is / en / dk

21. Ágúst 2018

Samtök líffræðikennara, Samlíf, hvetja menntamálaráðherra til að gaumgæfa vel uppbyggingu í raungreinakennslu meðal annars með áherslu á verklega kennslu til að tryggja að nemendur nái tilsettum hæfniviðmiðum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ályktun sem Samlíf hefur sent Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra. 

Í ályktuninni segir að á sama tíma og kennsla í raungreinum hafi dregist saman í framhaldsskólum hefur kennslustundum í raungreinum í efstu bekkjum grunnskóla verið fækkað. Samlíf telur að í ljósi styttingar náms til stúdentsprófs væri eðlilegra að fjölga kennslustundum í náttúrugreinum í grunnskólum. „Verkleg kennsla í raungreinum hefur jafnframt dregist saman og fáir skólar hafa tök á því að bjóða upp á frambærilegar verklegar æfingar og vettvangsferðir. Sömu sögu má segja um æðstu menntastofnun landsins, Háskóla Íslands, þar sem verulega hefur verið dregið úr verklegri kennslu og vettvangsferðir heyra nánast til undantekninga vegna fjársveltis,“ segir orðrétt í ályktuninni. 

Þá undrast stjórn Samlífs að „ráðuneyti sem í orði kveðnu vill fjölga nemendum í raungreina- og tækninámi sporni ekki við skerðingu“. Samtökin kalla eftir að raungreinar; líffræði, efnafræði og jarðfræði, verði ríkur hluti af íslensku stúdentsprófi. 

Ályktunin í heild. 

  

Tengt efni