Félag fagfólks á skólasöfnum

 

Lög félagsins

 

1. grein

Félagið heitir Félag fagfólks á skólasöfnum, skammstafað FFÁS og er félag fagmenntaðs starfsfólks á skólasöfnum.

Félagssvæði þess er landið allt. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

 

2. grein

Hlutverk félagsins er:

a.   Að efla starf á skólasöfnum og stuðla að viðurkenningu starfsins sem sérhæfðrar starfsgreinar.

b.   Að gæta hagsmuna félagsmanna við gerð kjarasamninga í þeim stéttarfélögum sem þar á við.

c.  Að efla samheldni, tengsl og stéttarvitund félagsmanna.

d.  Að gæta faglegra og félagslegra hagsmuna félagsmanna gagnvart

     innlendum og erlendum aðilum.

e.  Að efla faglegt starf meðal félagsmanna og vinna að því að allir

     sem starfa á skólasöfnum hafi menntun við hæfi.

f.   Að stuðla að endurmenntun félagsmanna.

g.  Að efla rannsókna- og fræðistörf sem varða skólasöfn.

h.  Að efla og hvetja til samstarfs við sambærileg erlend félög.

 

3. grein

Félagsmenn í Félagi fagfólks á skólasöfnum eru:

a. Kennarar sem hafa viðurkennda framhaldsmenntun í bókasafns- og upplýsingafræði eða sambærilega menntun.

b. Þeir sem hafa viðurkennda menntun í bókasafns- og upplýsingafræði.

Stjórn tekur ákvörðun um innheimtu félagsgjalda.

 

4. grein

Aðalfundur félagsins skal haldinn í marsmánuði ár hvert. Hann hefur æðsta vald í málefnum félagsins.

Til hans skal boðað með viku fyrirvara hið skemmsta og er hann þá lögmætur. Meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála.

 

5. grein

Dagskrá aðalfundar skal vera:

1.      Skýrsla stjórnar.

2.      Ársreikningur félagsins.

3.      Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga félagsins.

4.      Lagabreytingar.

5.      Skýrslur nefnda.

6.      Umræður og afgreiðsla mála.

7.      Kosning stjórnar, varastjórnar, fræðslunefndar og kjaranefndar.

8.      Kosning tveggja endurskoðenda.

9.      Önnur mál.

 

6. grein

Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi. Tillögur til lagabreytinga skal senda stjórn minnst tveimur vikum fyrir aðalfund og skal stjórnin senda þær til félagsmanna með fundarboði. Til lagabreytinga þarf ¾ atkvæða fundarmanna.

 

7. grein

Stjórn félagsins skal skipuð fimm mönnum og tveimur til vara, formaður, varaformaður, ritari gjaldkeri og umsjónaraðili vefmála.  Formann skal kjósa sérstaklega.

Við stjórnarkjör er æskilegt að ekki gangi fleiri en þrír úr stjórn í einu.

Þegar formannsskipti verða er fráfarandi formaður ráðgefandi aðili fyrir stjórn fram til næstu áramóta.

 

8. grein

Stjórn félagsins ræður málefnum þess með þeim takmörkunum sem lög þessi setja. Hún tekur ákvarðanir um starfsemi félagsins og ber ábyrgð á fjárreiðum þess. Hún skuldbindur félagið gagnvart öðrum aðilum og er undirskrift formanns og gjaldkera nægileg til þess. Stjórn félagsins er heimilt að skipa í nefndir sem starfa í umboði stjórnar.

 

9. grein

Nefndir og fagráð:

Fræðslunefnd skal starfrækt. Hún er skipuð þremur félagsmönnum og starfssvið hennar er að sjá um heimasíðu félagsins auk þess að vinna að fræðslu- og endurmenntunarmálum.

Kjaranefnd skal starfrækt. Hún er skipuð þremur félagsmönnum og hlutverk hennar er að taka saman upplýsingar um kjaramál félagsmanna og upplýsa um hagsmunamál í kjarasamningum. Nefndarmenn eru einnig tengiliðir fyrir hönd stjórnar við þau stéttarfélög sem félagsmenn eru aðildar að.

Nefndir þessar starfa í nánu samráði við stjórn félagsins.

 

10. grein

Stjórnarfundi skal boða með tryggilegum hætti að jafnaði með viku fyrirvara en að lágmarki með þriggja daga fyrirvara. Stjórnarfundur er ályktunarfær ef þrír stjórnarmenn sækja fund. Meirihluti atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum. Við jöfn atkvæði ræður atkvæði formanns úrslitum. Gerðir stjórnar skulu bókfærðar.

 

11. grein

Nú kemur fram tillaga um að félaginu skuli slitið og skal hún þá sæta sömu meðferð og tillögur um lagabreytingar, sbr. 7. grein hér að framan. Eignir félagsins ef einhverjar eru, skulu þá renna til góðgerðarmála eða líknarstarfsemi.

Aðalfundur 6. mars 2017