is / en / dk

10. Júlí 2018

Í kjölfar umræðu um skort á kennurum eru jákvæð teikn á lofti hvað varðar aðsókn að kennaranámi. Við Háskóla Íslands eru nú 1.288 umsóknir á Menntavísindasviði sem er ríflega 16% fjölgun frá fyrra ári. Umsóknum um grunnskólakennaranám fjölgaði um 6% og leikskólakennaranám um 60%. Alls sóttu 677 um framhaldsnám en til samanburðar má geta þess að árið 2017 voru einungis 447 umsóknir um framhaldsnámið. Við Háskólann á Akureyri er sömu sögu að segja, en þar er aukningin rúmlega 50% í grunnnám í kennaradeild.

Aðsókn í menntun framhaldsskólakennara hefur verið svipuð síðustu ár og hafa nú rúmlega 100 manns fengið boð um skólavist fyrir næsta ár.

Anna María Gunnarsdóttir, varaformaður KÍ, segir þetta ánægjulega þróun: „Við fögnum þessum tölum og það er ljóst að umræðan um að styrkja umgjörð í kringum kennara og auka nýliðun í stéttinni er að skila sér. Við gerum okkur grein fyrir að þetta er langhlaup en við erum þó að fara í rétta átt sem gefur okkur góða von um framtíðina“.
 

Tengt efni