is / en / dk

26. Ágúst 2019

„Til að jafnréttissjónarmið verði eðlilegur hluti af skólastarfi og lífi nemenda þurfa kennararnir sjálfir að fá kennslu í kynja- og jafnréttisfræði.“ Þetta er meðal þess sem kemur fram í bréfi jafnréttisnefndar KÍ til rektora og stjórnenda Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri, Háskólans í Reykjavík og Listaháskóla Íslands. 

Jafnréttisnefnd fer fram á að kynjafræði verði skyldufag í kennaranámi. Þannig öðlist allir kennarar jafnréttisnæmi og geti stuðlað að markvissri jafnréttismenntun. Nefndin leggur áherslu á að jafnréttisnám bara og ungmenna sé mikilvægt alla skólagönguna. „Til að jafnréttissjónarmið verði eðlilegur hluti af skólastarfi og lífi nemenda þurfa kennararnir sjálfir að fá kennslu í kynja- og jafnréttisfræði. Því vill jafnréttisnefnd KÍ hvetja enn á ný íslenska háskóla til að finna leiðir til að tryggja verðandi og núverandi kennurum kynja- og jafnréttisfræðikennslu," segir meðal annars í bréfi jafnréttisnefndar. 

Þá er í bréfi jafnréttisnefndar fjallað um þau straumhvörf sem Metoo-hreyfingin hefur valdið og því að komandi kynslóðir muni kalla eftir breytingum. Þá sé það kennaranna að bregðast við, miðla þekkingu og móta hugmyndir. „Ef allir nemendur á öllum skólastigum, frá leikskóla upp í háskóla, fengju grunnkennslu í kynjafræði má ætla að kynbundin viðhorf í samfélaginu myndu breytast til lengri og skemmri tíma – bæði einstaklingum og samfélaginu öllu til frelsis og farsældar," segir jafnréttisnefnd í lok bréfsins. 

Bréf jafnréttisnefndar KÍ til stjórnenda háskóla. 

 

Tengt efni