is / en / dk

26. Mars 2018

María Dóra Björnsdóttir ver doktorsritgerð sína Mat á áhrifum náms- og starfsráðgjafar fyrir framhaldsskólanema í Hátíðarsal Háskóla Íslands föstudaginn 6. apríl klukkan 14:00. Enskur titill doktorsritgerðarinnar er Evaluation of career interventions. Short- and long-term outcomes for students finishing upper secondary school in Iceland. Vörnin er öllum opin. 

Í kynningu Háskóla Íslands segir: 

„Andmælendur eru dr. Norman E. Amundson prófessor við University of Brithish Columbia, Kanada og dr. Susan C. Whiston prófessor við Indiana University Bloomington, Bandaríkjunum.

Leiðbeinendur eru dr. Sif Einarsdóttir og dr. Guðbjörg Vilhjálmsdóttir prófessorar við Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands. Aðrir í doktorsnefnd eru dr. Guðmundur B. Arnkelsson prófessor við sálfræðideild Háskóla Íslands, dr. Janet G. Lenz sérfræðingur við Florida State University og dr. Marie S. Hammond dósent við Tennessee State University, Bandaríkjunum.
Dr. Hanna Björg Sigurjónsdóttir prófessor og varadeildarforseti Félags- og mannvísindadeildar Háskóla Íslands stjórnar athöfninni.

Megintilgangur rannsóknarinnar var að meta áhrif tveggja nálgana í náms- og starfsfræðslu fyrir framhaldsskólanemendur. Önnur nálgunin nýtti efni og leiðir sem hafa verið notaðar hérlendis er byggja á fjölþættum fræðilegum grunni. Hin nálgunin byggir á kenningu um hugræna úrvinnslu upplýsinga og leggur áherslu á ákvörðunartökuferlið sem slíkt.

Nemendur í útskriftar- og lokaáföngum í tveimur framhaldsskólum fengu náms- og starfsfræðslu með fyrrnefndu nálguninni og nemendur í tveimur skólum fengu fræðslu með þeirri síðarnefndu, í alls fjórar kennslustundir í öllum skólum. Nemendur í útskriftar- og lokaáföngum þriggja annarra skóla voru hafðir í samanburðarhópi.

Viku eftir að fræðslu lauk sýndu niðurstöður að þátttakendur í þeim hópi sem hafði fengið fræðslu sem byggir á kenningunni um hugræna úrvinnslu upplýsinga höfðu meira sjálfstraust varðandi ákvarðanatöku um nám og störf heldur en þátttakendur í samanburðarhópnum. Almenn lífsánægja þeirra var einnig meiri en í þeim hópi sem hafði fengið fræðslu með nálguninni sem beitt hefur verið hér á landi.

Við eins árs eftirfylgd reyndust þátttakendur í hópunum tveimur sem fengu náms- og starfsfræðslu ekki frábrugðnir þátttakendum í samanburðarhópnum og fræðslan hafði ekki áhrif á náms- og starfsval þeirra fyrrnefndu.
Þessi fyrsta rannsókn á árangri náms- og starfsfræðslu meðal framhaldsskólanema hérlendis veitir náms- og starfsráðgjöfum, menntastofnunum og stjórnvöldum mikilvægar upplýsingar um áhrif fræðslu.

Í fyrsta lagi virðast framhaldsskólanemendur þurfa skipulagðari náms- og starfsfræðslu en útskriftar- og lokaáfangar hafa innihaldið hingað til, jafnvel stutt fræðsla eins og hér er lýst hefur jákvæð áhrif allavega til skamms tíma. Í öðru lagi lítur út fyrir að náms- og starfsfræðsla sem byggir á hugrænni úrvinnslu upplýsinga sé gagnleg hér á landi fyrir verðandi stúdenta sem standa frammi fyrir því að taka ákvörðun um nám og starfsvettvang. Í þriðja lagi styður sú staðreynd að ekki tókst að staðfesta langtímaáhrif við þá ályktun að nemendur þurfi meiri ráðgjöf.

Kerfisbundin náms- og starfsfræðsla í gegnum allt skólakerfið myndi styðja nemendur við að verða sjálfstæðari í náms- og starfsvali við lok framhaldsskóla og auðvelda þeim að stjórna eigin náms- og starfsferli út lífið. Það ætti því að vera hagsmunamál íslenskra stjórnvalda að koma á fót stefnu í náms- og starfsfræðslu á öllum skólastigum.“

 

Hver er María Dóra Björnsdóttir?

  • María Dóra Björnsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1963. Hún lauk BA prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 1997, diplóma í námsráðgjöf árið 1999 og meistaraprófi í náms- og starfsráðgjöf árið 2007 frá sama skóla.
  • Hún hóf doktorsnám í náms- og starfsráðgjöf árið 2008. María var náms- og starfsráðgjafi í Háskóla Íslands frá 1999 til 2011 og hefur gegnt stöðu deildarstjóra náms- og starfsráðgjafar háskólans frá 2011.

Tengt efni