is / en / dk

11. Mars 2019

Frestur til senda inn umsögn vegna frumvarps til laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla er liðinn. Alls barst 71 umsögn í samráðsgátt stjórnvalda en hægt var að skila inn athugasemdum til miðnættis á föstudag. 

Helstu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru að gefið verður út eitt leyfisbréf til kennslu í leik-, grunn- og framhaldsskólum. Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að lögfest verði „í fyrsta sinn ákvæði um hæfni, annars vegar almenna hæfni og hins vegar sértæka hæfni sem kennarar og skólastjórnendur þurfa að búa yfir tli að uppfylla markmið frumvarpsins," eins og segir orðrétt í greinargerð með frumvarpinu. 

Kennarasamband Íslands skilaði umsögn um frumvarpið á föstudag. Félag grunnskólakennara og Skólastjórafélag Íslands skiluðu sameiginlegri umsögn 25. febrúar síðastliðinn. Félag leikskólakennara, Félag stjórnenda leikskóla og Félag kennara og stjórnenda í tónlistarskólum hafa sömuleiðis skilað umsögn. Fjöldi kennara á öllum skólastigum, fagfélög og stofnanir hafa sent inn álit. 

Hægt er að kynna sér umsagnir um frumvarpið á samráðsgátt stjórnvalda en næstu daga og vikur verður unnið úr þeim athugasemdum sem bárust. Niðurstöður samráðsins verða síðan kynntar áður en frumvarpið fær þinglega meðferð. 

 

 

Tengt efni