt frá föstum vinnustað eða heimili að félagsmaður þarf að kaupa sér fæði meðan á námskeiði stendur, reiknast kr. 10.000 á dag að hámarki.

Uppihald telst hluti hámarksstyrks og greiðist mest í fimm daga gegn framvísun reikninga.

Einungis skal styrkja einstaklinga, ekki hópa eða félög. Hins vegar geta félög auglýst að sjóðurinn styrki tónlistarskólakennara og stjórnendur tónlistarskóla vegna þátttöku í samræmi við reglur sjóðsins.

Sjóðstjórn leitast við að úthluta styrkjum eins fljótt og auðið er þegar fullnægjandi gögn hafa borist. Skila þarf frumriti reiknings á nafni félagsmanns þar sem fram kemur nám/námskeiðslýsing, nafn og kennitala fræðsluaðila.

Ef margar umsóknir berast sjóðnum í einu er sjóðstjórn heimilt að skerða styrki með hliðsjón af fjárhagsstöðu sjóðsins.

Sótt er um á Mínum síðum og kvittanir eru settar með í viðhengi.

Ef, af einhverjum ástæðum, ekki er mögulegt að skila umsóknum á Mínum síðum þá er eyðublað á Word hér.

Upplýsingar um FERÐAKOSTNAÐ má nálgast hér.

 

Sjóðstjórn er heimilt að veita sem nemur fimm hámarksstyrkjum á ári úr B deild. Hámarksstyrkur er kr. 1.000.000.

Umsækjandi getur aðeins sótt um styrk til eins verkefnis í senn. Ljúka þarf útistandandi verkefni áður en nýtt verkefni fær afgreiðslu.

Umsóknir eru afgreiddar einu sinni á ári. Umsóknarfrestur er til 15. október og skal umsóknum svarað fyrir 15. desember sama ár.
 

Í umsókn um styrk úr B deild skal eftirtalið koma fram samkvæmt stafliðum a - g:

a.  Almennar upplýsingar um umsækjanda.
b.  Nöfn annarra þátttakenda og samstarfsaðila, ef einhverjir eru.
c. Upplýsingar um menntun og fræðilegan bakgrunn umsækjanda.
d. Upplýsingar um fyrri verk á sviði námsefnisgerðar, rannsóknar- og þróunarverkefna.
e. Greinargóð lýsing á verkefninu, markmiðum þess og þýðingu. Er t.d. þörf fyrir verkefnið og bætir það einhverju við það efni sem þegar er til.
f. Tímasett verkáætlun.
g. Greinargóðar upplýsingar um áætlaðan kostnað og framlög til verkefnisins, s.s. upplýsingar um aðra styrki.
   

Með umsókn skulu fylgja drög að verkefninu/námsefninu. Drögin skulu sýna helstu efnistök og sýna fram á að fagmennska einkenni verkefnið.
 

Mat á umsóknum í B deild skal einkum byggjast á eftirtöldum sjónarmiðum í stafliðum a - h:

a.  Að umsækjandi eigi ekki ólokið verkefni sem sjóðurinn hefur styrkt.
b.  Að hvert verkefni getur einungis fengið einn styrk.
c. Að verkefnið hafi gildi fyrir tónlistarkennslu og/eða skólaþróun og uppfylli þörf sem er til staðar.
d. Faglegum vinnubrögðum varðandi efnistök og frágang verkefnis.
e. Að verkefnið feti nýjar slóðir t.d. hvað varðar skapandi tónlistarstarf, nýjungar í kennslu eða notkun nýrra miðla í tónlistarkennslu.
f. Að umsækjanda takist að ná þeim markmiðum er verkefnið miðar að.
g. Starfsferli og faglegum eða fræðilegum bakgrunni umsækjanda og annarra þátttakenda.
h. Að umsókn sé skýr, greinargóð og vel frágengin.
   

Stjórn Starfsmenntunarsjóðs FT getur leitað umsagnar fagaðila ef þörf er talin á því.

Þegar umsókn er samþykkt greiðist fjórðungur styrkupphæðar og eftirstöðvar þegar fullunnu verkefni er skilað til stjórnar sjóðsins.

Geta skal þess í öllu útgefnu efni að sjóðurinn hafi styrkt útgáfuna. 

Skuldbinding sjóðsins gagnvart verkefni fellur niður ef verkefni er ekki lokið innan þriggja ára frá því að styrkur er veittur.

Sjóðstjórn getur ákveðið að veita ekki styrki úr B deild með hliðsjón af fjárhagsstöðu sjóðsins.

Sótt er um á Mínum síðum og kvittanir eru settar með í viðhengi.

Hér er eyðublað á word sem umsækjandi þarf að fylla út ásamt umsókn á Mínum síðum.

 

Skilyrði styrkveitinga vegna skipulagðra hópferða, (náms- og kynnisferða og/eða skólaheimsókna) eru að staðfest tímasett dagskrá frá skipuleggjanda og/eða móttökuaðila liggi fyrir og að dagskrá standi yfir að lágmarki í 6 klst. Styrkveiting nær til eftirfarandi kostnaðarþátta sem falla til vegna ferðar: Skráningargjalda námskeiða, ráðstefna og málþinga, ferða- og gistikostnaðar. Sjóðurinn greiðir fyrir gistinætur sem sannanlega varða ferðina auk einnar viðbótarnætur ef þannig háttar til, s.s. vegna ferðatilhögunar. Hver sjóðfélagi sækir um styrk á Mínum síðum á vef KÍ að ferð lokinni.

Styrkur á hvern einstakling er að hámarki 150.000 kr. á tveggja ára tímabili.
 

Fullnægjandi er að ábyrgðarmaður ferðar sendi eina staðfestingu um þátttöku fyrir allan hópinn. Staðfesting þarf að tilgreina:

a. Greinargerð frá ábyrgðarmanni um tilgang og markmið ferðar.
b. Tímasett dagskrá ferðar sem er í samræmi við starfsáætlun, tilgang og markmið.
c. Staðfestingu móttökuaðila.
d. Lista yfir þátttakendur (nafn, kennitala, skóli).
e. Kostnaður félagsmanns vegna ferðar s.s. afrit af farseðli og öðrum ferðakostnaði, gistikostnaði, skráningargjöld og öðrum kostnaði sem fellur til vegna dagskrár ferðar.
f. Skýrslu ábyrgðarmanns.
   

Ábyrgðarmaður er jafnframt tengiliður hópsins við sjóðstjórn. Styrkur er greiddur til hvers þátttakanda í ferð enda hafi viðkomandi lagt út fyrir kostnaðinum.

Úthlutun úr þessari deild hefur ekki áhrif á möguleika einstaklings að sækja um styrk úr öðrum deildum sjóðsins.

Einstaklingur sem ekki á rétt á hópstyrk getur nýtt sér styrk úr A - deild sjóðsins sem nemur að hámarki 150.000 kr. annað hvert ár hafi hann ekki nýtt sér þann rétt.

Styrkfjárhæðir eru endurskoðaðar af sjóðstjórn a.m.k. árlega og lagðar fram til staðfestingar hjá samningsaðilum.

Aldrei eru greiddir hærri styrkir en sem nemur framlögðum reikningum/staðfestingum.

Sótt er um á Mínum síðum og kvittanir eru settar með í viðhengi.

Hér er dæmi um dagskrá sem yrði samþykkt og hér er eyðublað á word sem ábyrgðaraðili þarf að fylla út.

 

 

Starfsmenntunarsjóður FT