is / en / dk

21. Desember 2017

Hátt í átta hundruð konur, sem starfa við kennslu á öllum skólastigum, hafa sent frá sér yfirlýsingu og reynslusögur til að varpa ljósi á kynferðisofbeldi, kynferðisáreitni og mismunun sem þær verða fyrir innan menntastofnana. 

Í yfirlýsingunni segir að þrátt fyrir að konur séu í meirihluta í skólum og menntastofnunum hafi þær ekki farið varhluta af þeirri kynjamismunun sem viðgengst víða í skólasamfélaginu. 

„Káf, ofbeldi, áreitni, yfirgangur, hunsun, meiðandi athugasemdir og smættun á vinnuframlagi kvenna –  allt þetta og meira til er hluti af reynslu kvenna í menntageiranum.
Konur sem starfa í menntageiranum krefjast þess að fá að vinna sína vinnu án áreitni, ofbeldis og mismunar. Þær krefjast þess að settir verði upp skýrir verkferlar hjá menntastofnunum til að takast á við kynbundið áreitni og að boðið verði upp á fræðslu fyrir starfsfólk og stjórnendur og þá sérstaklega um birtingarmyndir kynferðislegrar áreitni og kynbundinnar mismununar,“ segir í yfirlýsingunni. 

Þá er þess krafist að fag- og stéttarfélög verði í fararbroddi í því sem starfi sem fer í hönd við að uppræta mismunun og að þolendum slíks verði tryggður stuðningur þegar þeir leita aðstoðar, þeim verði boðin sálfræðiaðstoð og áfallastuðningur. 

Jafnframt verði hugað að aðstöðu nemenda því þeir verði líka fyrir kynbundnu ofbeldi, kynferðislegri áreitni og mismunun í menntakerfinu. Að lokum er þess krafist að gerð verði úttekt á umfangi ofbeldis, kynferðisáreitni og mismununar í menntastofnunum, bæði meðal starfsmanna og nemenda og brugðist við með forvörnum, aðgerðum og úrræðum. 

„Við stöndum saman! Við höfum hátt! Við krefjumst breytinga! #metoo #höfumhátt #konurtala.“ Svo hljóða lokaorð yfirlýsingarinnar. 

Yfirlýsing frá konum innan menntageirans – ásamt undirskriftum 737 kvenna, um 30 frásagna úr menntageiranum og stuttum útdrætti úr óformlegri könnun. 

 

Tengd frétt:

Rjúfum þögnina – frétt frá 22. nóvember um sameiginlega yfirlýsingu sem KÍ, BSRB, ASÍ og BHM  sendu frá sér. Í yfirlýsingu félaganna er kallað eftir því að atvinnurekendur og stjórnvöld axli ábyrgð og stórefli aðgerðir til að koma í veg fyrir kynferðislega áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. 
 

Tengt efni