is / en / dk

25. Apríl 2018

Samþykktir 7. Þings Kennarasambands Íslands ná yfir ýmis atriði er varða menntamál og er hér gerð grein fyrir þeim helstu. Þær má allar nálgast á vef KÍ.

Samþykkt gegn markaðsvæðingu menntunar
Menntun er á ábyrgð hins opinbera og opinberir fjármunir eiga að koma nemendum til góða. Einkavæðing, markaðsvæðing í menntakerfinu og samkeppni í velferðarþjónustu veikir jöfnuð í menntun, jafnræði til náms og minnkar opinber áhrif á menntakerfið í gegnum lýðræðislega kjörnar stofnanir. Þingið áréttar að félagslegt mikilvægi menntunar fyrir einstaklinga og samfélag gerir þær kröfur til stjórnvalda að vernda menntakerfið gegn áhrifum einkavæðingar og útvistun verkefna til einkaaðila. Þing KÍ leggur áherslu á að menntun á að vera aðgengileg öllum, innihald menntunar og faglegt starf á ekki að einkavæða og auka þarf eftirlit með einkareknum skólum.
Samþykktin í heild

Samþykkt um auknar fjárveitingar til menntunar og skólastarfs
Þing KÍ skorar á Alþingi og stjórnvöld að auka fjárveitingar til menntunar og skólastarfs. Opinber útgjöld til menntamála voru rúmum 9% lægri að raunvirði á árinu 2016 en þau voru árið 2008 og um 13,5% lægri ef tekið er tillit til mannfjölda samkvæmt tölum Hagstofu Íslands.
Samþykktin í heild 

Samþykkt um stöðu íslenskrar tungu í skólakerfi og samfélagi
Skorað er á Alþingi og stjórnvöld að tryggja stöðu íslenskrar tungu í skólakerfi og samfélagi. Staða íslenskrar tungu er brothætt og snúa þarf vörn í sókn. Að verki eru miklar og hraðar samfélags- og tæknibreytingar sem hafa víðtæk áhrif á flestum sviðum mannlífsins og áhrif enskunnar á íslenskt málumhverfi eru meiri og víðtækari en nokkru sinni. á árinu 2016 en þau voru árið 2008 og um 13,5% lægri ef tekið er tillit til mannfjölda samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Þingið leggur til aðgerðir til að styrkja stöðu íslenskrar tungu og eru þær m.a. að efla stöðu Íslenskrar málnefndar, að hvetja foreldra/forráðamenn og kennara til að lesa fyrir börn, að auka framboð á náms- og kennsluefni á íslensku, að afnema virðisaukaskatt á bækur og efla skólabókasöfn og tryggja skólum ókeypis aðgang að íslensku efni sem er framleitt með stuðningi ríkisins.
Samþykktin í heild

Samþykkt um menntun og farsæld nemenda með annað móðurmál en íslensku
Alþingi og stjórnvöld skulu standa við skuldbindingar um menntun og farsæld nemenda með annað móðurmál en íslensku samkvæmt alþjóðasáttmálum sem Ísland hefur undirgengist. Skólinn gegnir mikilvægu hlutverki í því að hjálpa nemendum með annað móðurmál en íslensku að skapa sér líf og góða framtíð í samfélaginu. Tryggja þarf skólum og kennurum sem bestar aðstæður til að vinna að þessu brýna verkefni. Þingið leggur til aðgerðir sem tilgreindar eru í samþykktinni.
Samþykktin í heild

Samþykkt tillaga Jafnréttisnefndar KÍ vegna áskorunar og yfirlýsingar #metoo
Lagt er til að KÍ, aðildarfélög og nefndir og ráð á vettvangi KÍ bregðist við áskorun og yfirlýsingu #metoo hópsins í menntageiranum. Stjórn KÍ og stjórnum aðildarfélaga KÍ verði falið að útfæra aðgerðir á grundvelli tillagna #metoo hópsins og að koma þeim í framkvæmd í samstarfi við nefndir og ráð KÍ. Jafnframt verði leitað eftir samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið um að fylgja aðgerðum eftir. Meðal aðgerða sem fara þarf í er að ráða jafnréttisfulltrúa hjá KÍ, setja tilkynningarhnapp á forsíðu ki.is og setja baráttu gegn kynbundnu misrétti á oddinn í kjaramálum.
Samþykktin í heild

Samþykkt um að hætta útgáfu handbókar
Þing KÍ samþykkir að hætta útgáfu handbókar kennara. Samþykktin byggir á könnun sem gerð var árið 2014 og sýndi að stór hluti félagsmanna notar handbókina ekki. Bæði fjárhagsleg og umhverfisleg rök studdu tillöguna.
Samþykktin í heild

 

 


 

Tengt efni