is / en / dk

02. október 2019

Ungir kennarar – framtíð kennarastarfsins er yfirskrift Alþjóðadags kennara um heim allan. Þessi yfirskrift á vel við og því var ákveðið að helga Skólamálaþing KÍ 2019 umræðu um framtíð kennarastéttarinnar. 

Alþjóðadagur kennara, eða kennaradagurinn, er jafnan haldinn hátíðlegur 5. október ár hvert. Stofnað var til kennaradagsins að frumkvæði UNESCO og Alþjóðasamtaka kennara (Education International) árið 1994, eða fyrir aldarfjórðungi. Markmið kennaradagsins hefur frá fyrstu tíð verið að vekja athygli á því mikilvæga starfi sem kennarar gegna í heiminum – en um leið er dagurinn kjörinn til að efla samtakamátt kennara og huga vel að hvernig menntun barna og ungmenna verður best háttað í framtíðinni. 


Skólamálaþing KÍ – árlegur viðburður með fjölbreyttri og áhugaverðri dagskrá

Kennarasambandið hefur um árbil efnt til Skólamálaþings í tengslum við kennaradaginn. Að þessu sinni fer Skólamálaþing fram fimmtudaginn 3. október – í Veröld Vigdísar – og stendur dagskrá frá 15 til 17. 

Dagskráin er sem hér segir: 

  • 15:00    Setning, Anna María Gunnarsdóttir, varaformaður KÍ
  • 15:10    Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra
  • 15:20    Huginn Freyr Þorsteinsson heimspekingur, Framtíð kennarastarfsins og fjórða iðnbyltingin
  • 15:40    Sólveig María Árnadóttir, formaður Stúdentafélags Háskólans á Akureyri
  • 15:50    Júlíana Tyrfingsdóttir, leikskólastjóri
  • 16:00    Hákon Sæberg, grunnskólakennari
  • 16:10    Hildur María Arnalds, nemandi í Kvennaskólanum, Raddir nemenda
  • 16:20    Jóhann Ingi Benediktsson, tónlistarskólakennari
  • 16:30    Auður Jónsdóttir rithöfundur, Kennarar sem kenndu mér drauma
  • 16:45    Ragnar Þór Pétursson, formaður KÍ

Léttar veitingar í boði á undan. 

Við hvetjum kennara, skólastjórnendur og starfsfólk skólanna til að fjölmenna á þingið. Aðgangur er ókeypis. Skráið ykkur hér. 

Þeir sem eiga ekki heimangengt á morgun geta fylgst með Skólamálaþingi í streymi. Streymislóð. 

 

 

Tengt efni