is / en / dk

12. Janúar 2018

Vinnudeilusjóður KÍ ákvað fyrr í dag að veita leikskólakennurum í Færeyjum, sem eru í verkfalli, tíu milljón króna styrk. Stjórn Vinnudeilusjóðs tók þessa ákvörðun að tillögu stjórnar Kennarasambands Íslands. 

Færeyskir leikskólakennarar hafa verið í verkbanni og verkfalli síðustu fimm vikurnar. Engin lausn virðist í sjónmáli og kjarasamningur ekki á borðinu. Verkfallið er farið að hafa áhrif á fjárhag félagsmanna. Byrjunarlaun leikskólakennara í Færeyjum eru 406.945 kr. á mánuði. Leikskólakennari með 15 ára starfsreynslu eða meira fær 471.342 kr. í laun á mánuði.

Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, er ánægður með styrkveitinguna. „Við viljum að sjálfsögðu leggja okkar af mörkum og aðstoða kollega okkar í Færeyjum. Ég er viss um að Færeyingar myndu gera það sama fyrir okkur," segir Haraldur Freyr. 

Félag leikskólakennara sendi færeyskum kollegum stuðningsyfirlýsingu skömmu fyrir jól þar sem bent var á að leikskólastigið sé 1. skólastigið og réttur barna sé til þess að fá gæðamenntun fagmenntaðra leikskólakennara. 

Føroya Pedagogfelag var stofnað 1. júní 1982. Formaður er Jógvan Philbrow. 


 

Tengt efni