is / en / dk

17. Apríl 2018

Nauðsynlegt er að grípa til aðgerða til að fylgja eftir #metoo byltingunni og móta verður aðgerðaáætlun sem hægt verður að fylgja eftir gagnvart stjórnvöldum og fulltrúum atvinnurekenda, sem og innan stéttarfélaganna og heildarsamtaka launafólks. Þetta er meginniðurstaða fjölmenns fundar sem Kennarasamband Íslands, Alþýðusamband Íslands, BHM, BSRB og Kvenréttindafélag Íslands efndu til 10. febrúar síðastliðinn. 

Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, flutti ávarp sem bar yfirskriftina Loksins! og Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB, flutti fræðsluerindi sem bar titilinn Hver er réttur þinn? Að loknum ávörpum var tekið upp þjóðfundasnið undir stjórn Eyrúnar B. Valsdóttur, deildarstjóra fræðsludeildar ASÍ. Málin voru rædd í þaula og mótaðar tillögur að næstu skrefum og aðgerðum stéttarfélaga í innra starfi og gagnvart atvinnurekendum, stjórnvöldum og samfélaginu öllu. 

Helstu niðurstöður fundarins voru þessar: 

 • Hættum að laga konur. Lögum samfélagið!
 • Allir verða að taka þátt í byltingunni til að ná fram breytingum.
 • Atvinnurekendur axli ábyrgð, séu virkir í umræðunni og grípi til sýnilegra aðgerða á vinnustöðum með þátttöku allra starfsmanna.
 • Tryggja þarf jafnrétti og öryggi á vinnustöðum og útrýma valdaójafnvægi.
 • Taka þarf sérstakt tillit til innflytjenda, fatlaðra og annarra minnihlutahópa á vinnumarkaði.
 • Skyldubundin fræðsla og umræða milli stjórnenda og starfsfólks um #metoo, heilbrigð samskipti, mörk og meðvirkni.
 • Allir starfsmenn grípi inn í og stöðva niðrandi ummæli, hegðun og áreitni hvort sem hún beinist gegn þeim sjálfum eða öðrum.
 • Trúa þolanda, sýna stuðning og tryggja faglega aðstoð við að vinna úr atvikum.
 • Afleiðingar verði fyrir gerandann ekki þolandann.
 • Stéttarfélög eiga að vera leiðandi í umræðunni, virkja trúnaðarmenn og heimsækja vinnustaði.
 • Breyta jafnréttislögum og innleiða sektir sem vinnustaðir þurfa að greiða vinni þeir ekki markvisst að forvörnum og upprætingu kynbundinnar áreitni, kynferðislegrar áreitni og annars ofbeldis á vinnustöðum.
 • Fylgja eftir ákvæðum jafnréttislaga í framkvæmd með því að tryggja fræðslu og kennslu jafnréttis, kynjafræði, heilbrigð samskipti o.s.frv. á öllum skólastigum.
 • Stjórnvöld þurfa að leggja línurnar og tala skýrt um mikilvægi #metoo og styðja við aðgerðir í þágu byltingarinnar. Til þess þurfi að tryggja nægjanlegt fjármagn í málaflokkinn.  


Lesa má nánar um fundinn og niðurstöður hans í skýrslunni Samtal við #metoo konur – hvað getum við gert?

 

 

Tengt efni