is / en / dk

04. október 2019

Úrslit í Smásagnasamkeppni KÍ voru gerð kunn við hátíðlega athöfn í Bókasafni Kópavogs fyrr í dag.

Smásagnasamkeppnin var nú haldin í fimmta sinn og er tilefnið Alþjóðadagur kennara, eða kennaradagurinn, sem haldinn er hátíðlegur um heim allan 5. október ár hvert. Markmið kennaradagsins er að velja athygli á faglegu starfi kennara og fjölbreyttu skólastarfi. 

Um tvö hundruð smásögur bárust þetta árið en þátttaka hefur frá upphafi verið mjög góð. Keppnisflokkarnir eru fimm og skiptast svona; leikskólinn, grunnskólinn 1. til 4. bekkur, grunnskólinn 5. til 7. bekkur, grunnskólinn 8. til 10. bekkur og framhaldsskólinn. Verðlaunahafar fengu viðurkenningarskjal, blómvönd og Lenovo-spjaldtölvu. 

Dómnefnd skipuðu Þórdís Gísladóttir rithöfundur, Kristján Jóhann Jónsson, fyrrum dósent á Menntavísindasviði HÍ, og Bryndís Jónsdóttir, frá Heimili og skóla. Þórdís sagði í ávarpi sínu að það hefði verið sérlega ánægjulegt að lesa smásögurnar og dómnefnd hafi verið nokkur vandi á höndum við að velja þær bestu úr svo mörgum góðum.

Verðlaunasögurnar verða prentaðar í Skólavörðunni sem kemur út síðar í haust. 

 

Sigurvegarar í Smásagnasamkeppni KÍ 2019 eru þessir: 

Leikskólinn

  • Þóroddur Óskarsson, Júlíanna Líf Helgadóttir og Kristófer Daði Stefánsson, leikskólanum Lyngholti á Reyðarfirði, fyrir smásöguna Sóley og ofurhetjan. 

Umsögn dómnefndar: Sóley og ofurhetjan er saga um sterkustu konu á Íslandi. Í aðeins örfáum línum tekst höfundinum að vísa í Línu langsokk, gamalt ævintýri og sögur af ofurhetjum nútímans og í sameiningu bjarga persónurnar allri plánetunni, sem er auðvitað mikilvægasta verkefnið sem jarðarbúar dagsins í dag standa frammi fyrir. Þetta er virkilega hressandi örsaga!
 

Grunnskólinn 1. til 4. bekkur 

  • Hrafnhildur Sara Hauksdóttir, 3. bekk Varmárskóla, fyrir söguna Einhyrningur í skólanum.

Umsögn dómnefndar: Í sögunni „Einhyrningur í skólanum“ tengir höfundur saman á stórskemmtilegan hátt skáldskap og veruleika, nútímaævintýri og töfraraunsæi íslenskra þjóðsagna. Þríeykið Bína, Lára og Sara minna á Ásu, Signýju og Helgu í sígildri íslenskri þjóðsögu sem til er í ýmsum tilbrigðum. Einhyrningurinn er fulltrúi fjarlægrar menningar en heitir Jón, sem er nafn með sterkar rætur í íslenskri menningu og sagnaveruleika. Jón þarf aðstoð við að opna tímagátt og komast heim eins og vera ber í vísinda- og framtíðarævintýri. Það er leyst með galdraformúlu sem tengist hlutveruleikanum í kringum okkur en er með skýrri þjóðsagnafyrirmynd. Ekki má heldur gleyma því að þær eru með einhyrninginn Jón í skjóðu sinni!
 

Grunnskólinn 5. til 7. bekkur

  • Árni Matthías Sigurðsson, 6. bekk Hraunvallaskóla, fyrir söguna Fúluhlíðarskóli.

Umsögn dómnefndar: Í sögunni um „Fúluhlíðarskóla“ er greint frá skóla þar sem víða er pottur brotinn. Málfrelsi er mikilvægt og nemendur á öllum skólastigum eiga að læra að þau mega segja það sem þeim sýnist og finnst þörf á að ræða. Kennarar og aðrir skólastarfsmenn verða að sýna næga einurð til þess að hlusta vel og svara skynsamlega. Í þessari sögu er fast kveðið að orði um ýmislegt sem er ábótavant í því samfélagi sem lýst er.

Grunnskólinn 8. til 10. bekkur

  • Eybjört Ísól Torfadóttir, 8. bekk Breiðholtsskóla, fyrir söguna Skólamótið.

Umsögn dómnefndar: Sagan „Skólamótið“ fjallar um jafnrétti og það hvernig rétt er að bregðast við misrétti. Jafnréttismál eru mikilvæg fyrir okkur öll. Sá höfundur sem hér skrifar veit að í baráttunni gegn misrétti, staðalímyndum og fordómum gildir að ræða málin af skynsemi, verja réttlætiskenndina og sýna hvað í manni býr. Fótboltinn er íþrótt sem sannarlega er í sviðsljósinu og hentugur vettvangur til þess að takast á um hugmyndir. Sagan er vel skrifuð, prýðileg máltilfinning og sterkur orðaforði og höfundurinn á örugglega eftir að láta til sín taka.
 

Framhaldsskólinn

  • Máni Hrafn Stefánsson, Tækniskólanum, fyrir söguna Bragi sagði. 

Umsögn dómnefndar: Sagan „Bragi sagði“ tekur skemmtilega á því hvað það er að verða fullorðinn og hvenær það gerist. Það er þegar þú tekur ábyrgð á gerðum þínum, - og þinna. Í því efni sitja allir við sama borð, bæði nemendur, foreldrar og kennarar. Skemmtileg stílbrella að láta feðurna heita sömu nöfnum og mæðurnar heita bara: Móðir Ingibjargar og Móðir Braga. Svo heitir sagan „Bragi sagði“ en fjallar eiginlega um það sem Bragi sagði ekki! Allar persónur sögunnar vilja hafa rétt fyrir sér en hin mikilvæga ábending höfundar til okkar er að fyrst á að hugsa um það hvort við förum rétt með og segjum satt. Svo getum við sagt að við höfum rétt fyrir okkur.

 

Myndir frá verðlaunaafhendingunni.

 

 

Tengt efni