is / en / dk

17. Desember 2019

Kennarasamband Íslands styrkir Sálfélagslega þjónustu Heilbrigðisstofnunar Norðurlands um 350 þúsund krónur. Styrkurinn er ætlaður til kaupa á búnaði til sálfræðimeðferðar barna og unglinga á Norðurlandi. Kennarasambandið hefur ekki sent jólakort um langt árabil en þess í stað látið fé af hendi rakna til stofnana, samtaka og félagasamtaka sem vinna að velferð barna og ungmenna. 

Guðjón Hreinn Hauksson, formaður Félags framhaldsskólakennara, og Hjördís Albertsdóttir, varaformaður Félags grunnskólakennara, heimsóttu deildina á HSN þar sem Pétur Maack Þorsteinsson, yfirsálfræðingur HSN, ásamt samstarfsfólki tók vel á móti þeim. Pétur kynnti starfsemina fyrir þeim Guðjóni og Hjördísi.

Á heilsugæslustöðvum HSN stendur sálfræðiþjónusta börnum og unglingum að 18 ára aldri til boða þeim að kostnaðarlausu. Miðað er við að sálfræðingar HSN sinni meðferð við vægum tilfinninga- og lyndisröskunum auk ráðgjafar við foreldra og heilbrigðisstarfsfólk. Þá er samstarf við félagsþjónustu, barnavernd og skólaþjónustu vaxandi hluti af starfsemi sálfræðinga HSN.

Það er von Kennarasambandsins að styrkurinn komi sér vel í þessari mikilvægu starfsemi.

Kennarasambandið hefur áður veitt jólakortastuðning til Umhyggju, Barnaspítala Hringsins, Þroskahjálpar, Unglingadeildar SÁÁ, Krabbameinsfélagsins, Hjálparstarfs kirkjunnar, Barnaheilla – Save the Children og BUGL.
 

Tengt efni