is / en / dk

16. október 2018

Aðgerðarleysi menntayfirvalda í málefnum tónlistarskóla er farið að standa eðlilegri þróun skólastarfs fyrir þrifum. Koma þarf forgangsmálum tónlistarskóla í farveg innan menntamálaráðuneytisins. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ályktun sem samþykkt var á sex svæðisþingum tónlistarskóla sem fóru fram nýverið.

Forgangsmál í kerfi tónlistarskólanna eru eftirfarandi:

 • endurskoðun á frumvarpi til nýrra laga um tónlistarskóla,
 • nefnd um mat á menntun og prófgráðum kennara og stjórnenda í tónlistarskólum,
 • lögverndun starfsheitis tónlistarskólakennara,
 • endurskoðun aðalnámskrár tónlistarskóla og
 • sérfræðingur á sviði tónlistar/lista hjá ráðuneytinu.

Þessi mál skipta öll sköpum fyrir faglega og rekstrarlega umgjörð tónlistarskóla. „Framangreind forgangsmál hafa verið á dagskrá Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum um árabil og eru nauðsynlegar umbætur fyrir löngu orðnar aðkallandi. Aðgerðaleysi í málaflokknum er farið að standa eðlilegri þróun fyrir þrifum,“ segir orðrétt í ályktuninni.

Enn fremur ályktuðu svæðisþingin um að tónlistarskólarnir fái aðgengi að Sprotasjóði líkt og aðrar skólagerðir í Kennarasambandi Íslands. Með því yrði stutt við við þróun og nýjungar í skólastarfi tónlistarskóla og þróunarstarf í samstarfi við aðrar skólagerðir. Forsendur hafa lengi legið til framkvæmdarinnar og er ráðherra hvattur til að taka málið í sínar hendur og klára það.

Svæðisþingin eru samstarfsverkefni Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum og Samtaka tónlistarskólastjóra. Þau eru haldin árlega á Vestfjörðum, Vesturlandi, Austurlandi, Norðurlandi, Suðurlandi og Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu.

 

Ályktun um forgangsmál í kerfi tónlistarskóla
Eftirfarandi var samþykkt á sex svæðisþingum tónlistarskóla sem fram fóru í september og októbermánuði 2018.
Koma þarf forgangsmálum tónlistarskóla í farveg innan ráðuneytisins
Svæðisþing tónlistarskóla 2018 ítreka ályktun fyrra árs og skora á mennta- og menningarmálaráðherra að koma eftirfarandi forgangsmálum í kerfi tónlistarskóla á Íslandi í vinnufarveg innan ráðuneytisins hið fyrsta. Þessi forgangsmál eru:

 • endurskoðun á frumvarpi til nýrra laga um tónlistarskóla,
 • nefnd um mat á menntun og prófgráðum kennara og stjórnenda í tónlistarskólum,
 • lögverndun starfsheitis tónlistarskólakennara,
 • endurskoðun aðalnámskrár tónlistarskóla og
 • sérfræðingur á sviði tónlistar/lista hjá ráðuneytinu.

Þau skipta öll sköpum fyrir faglega og rekstrarlega umgjörð í tónlistarskólakerfinu. Framangreind forgangsmál hafa verið á dagskrá Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum um árabil og eru nauðsynlegar umbætur fyrir löngu orðnar aðkallandi. Aðgerðaleysi í málaflokknum er farið að standa eðlilegri þróun fyrir þrifum.
Kennarar og stjórnendur í tónlistarskólum deila þeirri sannfæringu sem birtist í niðurstöðum annarrar heimsráðstefnu UNESCO um listfræðslu (Seoul, 2010) um að listfræðsla hafi mikilvægu hlutverki að gegna í uppbyggilegri umbreytingu menntakerfa á 21. öld. Tónlistarskólarnir vilja vera virkir þátttakendur í þróun samfélagsins á sviði menntunar, menningar og lista.
Svæðisþingin skora því á mennta- og menningarmálaráðherra að styrkja bæði faglegan og rekstrarlegan grundvöll tónlistarskóla til að rækja víðtækt hlutverk sitt á sviði menntunar, lista, menningar- og samfélagsmála.

Svæðisþing tónlistarskóla haustið 2018 fóru fram skv. eftirfarandi:

 • Vestfjörðum, Hótel Ísafirði 7. september 2018
 • Vesturlandi, Fosshótel Stykkishólmi 12. september 2018
 • Austurlandi, Safnaðarheimili Norðfjarðarkirkju Neskaupstað 14. september 2018
 • Norðurlandi, Sigló Hótel Siglufirði 21. september 2018
 • Höfuðborgarsvæðinu, Grand Hótel Reykjavík 28. september 2018
 • Suðurlandi og Suðurnesjum, Íþróttaakademíunni Reykjanesbæ 4. október 2018

Ályktunin í PDF

 

Tónlistarskólar fái aðgengi að Sprotasjóði líkt og aðrar skólagerðir í Kennarasambandi Íslands
Svæðisþing tónlistarskóla 2018 skora á mennta- og menningarmálaráðherra að veita tónlistarskólum aðgengi að Sprotasjóði og styðja þannig við þróun og nýjungar í skólastarfi tónlistarskóla og þróunarstarf í samstarfi við aðrar skólagerðir.
Forsendur hafa lengi legið til framkvæmdarinnar og er ráðherra hvattur til að taka málið í sínar hendur og klára það. Tímalínan er sem hér segir:

Árið 2013: Í frumvarpstillögu nefndar um endurskoðun laga um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla, nr. 75/1985, sem fór í opið samráðsferli í janúar 2013, var m.a. gert ráð fyrir því að tónlistarskólar ættu rétt á framlögum úr sameiginlegum sprotasjóði skóla, ásamt leik-, grunn- og framhaldsskólum.

Árið 2016: Í skýrslu fagráðs um símenntun og starfsþróun kennara til mennta- og menningarmálaráðherra er m.a. lögð áhersla á eftirfarandi:
„Skapa þarf jafnar aðstæður og möguleika kennara til starfsþróunar óháð skólastigi og skólagerð [...]“
„Leggja þarf áherslu á aukið samstarf á milli skólastiga og skólagerða um starfsþróun.“

Árið 2018: Í tillögum starfshóps samstarfsráðs um stoðkerfi við starfsþróun, sem settar voru fram að ósk rýnihóps um aðgerðir til að auka nýliðun í kennslu og sporna gegn brotthvarfi úr starfi, er lagt til að eftirfarandi komi strax til framkvæmda:
„Veita þarf auknum fjármunum til Sprotasjóðs og efla hlutverk hans við að styðja við þróun og nýjungar í skólastarfi í leik-, grunn-, tónlistar- og framhaldsskólum.“
Tillögur starfshópsins um stoðkerfi við starfsþróun byggja á niðurstöðum fagráðs um starfsþróun kennara og skólastjórnenda í leik-, grunn-, tónlistar- og framhaldsskólum sem afhentar voru mennta- og menningarmálaráðherra í mars árið 2016 en þær fela í sér sameiginlega sýn aðila samstarfsráðs á starfsþróun, fjölbreytni hennar og órjúfanlegt samhengi við fagmennsku og daglegt skólastarf.

Árið 2018: Í skólastefnu Kennarasambands Íslands, sem samþykkt var á 7. Þingi KÍ í apríl 2018, kemur m.a. eftirfarandi fram:
„Jafna þarf aðstæður og möguleika kennara, náms- og starfsráðgjafa og skólastjórnenda til starfsþróunar eftir skólum, skólastigum, skólagerðum [...].“
Af þessari upptalningu má vera ljóst að öll málefnavinna síðustu ár hefur leitt til þeirrar einróma niðurstöðu að tónlistarskólar eigi að hafa aðgengi að Sprotasjóði líkt og aðrar skólagerðir. Mennta- og menningarmálaráðherra er hvattur til að eiga samtal við forystu Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum og afgreiða málið í takti við niðurstöður áðurnefndra starfshópa og fagráða í gegnum árin.


Svæðisþing tónlistarskóla haustið 2018 fóru fram skv. eftirfarandi:

 • Vestfjörðum, Hótel Ísafirði 7. september 2018
 • Vesturlandi, Fosshótel Stykkishólmi 12. september 2018
 • Austurlandi, Safnaðarheimili Norðfjarðarkirkju Neskaupstað 14. september 2018
 • Norðurlandi, Sigló Hótel Siglufirði 21. september 2018
 • Höfuðborgarsvæðinu, Grand Hótel Reykjavík 28. september 2018
 • Suðurlandi og Suðurnesjum, Íþróttaakademíunni Reykjanesbæ 4. október 2018

Ályktunin í PDF

 

 


 

Tengt efni