is / en / dk

31. október 2019

Staða mála á samningasviðinu verður kynnt á ársfundi Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum sem haldinn verður laugardaginn 16. nóvember nk. í salnum Esju á Hótel Sögu. Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa verður einnig fjarnámskeið LHÍ fyrir starfandi kennara kynnt. 

Síðari hluti fundarins verður umræðufundur um stóru málin. Þar mun Sigrún Grendal, formaður FT, fara yfir vinnu félagsins sem tengist endurskoðun aðalnámskrár og lagaramma tónlistarskóla. Hér eru á ferð mjög mikilvæg mál og því eru félagsmenn hvattir til að mæta og taka þátt í umræðum.

 

Nánar um ársfundinn og dagskrá:

Ársfundur Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum verður haldinn laugardaginn 16. nóvember nk. milli kl. 11:00-15:00 í salnum Esju á Hótel Sögu, Hagatorgi, 107 Reykjavík.

Félagsmenn eru hvattir til að mæta, kynna sér félagsstarfið og taka þátt í umræðum um málefni stéttarinnar. Tilkynna þarf þátttöku fyrir 13. nóvember á netfangið: sigrun@ki.is – eða í síma: 595-1111.

Dagskrá

Kl. 11:00 Setning ársfundar
Hefðbundin ársfundarstörf:

Umfjöllun um starfsemi félagsins og starfið framundan
Sigrún Grendal, formaður Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum
Reikningar lagðir fram til kynningar
Hannes K. Þorsteinsson, skrifstofustjóri Kennarasambands Íslands

Kl. 11:40 
Sérstök umfjöllunarefni:

Staða mála á samningasviðinu
Oddur S. Jakobsson, hagfræðingur Kennarasambands Íslands

Fjarnámskeið LHÍ fyrir starfandi kennara – vorönn 2020
Kynning á fjarnámskeiði LHÍ fyrir starfandi tónlistarkennara sem fer af stað á vorönn 2020. Námskeiðið er hluti af námsleið sem tónlistardeildin er að þróa og ætlað er að mæta menntunarþörf þeirra tónlistarkennara sem hafa mikla reynslu og færni af vettvangi en skortir formlega kennslufræðilega menntun. Námskeiðið er ætlað öllum þeim sem vilja efla sig í starfi og/eða bæta við sig kennslufræði tónlistar.
Elín Anna Ísaksdóttir, fagstjóri og verkefnastjóri í tónlistardeild LHÍ 

Kl. 12:35 Hádegishlé – léttar veitingar í boði 

Kl. 13:00 
Umræðufundur um stóru málin:

Umgjörð og inntak
Sigrún Grendal, formaður FT, leiðir inn í umræðufund um endurskoðun aðalnámskrár og lagaramma tónlistarskóla með yfirliti yfir þá vinnu félagsins undanfarin ár sem tengist þessum mikilvægu málum, s.s:
- Greinargerð FT vegna lagaendurskoðunar 2004 / drög að frumvarpi til laga um tónlistarskóla 2013.
- Hópavinna/umræður frá svæðisþingum tónlistarskóla í gegnum árin.
- Tónlist er fyrir alla – stefna FT frá 2013.
- Hlutverk tónlistarskóla í skóla framtíðar – málstofa FT haldin í samstarfi við Listaháskóla Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga í janúar 2014.
- Sviðsmyndir um mögulega stöðu tónlistarnáms á Íslandi árið 2030 – skýrsla frá vinnufundi sem FT stóð fyrir í febrúar 2015.
- „Gæðamenntun fyrir alla“ – umræðufundir á vegum menntamálaráðuneytisins á svæðisþingum tónlistarskóla 2019.

Önnur mál

Kl. 15:00 Ársfundarlok
 

Tengt efni