is / en / dk

03. Desember 2019

Lesskilningur barna er mun lakari hér á landi en á hinum Norðurlöndunum og töluvert undir meðaltali OECD-ríkja. Lesskilningur og læsi á stærðfræði og náttúrufræði hefur lítið breyst frá síðustu PISA-könnun fyrir þremur árum. Þriðjungur drengja mælist ekki með grunnhæfni í lesskilningi og í heildina nær fjórðungur nemenda ekki viðmiðum. Þetta er meðal atriða sem er að finna í niðurstöðum nýrrar PISA-könnunar OECD (Efnahags- og framfarastofnunarinnar) sem voru kynntar á blaðamannfundi í menntamálaráðuneytinu í morgun. 

Könnunin var lögð fyrir 15 ára nemendur á Íslandi vorið 2018. Hérlendis tóku 87% allra 15 ára nemenda þátt í prófinu. PISA er alþjóðlegt könnunarpróf sem er lagt fyrir nemendur í 79 löndum á þriggja ára fresti. Kannaður er lesskilningur og læsi á stærðfræði og náttúruvísindi en ein greinanna er áherslugrein í hvert sinn. Að þessu sinni var sérstök áhersla lögð á lesskilning. 

Á vef Menntamálastofnunar er hægt að kynna sér niðurstöðurnar en stofnunin hefur tekið saman helstu niðurstöður – sem eru þessar:

 • Frammistaða íslenskra nemenda í lesskilningi í heild hefur ekki breyst marktækt frá síðustu könnun PISA árið 2015 en þó hefur nemendum sem ekki ná grunnhæfniviðmiðum lesskilnings fjölgað hlutfallslega. Þeir telja nú 26% þátttakenda í heild, 34% drengja en 19% stúlkna. Frammistöðu hefur hrakað marktækt í samanburði við árið 2009 þegar lesskilningur var síðast aðalsvið PISA-könnunarinnar. Samantekið er frammistaða í lesskilningi á Íslandi mun lakari en á öðrum Norðurlöndum og áfram nokkuð undir meðaltalinu í löndum OECD.
   
 • Íslenskir nemendur stóðu sig í heild marktækt betur í læsi á stærðfræði en í síðustu könnun PISA og eru rétt yfir meðaltalinu í löndum OECD. Þá náðu hlutfallslega fleiri stúlkur grunnhæfniviðmiðum PISA í læsi á stærðfræði en í síðustu könnun.
   
 • Frammistaða íslenskra nemenda í læsi á náttúruvísindi er óbreytt frá því í síðustu könnun. Íslenskir nemendur standa áfram verr að vígi á þessu sviði en jafnaldrar þeirra á Norðurlöndunum og að meðaltali í löndum OECD.

 

Aukin áhersla á orðaforða og starfsþróun kennara

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, ávarpaði blaðamannafundinn í morgun og hóf mál sitt á að segja að öflugt menntakerfi væri forsenda framfara og byggja yrði á þeirri hugmynd að allir gætu lært, allir skiptu máli. „Við tökum þessar niðurstöður mjög alvarlega og höfum að undanförnu átt í góðu samtali við kennaraforystuna, Samband íslenskra sveitarfélaga, Menntamálastofnun, atvinnulífið og Heimili og skóla. Við þurfum öll að taka þátt í þessu," sagði Lilja.

Meðal aðgerða og úrbóta sem ráðherra boðaði má nefna; fjölgun kennslustunda í íslensku, stóraukna áherslu á orðaforða í öllum námsgreinum og notkun flóknari námsorðaforða.

Þá sagði Lilja mikilvægt að líta til annarra landa og sjá hvað hefði gengið vel. Hún tók sem dæmi markvissa starfsþróun kennara til að bæta árangur í læsi á öllum námsstigum. Þetta gerðu Svíar eftir að hafa verið ósáttir við niðurstöður í PISA árin 2012 og 2015. Þá tók hún dæmi frá Eistlandi en þar var kennaranám endurskipulagt með aukinni áherslu á nemendamiðaðar kennsluaðferðir.

Lilja sagði starfsþróun kennara vera lykil að því að árangur næðist – ásamt því að gera úttekt á innleiðingu og eftirfylgni aðalnámskrár. 

Meðal aðgerða sem menntamálaráðherra boðaði á fundinum:

 • Efla starfsþróun kennara: Sérsniðin námskeið sem auka hæfni og miðla árangursríkum kennsluaðferðum sem taka mið af fjölbreyttum nemendahópum.
 • Fjölga kennurum með sérhæfða þekkingu.
 • Endurskoða námsefni og fyrirkomulag námsefnisgerðar.
 • Stórauka áherslu á orðaforða í öllum námsgreinum.
 • Fjölga kennslustundum í íslensku og endurskoða inntak íslenskukennslu.
 • Stofna fagráð í læsi, stærðfræði og náttúruvísindum sem heyra beint undir ráðherra.
 • Efla menntarannsóknir.
 • Auka væntingar til nemenda.
 • Auka samstarf allra hagsmunaaðila.

 

Skýrsla Menntamálastofnunar um niðurstöður í PISA

Frétt á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins

mbl.is: Staða íslenskra drengja enn verri en áður 

 

 

 

 

 

 

Tengt efni