is / en / dk

A deild 2018.

Vísindasjóður FF og FS skiptist í tvær deildir, A deild og B deild. Markmið Vísindasjóðs er að auka tækifæri félagsmanna til framhalds- og endurmenntunar og reglum A deildar er ætlað að tryggja að styrkir nýtist að fullu til endurmenntunar innanlands.

Tekjur A deildar eru nálægt fimm sjöttu af 1,5% kjarasamningsbundnu framlagi launagreiðenda af dagvinnulaunum sjóðfélaga. Styrkupphæð í A deild fyrir árið 2017 er að hámarki 84.000 kr.

Aðeins er tekið við umsóknum í A deild frá 1. september til 15. nóvember.

Umsóknir þurfa að hafa borist í síðasta lagi 15. nóvember ár hvert. Ef umsóknin er send með landpósti verður bréfið að vera póststimplað í síðasta lagi 15. nóvember.

 

Félagsmaður öðlast réttindi í A deild eftir að hafa greitt iðgjöld í sjóðinn í 3 mánuði samfellt. Félagsmaður í fullu starfi allt árið á rétt á fullum styrk, kr. 84.000.

Hlutfallsleg réttindi: Réttindi í A deild eru hlutfallsleg og miðast við starfshlutfall. Félagsmaður í hlutastarfi á rétt á styrk miðað við dagvinnuhlutfall og fjölda unninna mánuði ársins.

Launalaust leyfi: Félagsmaður sem fer í launalaust leyfi og nám getur viðhaldið réttindum sínum enda haldi hann félagsréttindum sínum í FF eða FS og hluti iðgjalda rennur til sjóðsins. Umsóknir eru ekki afgreiddar fyrr en félagsmaður er kominn aftur til starfa og er orðinn fullgildur sjóðfélagi á ný og sjóðnum hefur sannanlega borist greiðsla iðgjalda meðan á launalausu leyfi stóð.

Fæðingarorlof: Félagsmaður sem fer í fæðingarorlof getur viðhaldið réttindum sínum enda haldi hann félagsréttindum sínum í FF eða FS og hluti iðgjalda rennur til sjóðsins. Til þess að viðhalda réttindum sínum þarf félagsmaður sannanlega að greiða í sjóðinn meðan á fæðingarorlofi stendur.

Félagsmaður þarf að vera sjóðfélagi þegar sótt er um styrk, þ.e. réttindi falla niður þegar iðgjöld hætta að berast sjóðnum.

 

Úr A deild eru veittir styrkir vegna skólagjalda, námskeiðsgjalda, ráðstefnugjalda og ferðakostnaðar vegna endurmenntunar og viðbótarmenntunar innanlands. Styrkir eru veittir vegna kaupa á bókum, handbókum, rafbókum, fagtímaritum, áskriftum að tímaritum og vefritum sem tengjast starfi félagsmanna, þar með talið árgjöld til fagfélaga. Þá eru veittir styrkir vegna rekstrartengdra útgjalda tengdum prentara (pappír, blek, tóner) og tölvuhugbúnaðar sem tengist starfi/námi félagsmanna, þar með talið flakkarar og minnislyklar.

Einungis eru veittir styrkir vegna útgjalda sem skattayfirvöld taka gild sem frádrátt á móti endurmenntunar- og viðbótarmenntunarstyrk. Almenna reglan er sú að kostnaður sem félagsmaður ber og er umfram það sem eðlilegt getur talist (umfram heimilisnotkun) er frádráttarbær. Hægt er að senda fyrirspurn á rsk.is ef um vafaatriði er að ræða. Ef skattayfirvöld fallast á rökstuðning félagsmanna í þá veru mun sjóðstjórn taka tillit til þess. Hægt er að senda fyrirspurn til sjóðsins á netfangið visffogfs@ki.is eða hringja í síma 595 1111.

Lögum samkvæmt sendir Vísindasjóður FF og FS styrkupphæðir til skattayfirvalda og þær eru forskráðar á skattframtal hvers árs. Framteljandi færir frádrátt á móti í reit 2.6 (149). Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóraembættinu og svörum fulltrúa þess við fyrirspurnum félagsmanna og sjóðstjórnar er eftirtalið ekki frádráttarbært:

tölvur, prentarar, skannar og sambærileg tæki; varahlutir í tölvur, íhlutir og viðgerðir á tölvum; harðir diskar, tölvutöskur, spjaldtölvur, Kindle lestölvur, myndavélar, heyrnartól og önnur sambærileg tæki; netáskrift, dagblaðaáskrift, áskrift að efnisveitum og árgjöld til starfsmannafélaga.

Þegar sótt er um styrk verður umsókn að byggja á útgjöldum sem hafa fallið til frá og með 1. desember árið áður. Eldri útgjöldum verður hafnað í öllum tilvikum. Einungis er hægt er að nýta staðgreiðslunótur og nótur sem eru stílaðar á nafn umsækjanda (ekki nafn maka eða annarra).

 

Sótt er um rafrænt í gegnum „Mínar síður“ á heimasíðu KÍ. Umsækjandi fær staðfestingu á að umsókn hafi skilað sér með því að á skjáinn koma skilaboð með afgreiðslunúmeri umsóknarinnar. Með rafrænni umsókn skal berast yfirlit um sundurliðuð útgjöld (word- eða excelskjal) þar sem kemur fram hvað var keypt, útgefandi reiknings, dagsetning og ártal reiknings og upphæð í krónum. Mikilvægt er að tilgreina allt sem beðið er um. Vinsamlegast athugið að nota ekki íslenska stafi, kommur eða bil í heiti viðhengis.

Hægt er að sækja eyðublað A deildar á heimasíðu KÍ og senda það útfyllt í pósti ef vill.

Frumrit reikninga eiga ekki að fylgja með umsókn til sjóðsins. Félagsmaður varðveitir frumgögn sjálfur enda ber hann ábyrgð á því að umsóknin byggi á gildum reikningum sem koma á móti styrkupphæð. Félagsmaður færir frádrátt á skattframtal sitt í samræmi við gögn sem liggja til grundvallar styrkveitingu.

Af gefnu tilefni skal tekið fram að eingöngu er veittur styrkur vegna útgjalda sem þegar hafa fallið til þegar umsókn er send inn.

Óskað er eftir því að umsækjendur taki fram hvert starfshlutfall þeirra er (dagvinna), ef það er hærra en ráðningarsamningur kveður á um. Þetta á ekki við þá sem eru í 100% stöðu samkvæmt ráðningarsamningi.

 

Umsóknartímabil fyrir styrki úr A deild er frá 1. september til 15. nóvember.

Umsóknir í A deild þurfa að berast eigi síðar eða vera póstlagðar eigi síðar en 15. nóvember. Sjóðstjórn ábyrgist ekki að umsóknir sem berast eftir þann tíma verði afgreiddar fyrir árslok.

Ef sjóðfélagi hefur ekki nýtt sér réttindi sín að fullu tvö síðustu almanaksár, getur hann sótt um fyrningar með tölvupósti til visffogfs@ki.is.

 

 

Með ósk um gott og farsælt samstarf,
Stjórn Vísindasjóðs FF og FS


Í stjórn Vísindasjóðs FF og FS eru:

Ólafur Þórisson, formaður, (FF) MS
Jón Ragnar Ragnarsson, meðstjórnandi, (FF) MH
Kolbrún Kolbeinsdóttir, ritari, (FS) TS

Útgefandi: Vísindasjóður FF og FS, Laufásvegi 81, 101 Reykjavík, s. 595 1111

Ábyrgðarmenn: Sjóðstjórn
31. ágúst 2017

 

 

 

UM SJÓÐINN

  • Námskeið, ráðstefnur, skólagjöld, bækur, framhaldsn&aacut...
  • Umsóknir og úthlutunarreglur. Hverjir eiga rétt? Umsóknir á M&...
  • Markmið sjóðsins, stjórn, netfang.
  • Úthlutunarreglur sjóðsins voru samþykktar óbreyttar á sa...
  • A deild 2018.
  • B deild 2018.