is / en / dk

24. September 2014

„Við viljum að Samband íslenskra sveitarfélaga haldi orð sín um jafnrétti í launasetningu, að sambærileg og jafnverðmæt störf séu launuð með sama hætti,“ segir Sigrún Grendal, formaður Félags tónlistarskólakennara, í viðtali við Skólavörðuna sem kom út í byrjun mánaðarins.

Sigrún hafnar því alfarið að meginmarkmið Sambands íslenskra sveitarfélaga í kjarasamningagerðinni eigi ekki við alla hópa sama stéttarfélags, það er Kennarasambands Íslands. Nær tíu mánuðir eru síðan skrifað var undir viðræðuáætlun FT og Sambandsins og enn hafa samningar ekki náðst.

Þórður Á. Hjaltested, formaður KÍ, skorar í sama blaði á Samband íslenskra sveitarfélaga að ganga strax til samninga við tónlistarskólakennara á sömu forsendum og gengið hefur verið frá samningum við önnur aðildarfélög KÍ. 

 

Og þá var eftir einn

Níu mánuðir eru frá því að viðræðunefnd Félags tónlistarskólakennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga skrifaði undir viðræðuáætlun og enn hafa samningar ekki náðst. „Við höfnum því að meginmarkmið Sambands íslenskra sveitarfélaga í samningsgerðinni eigi ekki við um alla hópa innan sama stéttarfélags, þ.e. Kennarasambands Íslands,“ segir Sigrún Grendal, formaður FT.

„Það er öllum ljóst mikilvægi þess að starfsumhverfi allra kennara sé í stöðugri þróun svo kennarar geti brugðist við þeim breytingum sem samfélagið kallar á. FT er stéttarfélag tónlistarkennara og skólastjórnenda og við komum saman að samningaborðinu. Í gegnum árin höfum við unnið saman að því að þróa starfsumhverfi og stjórnkerfi tónlistarskóla þannig að það falli að og þjóni sem best stefnumörkun á hverjum tíma. Auk heildarútgáfu á aðalnámskrá tónlistarskóla horfum við til nýrrar mennta- og menningarstefnu stjórnvalda. Tónlistarskólakerfið hefur víðtæku hlutverki að gegna og við viljum axla okkar ábyrgð á þróun samfélagsins. Kjarasamningar snúast ekki eingöngu um bætt kjör stétta, þeir eru einnig mikilvægur hlekkur þegar kemur að framkvæmd stefnumörkunar og faglegri þróun. Kennarar og stjórnendur tónlistarskóla hafa í gegnum árin stöðugt horft til þessa í vinnu sinni og við höfum nú þegar innleitt margar af þeim breytingum sem nú eru til skoðunar hjá öðrum skólagerðum,“ segir Sigrún.

Hún segir félagið hafna þeirri stefnubreytingu að nú eigi að setja störf tónlistarkennara og skólastjórnenda tónlistarskóla skör lægra en kollega þeirra í Kennarasambandi Íslands.
„Við viljum að Samband íslenskra sveitarfélaga haldi orð sín um jafnrétti í launasetningu, að sambærileg og jafnverðmæt störf séu launuð með sama hætti“.

Hluti greinar sem birtist í Skólavörðunni, 2. tbl. og hægt er að nálgast hér.

 

Tengt efni