is / en / dk

22. Apríl 2018

Félag framhaldsskólakennara og Félag stjórnenda í framhaldsskólum skrifuðu undir samkomulag um breytingar og framlengingu á kjarasamningi við ríkið skömmu fyrir miðnætti í gærkvöld. Skrifað var undir samninginn með fyrirvara um samþykki félagsmanna. 

Launaliður samningsins er til samræmis við launalið þeirra kjarasamninga sem stéttarfélög opinberra starfsmanna hafa skrifað undir síðustu mánuði. Samningstíminn er stuttur eða út mars 2019. Í viðauka við samkomulagið er fjallað um ferli breytinga á vinnumati.

Samhliða kjarasamningi liggur fyrir samkomulag við mennta- og menningarmálaráðherra um að 350 til 400 milljónum skuli varið til endurmats á vinnumati þeirra áfanga sem falla undir meginbreytingu á námstíma til stúdentsprófs sbr. dóm félagsdóms frá 22. september 2016. Samkomulagið verður undirritað af mennta- og menningarmálaráðherra og formanni samninganefndar KÍ/framhaldsskóla á næstu dögum.

Samningurinn verður kynntur félagsmönnum FF og FS á næstu dögum og hefur formaður FF þegar sent bréf á félagsmenn og farið nánar yfir sérstök atriði samningsins.

Frá áramótum hefur Elna Katrín Jónsdóttir unnið með viðræðunefnd félagsins. Brynjólfur Eyjólfsson kennari við MA hefur jafnframt setið þessa samningalotu þótt hann hafi hætt störfum á liðnu ári.

„Reynsla og þekking á fyrri samningum er ómetanleg við samningaborðið og hefur styrkt stöðu okkar mjög. Nýtt fólk og ferskir vindar í bland við reynslu og þekkingu á fortíðinni er mikilvæg blanda við samningaborðið og verður seint metin til fulls,“ segir Guðríður Arnardóttir, formaður félags framhaldsskólakennara.

„Mennta- og menningarmálaráðherra hefur fylgst náið með gangi mála undanfarnar vikur og greitt götu okkar í veigamiklum atriðum. Fyrir það vil ég þakka. Nú vona ég að félagsmenn samþykki samninginn en þeirra afstaða þarf að liggja fyrir þann 11. maí nk," segir Guðríður jafnframt. 

Tengt efni