is / en / dk

12. Júní 2019

Þingsályktunartillaga um að efla íslensku sem opinbert mál hér á landi hefur verið samþykkt á Alþingi. Í tillögunni er fjallað um alls 22 aðgerðir sem því tengjast en meginmarkmið þeirra eru að íslenska verði notuð á öllum sviðum samfélagsins, að íslenskukennsla verði efld á öllum skólastigum ásamt menntun og starfsþróun kennara og að framtíð íslenskrar tungu í stafrænum heimi verði tryggð.

Þingsályktunin hefur mörg og mikilvæg tengsl við skólastarf og má búast við að það hafi áhrif á skólastarf á öllum skólastigum. Má þar nefna áherslu á mikilvægi læsis og stuðning við þá sem hafa íslensku sem annað mál, en skipaður hefur verið verkefnahópur sem marka á heildarstefnu í málefnum nemenda með annað móðurmál en íslensku og þar á KÍ fulltrúa. Þá má nefna að efla á starfsemi skólabókasafna, auka vægi íslensku í almennu kennaranámi, styðja við starfsþróun kennara og auk þess er að finna mikilvæga staðfestingu á því að kennsla á 1. - 6. þrepi hæfniramma skal fara fram á íslensku.

Á vef stjórnarráðsins segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra: „Okkur þykir vænt um tungumálið og við erum stolt af því. Við ætlum að tryggja framtíð íslenskrar tungu í stafrænum heimi. Þetta er samvinnuverkefni og við þurfum sem þjóð að leggjast öll á árar. Þetta verkefni er ekki átak heldur viðvarandi áskorun, verkefni sem við berum öll ábyrgð á: stjórnvöld, atvinnulíf og fólkið sem byggir þetta land. Þingsályktunartillagan rammar inn þær aðgerðir sem mikilvægast er að ráðast í.“

Síðasta haust hratt Kennarasamband Íslands af stað vitundarvakningu um mikilvægi íslensks máls. Viljayfirlýsing þess efnis var undirrituð á Skólamálaþingi KÍ í tengslum við Alþjóðadag kennara og undir hana rituðu Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Anna María Gunnarsdóttir, varaformaður KÍ, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga og Sigrún Edda Eðvarðsdóttir, formaður Heimilis og skóla. Með viljayfirlýsingunni staðfestu ofangreindir aðilar vilja til að stuðla að virkri notkun íslenskunnar og vinna saman að jákvæðari viðhorfum barna og unglinga til íslenskrar tungu. 

Nú þegar hafa þessir aðilar komið að mörgum verkefnum er efla íslenska tungu. Má þar nefna að eitt af áherslusviðum Sprotasjóðs árin 2019-2020 var efling íslenskrar tungu. Eins var eitt af forgangsatriðum Þróunarsjóðs námsgagna fyrir árið 2019 námsefni fyrir íslensku, íslensku sem annað tungumál og íslenskt táknmál. Þá stóð KÍ fyrir smásagnasamkeppni, ritlistarkeppni leikskólabarna auk annars.


Tillaga til þingsályktunar um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi.

Íslenska er stórmál - frétt um vitundarvakningu KÍ.

 


 

Tengt efni