is / en / dk

15. Ágúst 2018

Alþjóðadagur kennara, eða kennaradagurinn eins og hann er líka kallaður, verður haldinn hátíðlegur hér á landi og um heim allan 5. október

Stofnað var til Alþjóðadags kennara að frumkvæði UNESCO og Alþjóðasamtaka kennara (Education International) árið 1994. Markmiðið með deginum hefur ávallt verið að vekja athygli á því mikilvæga starfi sem kennarar gegna í heiminum – en líka að efla samtakamátt kennara og huga að hvernig menntun barna verður best háttað í framtíðinni.

Kennarasamband Íslands mun sem fyrr fagna kennaradeginum með ýmsum hætti. Efnt verður til smásagnasamkeppni í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum um land allt. Smásagnasamkeppnin er nú haldin í fjórða sinn en þátttaka hefur verið góð frá upphafi. Við hvetjum kennara á öllum skólastigum til að vekja athygli á smásagnasamkeppninni meðal nemenda. 

Efnt verður til Skólamálaþings í tilefni Alþjóðadags kennara eins og síðustu ár. Þar sem kennaradaginn ber upp á föstudag hefur verið ákveðið að Skólamálaþing fari fram fimmtudaginn 4. október. Á þinginu verður rætt um stöðu íslenskunnar. Dagskrá þingsins verður kynnt um leið og hún liggur fyrir. 

Kennarasambandið hvetur kennara, skólastjórnendur og starfsfólk skólanna til að taka þátt í Alþjóðadegi kennara; nota tækifærið og vekja athygli á kennarastéttinni, fjölbreyttu og faglegu starfi kennara og skólastarfinu almennt. Skólafólk er hvatt til að gera gera sér dagamun og efna til viðburða í skólunum. 

Myllumerki dagins er #kennaradagurinn hér á landi en þeir sem vilja blanda sér í alþjóðlega umræðu dagsins get notað #worldteacherday.


KENNARADAGURINN 2017

 


 

Tengt efni