is / en / dk

 

Á þessari síðu verður efni um flest það er viðkemur hugmyndum um breytingar á leyfisbréfum kennara. Hægt er að senda greinar, ályktanir og annað á utgafa@ki.is.

 

Ályktanir frá kennarafélögum

 

 

ÁLYKTUN KENNARAFÉLAGS FJÖLBRAUTASKÓLA SNÆFELLINGA
vegna hugmynda um eitt leyfisbréf kennara

 

Stjórn kennarafélags Fjölbrautaskóla Snæfellinga mótmælir harðlega þeim breytingum sem reifaðar hafa verið af yfirvöldum menntamála hér á landi og hefur ályktað eftirfarandi:

Ef tilgangur slíkra breytinga á að vera að auka flæði á milli skólastiga, er sá möguleiki þegar til staðar í 21. gr. núgildandi laga nr. 87 frá 2008 um menntun og ráðningu kennara.

Ef á að breyta menntakerfinu hér á landi með því að eitt leyfisbréf gildi fyrir öll skólastig þarf að umbylta inntaki allrar kennaramenntunar. Framhaldsskólakennarar eru alla jafna með þriggja ára háskólagráðu í faggrein (BA) hið minnsta og flestir með meistarapróf auk viðbótarnáms í kennslufræðum. Grunn- og leikskólakennarar hafa sömuleiðis alla jafna meistarapróf, að meginuppistöðu í uppeldis- og kennslufræðum með áherslu á námsgrein og aldursstig nemenda. Vegna ólíkrar sérhæfingar kennara skólastiganna og ólíkra þarfa nemenda þeirra, teljum við fráleitt að ætla kennurum að hafa hæfni til kennslu allra aldurshópa.

Það að færa skólastjórnendum völd til að ráða inn þá einstaklinga sem þeim sýnist svo framarlega sem þeir hafi leyfisbréf teljum við ekki af hinu góða. Ef grunn- eða leikskólakennari með leyfisbréf sækir t.d. um stöðu stærðfræðikennara við framhaldsskóla á móti stærðfræðingi án leyfisbréfs þá fengi réttindamanneskjan væntanlega stöðuna. Þetta yrði stórt skref aftur á bak og við erum þess fullviss að verði þessar breytingar að veruleika muni þær valda óafturkræfum skaða fyrir íslenskt samfélag.

Stjórn kennarafélags Fjölbrautaskóla Snæfellinga mótmælir þessum hugmyndum því harðlega og vonar að menntamálaráðherra endurskoði afstöðu sína. Þess er vænst að viðkvæðið: Framkvæma fyrst, spyrja svo að leikslokum verði ekki haft að leiðarljósi, því: ,, Dýr myndi Hafliði allur ef svo skyldi hver limur".
 

f.h. Kennarafélags Fjölbrautaskóla Snæfellinga,
Erna Guðmundsdóttir, formaður
Jakob Bragi Hannesson, trúnaðarmaður

 

 

ÁLYKTUN KENNARAFÉLAGS FJÖLBRAUTASKÓLA SUÐURNESJA

17. desember 2018

Kennarafélag Fjölbrautaskóla Suðurnesja mótmælir harðlega hugmyndum um að gefið verði út eitt leyfisbréf til kennara óháð skólastigum, þ.e. leik-, grunn- og framhaldsskólastigi.

Félagsmenn hafa áhyggjur af því að ef af þessu verður þá muni nemendur ekki fá þá kennslu sem þeir eiga rétt á. Kennarar sem ráðist til starfa hafi ekki þá menntun og sérþekkingu á skólastiginu sem nauðsynleg er til þess að koma til móts við þarfir nemenda og veita þeim sem besta menntun.

Félagsmenn hafa áhyggjur af því að þetta verði til þess að skólar verði ekki í stakk búnir til þess að sinna hlutverki sínu eins og best er á kosið og skólastarfi muni hraka.

Kennarafélag Fjölbrautaskóla Suðurnesja lýsir yfir þungum áhyggjum af þeim grundvallarbreytingum á fyrirkomulagi menntunar ungdómsins sem birtist í slíkum framkomnum hugmyndum, og telur breytingarnar að öllu leyti varhugaverðar.

 

 

ÁLYKTUN KENNARAFÉLAGS FJÖLBRAUTASKÓLANS Í GARÐARBÆ
vegna hugmynda um eitt leyfisbréf kennara

3. desember 2018

Stjórn og félagar Kennarafélags Fjölbrautaskólans í Garðabæ mótmæla hugmyndum sem komið hafa fram um eitt leyfi fyrir alla kennara á leik, grunn- og framhaldsskólastigi. Einnig tökum við heilshugar undir þær yfirlýsingar sem komið hafa fram um málið.

Við álítum að stjórnvöld og yfirvöld menntamála þurfi miklu frekar að horfa til annarra þátta í menntakerfi landsins, með það að markmiði að bæta menntun á Íslandi. Þá teljum við mikilvægt að fara í aðgerðir sem auka veg og virðingu kennarastarfsins hér á landi.

Eitt sameiginlegt leyfisbréf leysir því ekki vanda menntakerfisins á Íslandi og telur félagið að þetta muni draga úr vægi og rýra sérþekkingu og sérhæfingu hvers skólastigs.

Nýlega var nám til stúdentsprófs stytt um eitt ár og við það tapaðist ákveðin breidd í námi. Því miður. Framhaldsskólakennarar og nemendur hafa verið að aðlaga sig að þeim breytingum og sýnt mikinn sveigjanleika í því. Það er mikilvægt að kennarar fái svigrúm til þess að gera sem best úr þeirri breytingu. Nýtt og frekara umrót er því ónauðsynlegt að okkar mati.
 

Fyrir hönd Kennarafélags FG,
Gunnar Hólmsteinn Ársælsson, formaður

 

 

ÁLYKTUN KENNARAFÉLAGS KVENNASKÓLANS Í REYKJAVÍK

30. nóvember 2018

Kennarafélag Kvennaskólans í Reykjavík, Krákan, mótmælir harðlega hugmyndum um að gefið verði út eitt leyfisbréf til kennara óháð skólastigum. Í kennaranámi eru ólíkar áherslur fyrir hvert skólastig enda þarfir nemenda hvers stigs mismunandi. Því verða leyfisbréf að miðast við markmið hvers skólastigs fyrir sig. Með hugmyndunum um eitt leyfisbréf er vegið að sérþekkingu kennara og sérhæfingu á hverju skólastigi. Auk þess eru hagsmunir nemenda ekki hafðir að leiðarljósi. Kennarafélagið mælist til þess að efni kennaramenntunarlaga um heimild kennara til að kenna í samræmi við menntun sína á aðliggjandi skólastigi komist í framkvæmd.

Kennarafélag Kvennaskólans lýsir hér með yfir fullum stuðningi við ályktun félagsfundar FF sem haldinn var 19. nóvember síðastliðinn þar sem hugmyndum um eitt leyfisbréf var mótmælt. Kennarafélagið sendir stjórn FF stuðnings- og baráttukveðjur í þeirri vinnu sem framundan er og þetta mál varðar.

 

 

ÁLYKTUN KENNARAFÉLAGS MENNTASKÓLANS AÐ LAUGARVATNI

26. nóvember 2018

Félagsfundur Kennarafélags Menntaskólans að Laugarvatni, haldinn 26. nóvember 2018, mótmælir hugmyndum um að gefið verði út eitt leyfisbréf til kennara óháð skólastigum, þ.e. á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi.

Félagið telur að þessar hugmyndir séu ekki til þess fallnar að hagsmunir nemenda séu hafðir í fyrirrúmi. Vegið sé að faglegum forsendum hvers skólastigs fyrir sig og farið sé á svig við þá meginreglu framhaldsskólans að kennarar skuli hafa fagþekkingu og leyfisbréf í viðkomandi kennslunámsgrein.

Félagið telur réttara að leita annarra leiða til að koma í veg fyrir kennaraskort.

Samþykkt samhljóða á áðurnefndum fundi.

 

 

ÁLYKTUN KENNARAFÉLAGS MENNTASKÓLANS Á EGILSSTÖÐUM

11. febrúar 2019

Kennarafélag Menntaskólans á Egilsstöðum mótmælir harðlega hugmyndum um að gefið verði út eitt leyfisbréf fyrir alla kennara.

Ólík skólastig krefjast ólíkrar nálgunar. Kennaramenntun í landinu miðast við þrj ólík skólastig. Framhaldsskólakennarar hafa nauðsynlega sérkþekkingu í sínum fögum til að kenna námsgreinar miðað við námsefni og kröfur til nemenda á framhaldsskólastigi. Það er í meira lagi undarlegt að sérþekking skipti skyndilega ekki máli.

Hagsmundir nemenda virðast ekki hafðir að leiðarljósi ef ólík menntun kennara veitir eitt leyfisbréf óháð skólastigum. Til hvers er þá sérhæfing í námi kennara?

Kennarafélag Menntaskólans á Egilsstöðum skorar á menntamálaráðhera að hætta við fyrirhugaðar breytingar varðandi eitt leyfisbréf óháð skólastigum og standa þannig vörð um menntun í landinu.
 

Menntaskólanum á Egilsstöðum,
Árni Friðriksson, formaður KFME

 

 

ÁLYKTUN KENNARAFÉLAGS MENNTASKÓLANS Á ÍSAFIRÐI

4. desember 2018

Áskorun til mennta- og menningarmálaráðherra, Lilju Daggar Alfreðsdóttur.

Kennarafélag Menntaskólans á Ísafirði mótmælir harðlega hugmyndum um eitt leyfisbréf fyrir kennara óháð skólastigum.

Gildandi lög um kennaramenntun endurspegla öfugt við ofangreint að kennarar á öllum þremur skólastigunum þurfi bæði öfluga menntun í kennarafræðum og meiri sérhæfingu en eldri lög gerðu kröfu um. Kröfur um sérhæfingu hafa aukist í kennslugreinum eða á fagsviðum á öllum skólastigunum. Þá hafa kröfur til verðandi framhaldsskólakennara um kennslufræðimenntun einnig aukist. Rökin fyrir þessum breytingum voru meðal annars almenn þörf fyrir meiri menntun og sérfræðiþekkingu. Eitt leyfisbréf fyrir öll skólastig er algjörlega andstætt slíkri fagþekkingu. Það er t.d. algjörlega glórulaust að okkar mati að kennarar í framhaldsskólum fari að kenna í leikskólum. Hagsmunir nemenda eru einnig fyrir borð bornir með þessari fyrirhuguðu breytingu að okkar mati.

Það er heldur ekki að sjá að þessi fyrirhugaða breyting muni ráða bót á kennaraskorti en bent skal á að 21. grein laga nr. 87 frá árinu 2008 opnar á möguleika til að nýta krafta kennara á samhliða skólastigum ef skortur er á kennurum þ.á.m. kennurum til að kenna á grunnskólastigi.

Kennarafélag MÍ skorar því á mennta- og menningarmálaráðherra að hætta við hugmyndir um eitt leyfisbréf kennara fyrir öll skólastig.
 

Menntaskólanum á Ísafirði,
Emil Ingi Emilsson, formaður KFMÍ 

 

 

ÁLYKTUN KENNARAFÉLAGS MENNTASKÓLANS Í KÓPAVOGI
frá félögum FF og FS

23. nóvember 2018

Kennarafélag Menntaskólans í Kópavogi mótmælir hugmyndinni um að gefið verði út eitt leyfisbréf til kennara óháð skólastigum.

Sú kennsla sem fram fer á hverju skólastigi fyrir sig er ólík og þarfir nemenda hvers stigs mismunandi. Kennaranám byggir á því að auka hæfni og getu kennarans til að kenna á hverju skólastigi fyrir sig. Það þjónar ekki hagsmunum nemenda að gefa út eitt leyfisbréf þar sem kennarar með mismunandi fagþekkingu geti kennt á öllum skólastigum. Það hlýtur að verða að horfa til þess hve mismunandi námið er á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi og miða leyfisbréfið við markmið hvers skólastigs fyrir sig. Menntakerfið skal ávallt hafa fyrst og fremst hagsmuni nemenda að leiðarljósi.

Fyrir vikið telur Kennarafélag Menntaskólans í Kópavogi hugmyndina um sameiginlegt leyfisbréf á skólastigunum þremur vera vanhugsaða og mótmælir því kröftuglega þessum áformum.

 

 

ÁLYKTUN KENNARAFÉLAGS MENNTASKÓLANS Í REYKJAVÍK

19. nóvember 2018

Félag kennara Menntaskólans í Reykjavík mótmælir harðlega öllum hugmyndum um að gefið verði út eitt leyfisbréf til kennara óháð skólastigum, þ.e. leik-, grunn- og framhaldsskólastigi.

Telur félagið einkar mikilvægt að huga að þörfum og nauðsynjum hvers skólastigs fyrir sig og álítur hugmyndir um eitt leyfisbréf fyrir öll skólastig gjörsamlega óverjandi ef hafa eigi hagsmuni nemenda í fyrirrúmi. Með hugmyndunum sé alvarlega vegið að faglegum forsendum hvers skólastigs fyrir sig, sem og þeim grundvallarmannréttindum nemenda að tryggja þeim bestu fáanlegu menntun á hverju skólastigi. Má benda á að almennt megi stórlega efast um færni og sérhæfingu kennara af einu skólastigi til að ráðast í kennslu á öðru. Telur Félag kennara Menntaskólans í Reykjavík því að með slíkum hugmyndum sé gróflega vikið frá öllum þeim faglegu kröfum sem fylgt hafa hverju skólastigi.

Fyrir vikið lýsir Félag kennara Menntaskólans í Reykjavík yfir þungum áhyggjum af þeim grundvallarbreytingum á fyrirkomulagi menntunar ungdómsins sem birtist í slíkum framkomnum hugmyndum, og telur breytingarnar að öllu leyti varhugaverðar.

 

 

ÁLYKTUN KENNARAFÉLAGS MENNTASKÓLANS VIÐ HAMRAHLÍÐ
áskorun til mennta- og menningarmálaráðherra, Lilju Daggar Alfreðsdóttur

23. nóvember 2018

Kennarafélag Menntaskólans við Hamrahlíð mótmælir harðlega hugmyndum um eitt leyfisbréf fyrir kennara óháð skólastigum. Leikskólar, grunnskólar og framhaldsskólar eiga það sameiginlegt að þar fer fram menntun. Hún er hins vegar með afar ólíku sniði og krefst sérþekkingar á hverju stigi fyrir sig.

Kennarafélag MH krefst þess að fagleg sérhæfing verði virt. Tryggja skal að nemendur hljóti alltaf bestu mögulega menntun. Viðurkenna þarf að kennsla á öllum skólastigum krefst sérfræðiþekkingar. Eitt leyfisbréf fyrir öll skólastig er aðför að fagþekkingu og sérhæfingu. Hætta er á að það leiði af sér faglega hnignun.

Eitt leyfisbréf fyrir öll skólastig mun ekki bæta kennaraskort. Gríðarleg vinna var lögð í samningu laga nr. 87 frá 2008 um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Bent skal á að 21. grein þeirra opnar á möguleika til að nýta krafta kennara á samhliða skólastigum ef skortur er á kennurum. Augljósa lausnin á kennaraskorti er hins vegar að bæta kaup þeirra og kjör.

Kennarafélag MH skorar á mennta- og menningarmálaráðherra að hætta við hugmyndir um eitt leyfisbréf kennara fyrir öll skólastig.
 

Menntaskólanum við Hamrahlíð,
Guðlaug Guðmundsdóttir formaður KFMH

 

 

ÁLYKTUN KENNARAFÉLAG MENNTASKÓLANS VIÐ SUND

22. nóvember 2018

Aðalfundur Sundamanna, kennarafélags í Menntaskólans við Sund haldinn 22. nóvember 2018 lýsir yfir fullum stuðningi við allt það sem fram kom í ályktun félagsfundar FF frá því mánudaginn 19. nóvember sl.. Þá lýsa Sundamenn einnig yfir fullum stuðningi við stjórn FF og sendir henni baráttukveðjur í þeirri vinnu sem hún stendur frammi fyrir í tengslum við hugmynd ráðherra um að gefið verði út eitt leyfisbréf til kennara óháð skólastigum.

 

 

ÁLYKTUN KENNARAFÉLAGS TÆKNISKÓLANS
um tillögu um útgáfu eins leyfisbréfs fyrir öll skólastig

 

Stjórn Kennarafélags Tækniskólans mótmælir harðlega þeirri tillögu að gefið verði út eitt leyfisbréf fyrir öll skólastig. Með þessum hugmyndum er vegið að sérþekkingu kennara og sérhæfingu á hverju skólastigi og er slíkt síst til þess fallið að efla skólastarfið. Hagsmunir nemenda á framhaldsskólastigi eru fyrir borð bornir með þessari tillögu þar sem ætla má að nái hún fram að ganga slakni á kröfum um sérmenntun kennara fyrir skólastigið.

Kennarafélag Tækniskólans telur því að hér sé um aðför að faglegri sérþekkingu að ræða og að hagsmunir nemenda séu hér ekki hafðir að leiðarljósi. Stjórn félagsins mælist til þess að efni kennaramenntunarlaga um heilmild kennara til að kenna í samræmi við menntun sína á aðliggjandi skólastigi komist í framkvæmd sem fyrst.
 

Fyrir hönd kennarafélags Tækniskólans,
Hlöðver Eggertsson formaður

 

 

Pistlar

 


Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara
EITT LEYFISBRÉF AFTURFÖR TIL FORTÍÐAR

Greinin birtist á Vísi 13. desember 2018

Það var ekkert út í loftið sem lögum nr. 87 frá 2008 var breytt á sínum tíma en þau fjalla um menntun kennara í leik-, grunn- og framhaldsskólum. Með lögunum voru sett skýr gæðaviðmið um menntun kennara á öllum skólastigum, námið lengt í fimm ár og inntak námsins skilgreint sérstaklega.

Hvað framhaldsskólann varðar þá varð útgáfa leyfisbréfa bundin við tiltekna faggrein og leyfi til kennslu í framhaldsskóla því bundið við tilteknar kennslugreinar. Lögin voru mikið framfaraskref frá eldra kerfi sem skilgreindi ekki þá nauðsynlegu sérhæfingu sem framhaldsskólakennarar þurfa að hafa. 

Innan framhaldsskólans eru kenndar á annað hundrað mismunandi greina. Bóklegar greinar í hug- og raunvísindum sem og iðn-, list- og verkgreinar. Það segir sig sjálft að í framhaldsskólanum er sérhæfing námsins orðin það mikil að megin áhersla í námi framhaldsskólakennara er fagmenntunin. 

Lögunum frá 2008 var einmitt ætlað að ramma inn þá augljósu staðreynd.

Hugmyndir um eitt leyfisbréf til kennslu á skólastigunum þremur ganga því gegn núverandi lögum um menntun og ráðningu kennara og yrðu þær hugmyndir að veruleika yrði stigið stórt skref aftur á bak í menntun kennara og langt aftur fyrir árið 2008.
Félag framhaldsskólakennara hefur ályktað gegn útgáfu eins leyfisbréfs og telur það gríðarlega afturför til fortíðar m.a. í ljósi þeirra gæðaviðmiða sem sett voru um menntun framhaldsskólakennara árið 2008.  

Forysta leik-, og grunnskólakennara hefur aftur á móti tekið jákvætt í slíkar hugmyndir. Það má vera að það sé raunhæft að gefa út eitt leyfisbréf til kennslu í leik-, og grunnskóla, það er annarra en mitt að svara því. En hvað framhaldsskólann varðar verður ekki séð með nokkrum hætti réttlætingu á því að hverfa frá útgáfu sérhæfðra leyfisbréfa og um leið draga úr kröfum um lágmarks fagmenntun í hverri kennslugrein.

 

Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambands Íslands
UMRÆÐA UM LEYFISBRÉF

Greinin birtist á Vísi 21. nóvember 2018

Umræðu um skólamál ber að fagna. Uppeldi og menntun næstu kynslóða eru, ásamt umhverfismálum, líklega mikilvægustu mál sem við stöndum frammi fyrir sem þjóð. Upp á síðkastið hefur nokkuð farið fyrir umræðu um leyfisbréf í fjölmiðlum. Sú umræða hefur verið býsna einhliða af nokkrum ástæðum.

Þegar ný lög voru sett um leik-, grunn- og framhaldsskóla árið 2008 var farið í ýmsar grundvallarbreytingar á menntakerfinu okkar. Eins og nýleg skýrsla Evrópumiðstöðvar um skóla án aðgreiningar sýnir þá virðist Íslendingum farast margt betur úr hendi en grundvallar kerfisbreytingar. Á ýmsum sviðum hafa orðið verulegar framfarir í kjölfar lagabreytinganna. Annað hefur gengið brösuglega. Þar mætti nefna ný viðmið um hæfni og tengsl þeirra við námsmat. Þar má líka nefna sveigjanleika á milli skólastiga og þar með útgáfu leyfisbréfa.

Í tíu ár hefur ítrekað verið reynt að taka upp umræðu um leyfisbréf. Í tíu ár hefur það mistekist. Þegar nýr menntamálaráðherra tók við embætti var málið skoðað enn og aftur. Í stað þess að reyna enn einu sinni að taka málið upp á sömu forsendum og hingað til og höfðu engu skilað var skoðuð ný hugmynd: Eitt leyfisbréf óháð skólastigum. Þetta er ný og djörf nálgun og sumum hefur reynst auðvelt að afgreiða hana sem feilpúst án nokkurra vífilengja. Sérstaklega kann hugmyndin að virðast annarleg framhaldsskólakennurum. Nánast allar gerðir leyfisbréfa eru gefnar út á framhaldsskólastigi því þar er hefðin orðin sú að afmarka starfssvið með leyfisbréfi. Á hinum skólastigunum tveimur er þessu öðruvísi farið. Kennari sem sérhæfir sig í lestrarkennslu hefur ekkert annað leyfisbréf en kennari sem sérhæfir sig í sundkennslu eða deildarstjórn ef hann starfar í leik- eða grunnskóla.

Það eru augljós vandkvæði sem fylgja því að auka sveigjanleika og samgang milli svona ólíkra kerfa. Í námi framhaldsskólakennara hefur verið lögð meiri áhersla á fagþekkingu og í grunn- og leikskóla hefur verið lögð meiri áhersla á sterkan uppeldis- og kennslufræðigrunn. Ef grunnskólakennari fer inn í framhaldsskóla, hví skyldu gerðar minni kröfur til fagþekkingar hans en annarra kennara? Ef framhaldsskólakennari fer inn í grunnskóla, hví skyldi hann fá afslátt á uppeldis- og kennslufræði?

Í ljósi þess að fyrri tilraunir til að auka þennan sveigjanleika hafa engu skilað hefur staðið yfir samtal samtaka kennara, háskólasamfélagsins, yfirvalda og sveitarfélaga um hugmyndina um eitt leyfisbréf. Þar hefur verið leitast við að meta hvort slík hugmynd geti yfir höfuð gengið upp og með hvaða hætti væri þá hægt að tryggja faglegar kröfur og sérkenni skólastiga. Þær hugmyndir sem komið hafa fram í þeirri vinnu eru skoðaðar með mjög gagnrýnum hug. Því sem augljóslega gengur ekki upp er kastað af borðinu. Það sem lofar góðu er rýnt betur.

Það má vera að þessi leið reynist ófær, eins og allar aðrar leiðir sem hingað til hafa verið reyndar, en það liggur fyrir að eitt markmið laganna frá 2008 var að auka sveigjanleikann. Það er enda margt sem mælir með honum. Það er hins vegar alls ekki auðvelt að koma honum á. Ég geri ráð fyrir að leikskólakennaranum þyki augljóst að í neðri bekkjum grunnskóla þurfi að auka vægi leiks sem kennsluaðferðar. Ég geri ráð fyrir að grunnskólakennarinn telji að í framhaldsskólann vanti aukna áherslu á uppeldis- og kennslufræði. Ég geri líka ráð fyrir því að framhaldsskólakennarinn telji að í efri bekki grunnskóla vanti meiri faggreinaþekkingu. Mig grunar líka að allir hefðu þeir rétt fyrir sér.

Mikið hefur farið fyrir þeim sem hafna alfarið hugmyndinni um eitt leyfisbréf og telja hana grafa undan fagmennsku. Það kann að vera rétt. Kannski er ekki hægt að tryggja fagmennsku tryggilega í kerfi eins leyfisbréfs. Það er þá áhyggjuefni langt út fyrir þessa umræðu því allt skyldunám í landinu fer fram undir forsendum eins leyfisbréfs.

Minna hefur farið fyrir stuðningi við hugmyndina. Það er líklega vegna þess að hugmyndin er enn á virku umræðustigi. Samtalið fer fram undir forsendum trúnaðar. Hvorki sveitarfélögin né ríkið; né háskólarnir né kennaraforystan hafa heimild til að ræða þau opinberlega nema að mjög takmörkuðu leyti. Ég fékk raunar leyfi annarra hagsmunaaðila til að skrifa þennan pistil og hef gætt þess að ræða hér ekki þær hugmyndir að útfærslum sem til skoðunar eru. Um þær ríkir enn trúnaður. Hann mun ég virða.

Fari svo að samræðan skili endanlegri tillögu fer hún í frekara samráðsferli. Kennarasambandið mun þá hafa forgöngu um að ræða og kynna hugmyndina meðal kennara, háskólarnir ræða þær á víðum grunni í sínu baklandi og stjórnvöldum ber að kynna þær meðal almennings.

Að því loknu tæki hvert aðildarfélag KÍ sjálfstæða afstöðu til málsins og sú afstaða yrði rædd í stjórn KÍ.

Ég hef verið spurður af því af hverju ég hafi ekki lýst því yfir hvaða skoðun ég hafi almennt á hugmyndinni um eitt leyfisbréf úr því umræðan sé farin af stað. Ég hef svarað því á þrennan hátt. Í fyrsta lagi þannig að óábyrgt sé að taka afstöðu til mála út frá ófullkomnum upplýsingum. Sérstaklega ef málin eru flókin. Ég veit enn ekki hvernig útfærslan kæmi til með að líta út. Í öðru hef ég svarað því þannig að kennarasamtökin og aðrir hagsmunaaðilar verði að geta átt vettvang þar sem trúnaður ríki þar til aðilar ákveða annað. Í þriðja lagi hef ég svarað því þannig að aðeins tveir stjórnarmenn í stjórn KÍ séu kosnir í almennri atkvæðagreiðslu og það sé þeirra hlutverk að tryggja að sem flest sjónarmið komist að í umræðunni. Formaður og varaformaður KÍ verða að forðast það að taka t.d. sjálfkrafa afstöðu með hagsmunum stærstu aðildarfélaganna. Í þessu máli er mér t.d. alveg sérstaklega umhugað um stöðu tónlistarkennara sem lengi hafa barist fyrir faglegri viðurkenningu innan skólakerfisins sem og stjórnenda sem líklega myndu leika lykilhlutverk í breyttu kerfi. Þar fyrir utan er mitt hlutverk fyrst og fremst að leita sem flestra sjónarmiða svo umræðan, hvort sem það er inn á við eða út á við, geti verið fagleg og víðsýn.

Það kemur væntanlega í ljós á næstu vikum hvort hugmynd um eitt leyfisbréf er á vetur setjandi. Komi fram fullmótuð tillaga hlakka ég mjög til hinnar faglegu umræðu sem hlýtur að fylgja. Því þótt þetta mál kunni að virka tæknilegt og flókið þá snýst það um grundvallaratriði er lúta að menntun. Og við þurfum meiri menntaumræðu, ekki minni.

 

Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður Félags grunnskólakennara
KENNARASTARFIÐ - STARF Í ÖRRI ÞRÓUN

Greinin birtist á Vísi 22. nóvember 2018

Hugmyndin um að taka upp eitt leyfisbréf kennara fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, kann að virðast róttæk en ef vel er hugað að útfærslu og markmiðum getur hún orðið skref til framfara. Segja má að markmið með upptöku eins leyfisbréfs sé að viðurkenna kennslu- og uppeldisfræði sem grunnþátt í fagmennsku kennara. Í dag er ógreinabundið leyfisbréf í leik- og grunnskóla. Kennarar kenna allar námsgreinar skólastigsins og þeir ásamt stjórnendum eru lykilmenn í að greina hæfni og áhuga hvers og eins til þess að taka að sér kennslu mismunandi námsgreina. Í framhaldsskóla er leyfið aftur á móti bundið einstökum námsgreinum. Við getum öll verið sammála um að það sé grundvallaratriði að kennarastarfið sé viðurkennt sem starf sem hvílir á góðri þekkingu á uppeldis- og kennslufræði, þekkingu á námsefninu sem verið er að kenna og rannsóknarmiðuðu skólastarfi. Í stuttu máli snýst umræðan um eitt leyfisbréf fyrir öll skólastigin í raun um að kennarar mennti sig til kennslu.

Nýjar áskoranir fylgja hverri kynslóð og skólakerfið þarf að vera í stöðugri þróun. Sífellt örari samfélagslegar breytingar kalla á aukna færni kennara til að takast á við breyttar aðstæður. Ef gera á breytingar á leyfisbréfum kennara skiptir miklu máli að þær nái til allra leyfisbréfa, óháð skólastigi. Jafnframt er mikilvægt að gera ekki greinarmun á starfsréttindum fólks eftir prófaldri. Í starfi allra kennara fléttast saman menntun, reynsla og starfsþróun. Þess vegna eru reynslumiklir kennarar órofa hluti af lærdómssamfélaginu. Öflug starfsþróun tryggir að allir kennarar hafi tækifæri til að efla sig í starfi og bæta við þekkingu sína. Bjargir á borð við styrka leiðsögn stjórnenda og vandaða starfsþróun eru gríðarlega mikilvægar svo kennarar geti sinnt starfi sínu af alúð.

Hugmyndin um útgáfu eins leyfisbréfs getur í raun stutt við þá ákvörðun íslenskra stjórnvalda sem hrint var í framkvæmd árið 2008 þegar kennaranámið var lengt úr þremur árum í fimm. Með þeirri breytingu var mikilvægi uppeldis- og kennslufræði undirstrikað, á sama tíma og sérhæfing kennara var styrkt.

Útgáfa eins leyfisbréfs fyrir öll skólastigin þrjú eykur hreyfanleika í íslensku skólakerfi. Hún gæti jafnframt orðið öflugt aðhald fyrir ríki og sveitarfélög sem þurfa að líta til þess að skólastigin þrjú eru býsna ólík þegar kemur að ytri umgjörð, kjörum, vinnutíma og aðbúnaði. En fyrst og síðast er það verkefni þeirra sem að menntun koma að taka höndum saman um að auka nýliðun í stétt kennara. Breyting á útgáfu leyfisbréfa, eða önnur uppstokkun í menntakerfinu, mun aldrei skila tilætluðum árangri án róttækra aðgerða til að bregðast við viðvarandi og auknum kennaraskorti, sérstaklega á leik- og grunnskólastigi. Eigi aðgerðirnar að skila árangri verður að auka aðsókn í kennaranám, styðja betur við nýútskrifaða kennara og huga að því á öllum skólastigum að kennarastarfið verði eftirsóknarvert, skapandi, sveigjanlegt og njóti sannmælis. Það er stóra verkefnið sem blasir við. Við kennarar náum ekki árangri nema við snúum bökum saman.

Ef útfærslan um eitt leyfisbréf þvert á skólastig tekst vel, verður stigið gæfuspor í íslenskri menntasögu. Spor sem undirstrikar mikilvægi ábyrgðar okkar allra á því að íslenskir skólar verði öflugar stofnanir, skipaðar sterku fagfólki sem býr yfir færni til að mæta þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir í dag og í til framtíðar.

 

 

 

Tengt efni