is / en / dk

03. September 2019

Svæðisþing tónlistarskóla hefjast í næstu viku en þingin fara, venju samkvæmt, fram á sex stöðum á landinu. Svæðisþing tónlistarskóla eru samstarfsverkefni Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum (FT) og Samtaka tónlistarskóla og er þetta sautjánda skiptið sem þau eru haldin. Þingað verður á Ísafirði, Egilsstöðum, Borgarnesi, Eyrarbakka, Akureyri og í Reykjavík. 

Yfirskriftin í ár er: Gæðamenntun fyrir alla! 

Dagskráin er sem fyrr fjölbreytt og áhugaverð. Svæðisþingin hefjast á umræðu um róttækar breytingar á aðalnámskrá tónlistarskóla í Finnlandi og varpað verður fram spurningunni: Hvernig viljum við sjá tónlistarskóla hér á landi þróast? Sigrún Grendal, formaður FT, leiðir þennan dagskrárlið. 

Charles Ross, tónlistarkennari við Tónlistarskólann á Egilsstöðum, stýrir smiðju í tengslum við nýútkomið námsefni, Villitíð, þar sem unnið er með hinn skapandi þátt í tónlistarnámi. 

Eftir hádegi fjalla sérfræðingar mennta- og menningarmálaráðuneytis um menntun fyrir alla og mótun Menntastefnu til 2030. Þá verða flutt erindi um þýðingu „menntunar fyrir alla“ og um hlutverk Listaháskóla Íslands og listarinnar. Raddir kennara munu einnig heyrast en gert er ráð fyrir tveimur innleggjum frá annars vegar kennara/stjórnanda í tónlistarskóla og hins vegar listgreinakennara. Þá verður farið í hópavinnu þar sem hlutur listgreina í nýrri menntastefnu verður skoðaður. 

Tónlistarkennarar, listgreinakennarar og aðrir áhugasamir eru hvattir til að kynna sér dagskrána á sínu svæði. Svæðisþing tónlistarskóla eru öllum opin.
 

 

Nánar um Svæðisþing 2019 og eldri svæðisþing. 

 

 

 

 

Tengt efni