is / en / dk

27. Mars 2018

Kennarasamband Íslands og félög kennaranema við Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands hafa ákveðið að koma á formlegum samstarfsvettvangi KÍ og stjórna félaga kennaranema um ýmiss konar málefni og að efla almenn tengsl og upplýsingamiðlun KÍ og kennaranema. KÍ og kennaranemafélögin tvö undirrituðu samstarfsyfirlýsinu þessa efnis undir lok síðasta árs.

Stjórn KÍ óskaði eftir við framkvæmdastjórn skólamálaráðs KÍ að koma formlegum tengslum og samstarfi í gang og var haldinn fundur um það með tengiliðum kennaranemafélaganna fyrir skömmu.
Þar var meðal annars ákveðið að nota komandi þing KÍ sem fyrsta skrefið í samstarfinu en KÍ býður tveimur fulltrúum kennaranemafélaganna, einum frá hvoru félagi, að sækja þingið og sitja það. KÍ hefur jafnframt óskað eftir að fulltrúar kennaranema haldi sameiginlegt erindi á þinginu um væntingar kennaranema til kennarastarfsins og kennarasamtakanna hér og nú og til framtíðar.

„Með þessari samstarfsyfirlýsingu fer KÍ að fordæmi systursamtaka sinna á hinum Norðurlöndunum en þar er áralöng hefð fyrir formlegum tengslum og samstarfi þeirra og kennaranema. Öll kennarasamtök þurfa að hugsa um framtíðina og ein af bestu aðferðunum við það er að leggja áherslu á að treysta sem best tengslin við verðandi kennara, samstarf um mikilvæg sameiginleg hagsmunamál, kennaranámið og kennarastarfið, og að verðandi kennarar kynnist og taki þátt í starfi KÍ. Við væntum mikils af þessu samstarfi og hlökkum til þess,“ segir Aðalheiður Steingrímsdóttir, varaformaður KÍ.

Í samtarfsyfirlýsingunni segir að KÍ og stjórnir félaga kennaranema muni halda reglubundna samræðufundi um sameiginleg hagsmunamál sem varða kennaranámið og kennarastarfið, mál sem eru efst á baugi hjá nemum og KÍ o.fl. Til að koma á skýrum farvegi fyrir skilvirk og stöðug tengsl og samstarf eru aðilar sammála um að nauðsynlegt sé að KÍ og stjórnir kennaranemafélaga hafi sér ákveðna tengiliði til að fylgja málum eftir á sínum vettvangi og koma upplýsingum áfram.

Formenn kennaranemafélaganna lýsa báðir ánægju með komandi samstarf við KÍ. „Þetta er spennandi samstarf því ég tel að það muni gagnast öllum og sambandið milli höfuðstöðvanna og grasrótar eflist til muna,“ segir Andri Rafn Ottesen, formaður Kennó – kennaranemafélagsins í HÍ.

Sólveig María Árnadóttir, formaður Magisters – kennaranemafélagsins í HA, tekur í svipaðan streng. „Ég vænti þess að samstarfið geri það að verkum að kennaraefni mæti tilbúnari og upplýstari varðandi sín réttindi þegar tekið er til starfa.“

Samstarfsyfirlýsing KÍ og kennaranemafélaganna í HA og HÍ.
 

 

 

 

 

 

 

 



Andri Rafn Ottesen og Sólrún María Árnadóttir. 

Tengt efni